Fara í efni

Örfáar athugasemdir vegna greinargerðar

Tveir aðilar, sem standa að rekstri tveggja fyrirtækja í ferðaþjónustu, hafa undanfarna daga beint fjölmörgum á vefsíðu þar sem er að finna skrif þeirra sem þeir kalla: "Markaðssetning ferðaþjónustu á landsbyggðinni á erlendum mörkuðum". Þá hafa höfundar fylgt eftir efni sínu með viðtölum í fjölmiðlum.

Höfundarnir segja í skeyti til mín þar sem mér er bent á umrædda vefslóð: "Markmiðið er að koma af stað uppbyggilegri umræðu um þetta mál sem varðar alla sem starfa í greininni."

Þetta er hið göfugasta markmið og undirritaður fagnar allri umræðu um þetta mál greinarinnar eins og önnur, sem leitt gæti til jákvæðrar niðurstöðu. Undirritaður hefur margoft fjallað í ræðu og riti um það vandamál sem hér er gert að umtalsefni og telur mjög mikilvægt að áfram verði unnið á faglegum nótum.

Það er aftur á móti aðferðarfræðin sem vekur athygli.
Getur það verið upphaf að uppbyggilegri umræðu að byrja á að fara með rangfærslur og ávirðingar af fjölmörgu tagi um þá aðila sem menn vilja eiga uppbyggilegar umræður við?

MARKAÐSVINNAN ERLENDIS

Í umræddri samantekt er mikið fjallað um stofnunina Ferðamálaráð í tengslum við markaðsvinnu erlendis á síðastliðnum fjórum árum. Það vekur furðu, en svo mætti halda að höfundar vissu ekki að einmitt á þeim árum sem rætt er um í skýrslunni hafa öll erlend markaðsmál, stefnumótun, aðgerðaráætlanir og fjárhagsáætlanir verið unnar í MARKAÐSRÁÐI FERÐAÞJÓNUSTUNNAR, sem sett var á stofn í framhaldi af gerð þeirrar markaðsáætlunar sem mikið er rætt um í samantektinni.

Markaðsráðið var stofnað árið 1999 samkvæmt sérstökum samningi á milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Samtaka ferðaþjónustunnar. Sá samningur var í gildi árin 1999-2002. Þannig að þegar rætt er um t.d. "útgjaldamynstur FMR" til markaðsmála og stefnuna í þessum málaflokki þá á öllum að vera ljóst að Ferðamálaráð hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um nein útgjöld til markaðsmála erlendis á þessum árum eða lagt þar línur. Þær ákvarðanir hafa verið teknar í Markaðsráði ferðaþjónustunnar, þar sem lögð var áhersla á að rödd greinarinnar væri sterk og var markaðsráðið undir formennsku fulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar öll þessi ár.

Nokkrar breytingar hafa verið á starfstíma ráðsins, á því hverjir hafa setið í því en til upplýsinga þá sátu eftirtaldir í Markaðsráði ferðaþjónustunnar á síðasta ári:

Ómar Benediktsson (fulltrúi SAF), formaður Markaðsráðsins
Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri SAF (fulltrúi SAF)
Steinn Logi Björnsson formaður SAF (fulltrúi SAF)
Helgi Pétursson (fulltrúi Reykjavíkurborgar)
Jakob Falur Garðarsson aðstoðarmaður samgönguráðh. (fulltrúi samgöngrh)
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður (fulltrúi samgöngurh.)
Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður (fulltrúi samgöngurh.)

Ferðamálaráð Íslands, sem í sitja sjö fulltrúar, hefur á þessum árum ekki haft með þennan málaflokk að gera, enda var hann settur í annan farveg sem undirritaður taldi að öllum sem starfa í ferðaþjónustu væri ljós. Enda hefur annar höfunda sent Markaðsráði ferðaþjónustunnar erindi og óskað eftir samstarfi í markaðsmálum erlendis, svo honum var alla vega ljóst hver fór með ákvörðunarvald í þessum málaflokki. Hvernig honum tekst að minnast ekki einu orði á Markaðsráð ferðaþjónustunnar í 20 síðna samantekt um markaðsmál erlendis á undaförnum árum er algjörlega óskiljanlegt.

Í ljósi þessara meginmistaka höfunda, sem einhvers staðar hefði verið kallað að "hengja bakara fyrir smið", minnkar verulega trúverðugleiki samantektarinnar hvað varðar árásir á þá fulltrúa sem sitja og hafa setið í Ferðamálaráði Íslands á þessum árum. Af þessu leiðir að öll skrif á bls. 8-11 í umræddu skjali, þar sem sett er fram hörð gagnrýni á stefnu, aðgerðaáætlanir og skiptingu fjármagns í markaðsmálum á síðustu fimm árum með vísan til Ferðamálaráðs, á eðlilega ekki við hvað varðar sl. fjögur ár. Ástæðan er, eins og að framan segir, að engar slíkar ákvarðanir voru á borði Ferðamálaráðs Íslands heldur innan Markaðsráðs ferðaþjónustunnar.

UPPLÝSINGAMÁL

Í samantektinni er á nokkrum stöðum fjallað um skort á upplýsingum frá Ferðamálaráði Íslands. Í kafla 3.6. eru slíkar aðdróttanir að kanna getur þurft hvort einstaklingar geti dreift slíkum aðdróttunum án þess að þurfa að standa fyrir máli sínu. Vangaveltur eins og "Væntanlega hefur bókhaldi FMR verið skilað til ríkisbókhalds síðan þá" ( 1997) og fleiri slíkar eru dæmi um slíkt. Ekki hefur eingöngu verið staðið við ákvæði um skil á bókhaldi til ríkisbókhalds á hverju ári á réttum tíma, heldur hefur bókhaldsgögnum auðvitað einnig verið skilað til Ríkisendurskoðunar eins og lög gera ráð fyrir. Upplýsingar um þessa stofnun eins og aðrar ríkisstofnanir koma síðan eðlilega fram í Ríkisreikningi hvers árs.

Í samantektinni er bent á að Ferðamálaráð hafi hætt að gefa út ársskýrslu 1997. Það er rétt og fyrir því voru nokkrar ástæður. Ársskýrsla Ferðamálaráðs hafði í fjölmörg ár verið annars vegar upplýsingar um störf ráðsins og hins vegar almenn tölfræði um greinina. Þetta var nokkurs konar ársskýrsla ferðaþjónustunnar. Árið 1998 voru Samtök ferðaþjónustunnar stofnuð og þau hófu útgáfu tölfræðiefnis hliðstætt og hafði áður verið í ársskýrslu stofnunarinnar. Þá var settur upp upplýsingavefur stofnunarinnar, þar sem settar eru nær daglega inn upplýsingar um starfsemina og það sem er að gerast á vettvangi ferðaþjónustunnar. Stofnunin hefur nú aftur tekið upp (árið 2000) að gefa út tölfræðibækling fyrir liðið ár.

Hvað varðar aðgang að upplýsingum um störf Ferðamálaráðs Íslands þá fullyrði ég að eftir setningu upplýsingalaga hefur almenningur aldrei haft eins mikinn og beinan aðgang að upplýsingum um störf stofnunarinnar. Upplýsingavefur stofnunarinnar www.ferdamalarad.is (sem nefndur er samskiptavefur ferðaþjónustunnar) er uppfærður nær daglega og þar eru m.a. allar fundargerðir ráðsins aðgengilegar svo sjá má allar afgreiðslur og ákvarðanir þess. Á þessum vef hafa einnig verið markaðáætlanir og fjárhagsáætlanir Markaðsráðs ferðaþjónustunnar, niðurstöður kannana, styrkveitingar og fjölmargt annað um starfsemi stofnunarinnar. Ef þessar upplýsingar eru ekki nægar þá er öllum gefinn kostur á því á vefnum að leggja fram spurningar. Og eins og sést er þeim síðan svarað af starfsmönnum stofnunarinnar eða öðrum.

Á bls. 18 segir:"Margir í greininni eru óánægðir með stofnunina í dag vegna skorts á upplýsingum um starfsemina". Miðað við stóraukið upplýsingastreymi og aukin tækifæri til að óska eftir upplýsingum er vandséð hvernig óánægja vegna skorts á upplýsingum eigi við rök að styðjast nema aðilar beri sig ekki eftir þeim eða nýti sér ekki aðgengi að upplýsingum á rafrænu formi

Það sérstaka við þessi skrif er að um leið og farið er mjög alvarlegum orðum um skort á upplýsingum frá stofnuninni og m.a. sagt að farið sé með upplýsingar um stofnunina eins og ríkisleyndarmál hafa höfundar ekki leitað til stofnunarinnar með beiðni um ákveðnar upplýsingar, hvorki á samskiptavefnum né hefur borist erindi frá þeim.

Í lok skjalsins segir: "Við biðjumst velvirðingar ef einhverjar rangfærslur er að finna í henni. Þær byggjast ekki á óvild eða óheiðarleika en geta orðið til vegna skorts á upplýsingum" Setja verður fram efasemdir um þessa fullyrðingu. Sú meginrangfærsla að hvergi er minnst á þann aðila sem fór með ákvarðanir í markaðsmálum erlendis sl. fjögur ár, Markaðsráð ferðaþjónustunnar , er ekki vegna skorts á upplýsingum, þar sem annar höfundur skýrslunnar átti bein samskipti við Markaðsráðið. Þá vaknar spurningin, miðað við ofangreindan texta , hvort sú rangfærsla byggist á óvild eða óheiðarleika?

Stærsta spurningin um þessi makalausu skrif um skort á upplýsingum er, eins og minnst er á hér að framan: Hvers vegna hefur þá ekkert erindi borist stofnuninni frá höfundum með beiðni um upplýsingar? Er auðveldara að setja skjal saman og fela síðan rangfærslur og aðdróttanir á bak við meintan upplýsingaskort, sem hefði fallið um sjálfan sig ef leitað hefði verið upplýsinga? Hefur einhvern tíma átt betur við: "Skjóta fyrst og spyrja svo" ?

ÁRANGUR OG AÐGERÐIR

Erfitt er fyrir undirritaðan að svara fyrir allar þær athugasemdir sem settar eru fram um ofangreint. Þó skal stiklað á nokkrum þáttum.

Á bls. 8 segir: "Frá árinu 1997 hefur u.þ.b. 500 milljónum verið varið í markaðssetningu höfuðborgarinnar á móti örfáum milljónum sem farið hafa í markaðssetningu landsbyggðarinnar"
Í almennu landkynningarefni er ekki gerður greinarmunur á höfuðborg eða landsbyggð og bið ég höfunda t.d. að skoða árlegan almennan landkynningarbækling, sem dreift er á markaðssvæðum okkar og sjá þar vægi höfuðborgar og landsbyggðar. Kostnaður við hann á umræddu tímabili er um 110 milljónir króna.

Sama á við um myndbönd , kynningarvefi o.fl.,sem eru kostuð af markaðsfé og til almennrar kynningar. Ég hvet höfunda til að skoða alla upplýsingavefi ráðsins sem flokkast undir almennt kynningar- og markaðsstarf og eru kostaðir af markaðsfé.

Sýningarþátttaka erlendis á sl. 5 árum hefur kostað um 45 milljónir króna. Varla blandast nokkrum hugur um að á umræddum sýningum, sem standa öllum ferðaþjónustuaðilum opnar til kynningar, er landið allt kynnt.

Ferðamálasamtök landhlutanna (7 af 8 utan höfuðborgarsvæðis) hafa á sama tíma fengið tæpar 70 milljónir. Þessir fjármunir eru m.a. nýttir til gerðar kynningarefnis, sbr. t.d. myndband og bækling um Austurland á síðasta ári.

Lögð hefur verið áhersla á að byggja upp upplýsingamiðstöðvar á landsbyggðinni. Er það gert til að veita þeim upplýsingar sem ferðast um landið en einnig svara
upplýsingamiðstöðvarnar fyrirspurnum frá erlendum mörkuðum, veita söluaðilum upplýsingar um vöruframboð og nýjungar auk ýmissa kynninga. Af hálfu opinberra aðila hefur verið varið til þessa þáttar 42 miljónum á umræddu tímabili.

Á síðasta ári leitaði annar höfundur skýrslunnar, Anton Antonsson, til Markaðsráðs f.h. LTU um samstarf í markaðsmálum í Þýskalandi vegna flugs félagsins til Egilsstaða. Orðið var við beiðninni með því að 10 milljónir voru nýttar til þessa samstarfs.

Þá hafa fjölmiðlaheimsóknir erlendra fjölmiðlamanna, sem hafa fjallað um landið allt og einstaka landshluta, verið að hluta til fjármagnaðar af Markaðsráði.

Fjölmargt fleira mætti nefna, sem unnið hefur verið að og snertir landsbyggðina a.m.k. ekki síður og jafnvel frekar en höfuðborgarsvæðið.

Erfitt er að sjá af þessari stuttu samatekt að á sl. fimm árum hafi "örfáum miljónum verið varið í markaðsetningu landsbyggðarinnar".

Þá er ótalinn innlendi þátturinn. Eins og kemur fram í samantektinni þá er íslenski markaðurinn mikilvægastur fyrir landsbyggðina. Samgönguráðherra beitti sér fyrir því á síðasta ári að um 32 milljónir króna voru settar í átakið " Ísland sækjum það heim". Ákveðinn hluti upphæðarinnar er nýttur utan háannatíma, eðlilega í þeim tilgangi að auka umfangið á landsbyggðinni á þeim tíma. Mun meiri fjármunir verða nýttir í þessum tilgangi á þessu ári en nokkru sinni fyrr.

Á bls. 9 segir: "Gæðin og framboðið á landsbyggðinni hefur aukist til muna á þessum tíma en upplýsingar um það hafa ekki skilað sér til neytandans" Hvers vegna ekki? Hafa rekstraraðilar eða söluaðilar ekki komið framboðinu á framfæri?

Hvað snertir opinbera aðila þá skal þrennt nefnt sem ætti að stuðla að því að neytendur vissu af framboðinu og einnig gæðunum.

Fyrir nokkrum árum var tekin upp gæðaflokkun gististaða. Allar upplýsingar um þá gæðaflokkun eru á vefsíðum Ferðamálaráðs, í Handbók ráðsins og einnig í almennum landkynningarbæklingi. Mikil áhersla hefur verið lögð á að koma þessum upplýsingum til skila. Aukin gæði í þessum þætti greinarinnar á landsbyggðinni ættu því augljóslega að koma þarna fram sem þau og gera. Aukið framboð kemur síðan fram í gagnagrunni Ferðamálaráðs, sem er á öllum vefsíðum ráðsins sem eru uppfærðir reglulega og einnig er gagnagrunnurinn prentaður í áðurnefndri Handbók.

Á bls. 10 segir: "Það má vera ljóst að ef unnið hefði verið af fagmennsku í markaðsmálum hjá FMR væri ekki komið upp það ójafnvægi....." Hér er í reynd vegið að starfsmönnum stofnunarinnar, sem unnið hafa að markaðsmálum fyrir Markaðsráðið á þessum árum og þá sérstaklega starfsmönnum erlendis gefin sú einkunn höfunda að þeir hafi ekki unnið af fagmennsku.

Erfitt hlýtur að vera fyrir starfsfólk okkar innanlands og utan að una slíkum dómi miðað við þá vinnu sem innt hefur verið af hendi við að ná settum markmiðum í samvinnu við greinina. Eða eru höfundar að meina að þeir sjö sem sátu í Markaðsráði og unnu aðgerðar- og fjárhagsáætlun og lögðu línur vegna markaðsmála erlendis hafi ekki unnið af fagmennsku?

Það verður að teljast nokkuð langsótt að minnast hvergi á hlutverk ferðaþjónustufyrirtækja, ferðaheildsala eða söluaðila í markaðsvinnunni. Er ábyrgðin öll hjá hinu opinbera? Það sem vel gengur í markaðsmálum ferðaþjónustunnar er það þá vegna vinnu opinberra aðila? Hver er ábyrgð hinna? Hvergi er minnst á þeirra hlutverk eða ábyrgð í að markaðssetja sína vöru? Ef framboð í ákveðnum landshluta stóreykst er það þá á ábyrgð opinberrar stofnunar að neytendur skili sér til þess aðila erlendis frá? Ef eftirspurnin erlendis frá er ekki í samræmi við stóraukið framboð er þá ástæðan ófagleg vinnubrögð opinberra aðila?

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að benda á að á bls. 4 í samantektinni eru birt átta töluleg markmið, sem sett voru fram í stefnumótun 1997. Þar var stefnt að því að ná þessum ákveðnu markmiðum árið 2005.

Nú er ljóst að þessi meginmarkmið munu ÖLL nást innan tímarammans. Flestum er þegar náð, nánar tiltekið öllum utan einu, sem er gert að meginumræðuefni í samantektinni. Þetta hefur tekist í samvinnu fjölmargra aðila.

Ekki skal gert lítið úr því tölulega markmiði sem enn hefur ekki náðst, en er með einhverri sanngirni hægt að segja að ófaglega hafi verið unnið að markaðsmálum með vísan til ofangreinds árangurs, sjö meginmarkmiðum náð af átta?

LOKAORÐ

Ekki verður hér farið yfir hugmyndir eða tillögur höfunda til lausnar sjálfu vandamálinu. Það bíður annars tíma. Þó virðist vera að þeir sjái möguleikana varðandi landsbyggðina fyrst og fremst liggja i 5 mánaða tímabili hvað varðar erlenda markaðinn. Ekki sé raunhæft að þeirra mati að landsbyggðin njóti vetrarferðamanna hliðstætt og Reykjavík. Það hljóta að vera mörgum vonbrigði, ef söluaðilar telja slíkt ekki raunhæft. Sjái söluaðilar ekki fram á það er erfitt að sjá hvernig stjórnvöld geti náð þessu áttunda tölulega markmiði. Það hlýtur að vera samvinnuverkefni eins og unnið hefur verið að því að ná hinum.

Á mörgum sviðum er unnið af hálfu stjórnvalda til að gera landsbyggðina betur í stakk búna í ferðaþjónustu:
Stórauknar vegabætur, sem tryggja aðgengi að stöðugt stærri hluta landsins allt árið.

Tveir alþjóðaflugvellir byggðir upp og opnir á landsbyggðinni allt árið.

Til að tryggja samgöngur enn frekar á heilsársgrunni við sem flesta staði landsins hefur samgönguráðherra beitt sér fyrir beinum fjárstuðningi til samgöngufyrirtækja; innanlandsflugs, hópferðafyrirtækja og ferjufyrirtækja. Þessi beini stuðningur á sl. ári var á bilinu 400- 500 milljónir króna. Slík aðgerð ein og sér styrkir verulega forsendur til að halda uppi heilsársferðaþjónustu á landsbyggðinni þar sem samgöngur eru undirstaðan.

Unnið er að úrbótum á vegum Ferðamálaráðs á fjölsóttum ferðamannastöðum, öllum utan höfuðborgarsvæðis. Af hálfu stjórnvalda hefur verið varið um 150 milljónum króna til þessara úrbóta sl. 5 ár.

Byggðastofnun hefur á undanförnum árum varið verulegum fjármunum til vöruþróunar í ferðaþjónustu, uppbyggingar aðstöðu og til beins markaðsstuðnings, eingöngu á landsbyggðinni. Þá hefur stofnunin komið að fyrirtækjaresktri.

Unnið hefur verið að hafnarbótum til að bæta aðstöðu m.a. vegna nýrrar Norrænu og til að bæta aðstöðu til móttöku skemmtiferðaskipa.

Í samvinnu við sveitarfélög hefur verið unnið sérstaklega að kynningu á möguleikum til móttöku skemmtiferðaskipa, með þeim árangri að veruleg fjölgun hefur orðið á komum þeirra til hafna á landsbyggðinni.

Samgönguráðherra hefur látið vinna sérstaka samantekt, sem ber heitið Auðlindin Ísland. Þar er Ísland allt kortlagt út frá forsendum ferðaþjónustunnar og lagðar fram tillögur að nýrri skipan, sem líka hefði áhrif á alla markaðsvinnu landsbyggðar.

Þá hefur samgönguráðherra látið vinna aðgerðaráætlun í menningartengdri ferðaþjónustu, sem snýr ekki síst að ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Þá skal aftur minnt á þá fjármuni sem veitt er til upplýsingamiðstöðva og til Ferðamálasamtaka Íslands, sem að verulegu leyti fara til upplýsinga-, kynningar- og markaðsmála varðandi landsbyggðina, samtals 112 milljónir króna á síðustu fimm árum.

Ljóst er af þessari upptalningu að af hálfu stjórnvalda hefur verið og er unnið á fjölmörgum sviðum að því að skapa ferðaþjónustufyrirtækjum, sveitarfélögum og öðrum enn betri skilyrði til uppbyggingar heilsárs ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Hér verður látið staðar numið og ekki verið á þessum vettvangi að elta frekar ólar við alvarlegar ávirðingar í garð starfsmanna stofnunarinnar sem koma fram víða í samantektinni. Nauðsynlegt gæti reynst að kanna hvort ástæða er til frekari aðgerða með vísan til beinna alvarlegra aðdróttanna á hendur einstökum starfsmönnum sem sendar hafa verið til æðstu stjórnvalda í umræddri samantekt. Nauðsynlegt gæti reynst að láta reyna á sannleiksgildi þeirra til að hreinsa æru viðkomandi starfsmanna.

Hver tilgangurinn er með dreifingu þessa óhróðurs um starfsemi og starfsmenn Ferðamálaráðs verða höfundar að svara, sérstaklega þegar gagnrýnin beinist á veigamiklum sviðum að ákvarðanatöku allt annars aðila. Og vitandi það beina höfundar spjótum sínum í fjölmörgum tilfellum að röngum aðila.

Það er alla vega ljóst að tilgangurinn er ekki sá sem segir í því skeyti sem fylgdi með "....að koma af stað uppbyggilegri umræðu." Það er ekki gert með óhróðri, aðdróttunum og vísvitandi rangfærslum. Sá sem vísvitandi fer með rangfærslur eins og í þessu tilfelli varðandi, t.d. ruglinginn á Ferðamálaráði og Markaðsráði, hefur einhvern allt annan tilgang en að gera ráð fyrir að vera tekinn alvarlega þegar hann ræðir um uppbyggilega umræðu.

Magnús Oddsson
ferðamálastjóri