Fara í efni

Samtökin "Cruise Iceland" stofnuð

Í nýútkominni skýrslu um stöðu Íslands sem viðkomustaðar fyrir skemmtiferðaskip kemur fram að mögulegt sé að tvöfalda farþegafjölda með skemmtiferðaskipum til landsins fram til ársins 2010. Það voru hafnirnar í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði, ásamt skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum, sem stóðu fyrir gerð skýrslunnar.

Þessir aðilar hafa átt árangursríkt markaðssamstarf sl. 10 ár og í samræmi við niðurstöður skýrslunnar hefur verið ákveðið að fara í frekari aðgerðir, m.a. að stofna samtökin "Cruise Iceland". Ætlun þeirra er að auka samvinnu allra sem hagsmuna eiga að gæta vegna móttöku skemmtiferðaskipa.

Að mati skýrsluhöfundar á Ísland mikla framtíð fyrir sér sem ákjósanlegur viðkomustaður fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Mikill vöxtur er í þessum þætti iðnaðarins í heiminum og skapast Íslandi þar fjölmörg tækifæri. Í skýrsluni er lögð sérstaka áherslu á sterka stöðu Íslands fyrir náttúru og ævintýraferðir af ýmsum toga. Sérstaðan fellst m.a. í því að skoða hina stórbrotnu náttúrufegurð landsins frá sjó og jafnframt að geta upplifað náttúruna sem víðast á landi.

Hvað á að gera?
Samstarfshópurinn telur að nú sé einstakt tækifæri til að efla markaðssókn og að auka samvinnu allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta við móttöku skemmtiferðaskipa með því að stofna samtökin "Cruise Iceland?. Á verkefnaskrá samtakanna er m.a.:

  • Að bæta aðstöðu fyrir skip og farþega
  • Að stuðla að fjölgun viðkomustaða á Íslandi
  • Að taka þátt í og örva umræðu um öryggismál skipa og farþega
  • Að bæta vöruþróun í afþreyingu fyrir farþega og auka og efla kynningu á þeim vettvangi
  • Að stuðla að sjálfstæðu kynningarstarfi í útlöndum og einnig í samvinnu við aðra
  • Að lengja dvöl skipanna í höfn
  • Að vertíðin lengist í báða enda
  • Að stuðla að því að Ísland geti orðið markaður fyrir "turn-around" skip
  • Að skemmtiferðaskip hafi sumardvöl á Íslandi og bjóði uppá fjölbreyttar ævintýraferðir

Eftir miklu er að slægjast
Á síðustu 10 árum hefur farþegafjöldinn til áðurnefndra þriggja hafna samtals aukist úr 22 þúsund farþegum á ári í 53 þúsund. Fjöldi skipakoma á sama tíma hefur farið úr 51 á ári í rúmlega 100. Heildartekjur sem skapast vegna komu farþega og skipa á árinu 2002 eru áætlaðar ekki lægri en 1 miljarður króna og gert er ráð fyrir að tekjur þessar árið 2010 verði 2-3 miljarðar króna, ef áætlanir ganga eftir.