Fréttir

Hægt að ganga á milli heimsálfa

Brú á milli heimsálfa var formlega vígð við hátíðlega athöfn á Reykjanesi í gær. Það voru þeir Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sem klipptu á borða á milli Evrópu og Ameríku og gengu að því loknu á milli heimsálfanna. Þessari táknrænu brú var komið fyrir yfir gjá sem myndast hefur vegna hreyfingar meginlandsflekanna, Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, sem mætast hér á landi. Gjáin er á því svæði sem flekaskilin ganga upp á landið en þau halda áfram frá Reykjanesi, norður fyrir land, og eru víða sýnileg. Brúin er 18 m löng og situr á gjánni þar sem hún er um 6 m há, við veginn á milli Hafna og Reykjanesvita, ofan Stóru-Sandvíkur. 8 ára hugmynd orðin að veruleikaHugmyndin um gerð slíkrar brúar vaknaði fyrir um 8 árum hjá Jóhanni D. Jónssyni, ferðamálafulltrúa Reykjaness. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar stóð fyrir byggingu brúarinnar en hópur fólks undir forystu Hjálmars Jónssonar alþingismanns kom framkvæmdinni af stað. Íslenskir aðalverktakar sáu um smíðina og eru jafnframt aðal stuðningsaðili verkefnisins. Ýmsir fleiri hafa komið að því, m.a. Ferðamálaráð. Til framkvæmdarinnar hafa verið lagðar um 10 milljónir króna en eftir er að leggja í kostnað vegna upplýsingaskilta og stígagerðar. Auk þess hefur Vegagerðin kostað hluta bílastæða. Hægt að fá viðurkenningarskjalFólki gefst kostur á að fara yfir brúna hvenær sem er, því að kostnaðarlausu. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfanna" en markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar sér um að úthluta slíkum viðurkenningum gegn vægu gjaldi. Er þess þannig vænst að brúin verði sjálfbær.  
Lesa meira

Ný röð ferðakorta

Landmælingar Íslands hafa gefið út fyrsta ferðakortið af þremur í nýrri röð ferðakorta í mælikvarðanum 1:250.000. Fyrsta kortið nær yfir Vestfirði og Norðurland og í tilefni útkomu þess afhenti Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra, fyrsta eintak kortsins á blaðamannafundi í morgun. Hin tvö ferðakortin koma út á næsta ári. Annað þeirra tekur til Suður- og Vesturlands en hið þriðja til Austurlands. Í fréttatilkynningu kemur fram að nýja kortaröðin komi í stað svokallaðra aðalkorta í sama mælikvarða en þau voru níu talsins. Kortunum hefur því verið fækkað úr níu í þrjú og er það m.a. gert til að koma til móts við neytendur. Þá var blaðskipting milli landshluta einnig ákveðin með hliðsjón af ferðavenjum landsmanna. Stærri en gengur og geristÍ tilkynningunni segir að nýju ferðakortin séu stærri en gengur og gerist um landakort og stærstu ferðakort sem gefin hafa verið út hér á landi á einu blaði. Stærð hvers korts er 86 x 137 cm. Samanbrotin eru þau hins vegar með sama umfang og önnur kort Landmælinga. "Kortið er með hæðarskyggingu sem gerir alla notkun þægilegri. Allar upplýsingar um örnefni og ferðaþjónustu hafa verið yfirfarnar og nýjar settar inn. Einnig má nefna að víða um land hafa vegastaðsetningar verið GPS mældar með mikilli nákvæmni og skilar sú vinna sér í þessari útgáfu. Þá hafa vegalengdir milli staða einnig verið uppfærðar í samræmi við þessar mælingar. Nýja ferðakortið er því einstaklega örugg heimild fyrir ferðafólk. " 15 þúsund örnefniNýja ferðakortið er að öllu leyti unnið stafrænt. Kortið er byggt á grunnupplýsingum úr gögnum Landmælinga Íslands sem hafa verið uppfærðar og endurbættar þar sem þess var þörf. Stór hluti kortaupplýsinganna er fenginn úr stafrænum kortagrunnum. Stafræna vinnslan gerir síðari tíma breytingar á kortunum afar auðveldar. Alls verða um 15 þúsund örnefni og heiti á ferðakortunum þremur. Til samanburðar má geta þess að á algengasta ferðakorti Landmælinga, vegakortinu í mælikvarðanum 1:500.000, eru um 3.300 nöfn. Útsöluverð nýja ferðakortsins er 1.290 kr.  
Lesa meira