Fréttir

Ísfirðingar ræða leiðir til að lengja ferðamannatímabilið

Aðilar í ferðaþjónustu í Ísafjarðarbæ ætla að hittast á hádegisfundi í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað í dag og ræða um samræmdar aðgerðir til að kynna sveitarfélagið sem funda- og ráðstefnubæ. Þetta kemur fram í frétt í Bæjarins besta í dag. Til fundarins boðar ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar, Rúnar Óli Karlsson. Bæjarins besta hefur eftir Rúnari Óla að á fundinum verði rætt um leiðir til að lengja ferðamannatímabilið og fá fólk til bæjarins á jaðartímum, í maí og í september og október. Ein leiðin til þess sé að kynna bæinn sem heppilegan stað fyrir ýmis konar samkomur og mannamót, fundi og ráðstefnur. Jafnframt er haft eftir Rúnari Óla að forsvarsmenn þeirra fyrirtækja og félagasamtaka sem hafa komið til Ísafjarðar í þessum erindagjörðum séu mjög ánægðir. Uppi séu ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt er að kynna bæinn betur og verða þær ræddar á fundinum. Nú hafi fengist fjármagn til þess konar kynningarstarfs, 200.000 krónur frá bæjarfélaginu og 500.000 krónur frá Ferðamálaráði. Sá styrkur sé eyrnamerktur auglýsingum á jaðartímum ferðamannatímabilsins. Myndatexti:  Frá Ísafirði. Mynd af vef Bæjarins besta.  
Lesa meira

Ferðaútgáfa Heims komin á Netið

Ferðaútgáfa Heims er nú komin á Netið. Um er að ræða Íslandsbækurnar, Á ferð um Ísland, Around Iceland, Rund um Island, Reykjavík this month, South Iceland, East Iceland og Undur Vestfjarða. Fleiri útgáfur eru væntanlegar á næstu vikum. Mikil eftirspurn er eftir bókunum erlendis frá bæði af þeirra hálfu sem eru að kynna landið og eins þeirra sem væntanlegir eru til landsins. Dreifing kynningarefnis hefur aðallega miðast við innanlandsmarkað og er því mikill fengur í netútgáfunni fyrir ofangreinda aðila auk þess sem markhópur auglýsenda stækkar verulega. Hægt er að prenta út skjölin af netinu og þar með velja t.d. ákveðin landssvæði eða upplýsingar. Smellið hér til að skoða vefútgáfu Heims.  
Lesa meira

Árleg ferðamannakönnun á Borgarfirði eystri

Nú í sumar gekkst Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri fyrir ferðamannakönnun fimmtánda árið í röð. Var þetta jafnframt í sextánda sinn sem ferðamenn eru taldir í Álfasteini. Ferðamannakönnunin var unnin á sama hátt og áður, ekki vísindalega en þó má draga af henni ýmsan lærdóm, að sögn Helga M. Arngrímssonar, formanns Ferðamálahóps Borgarfjarðar. Eyðublöðin lágu eins og áður frammi í Fjarðarborg og Álfasteini og nú einnig á Borg. Í sumar fengust 220 svör sem eru sæmilegar heimtur en könnunin nær eingöngu til Íslendinga. Svarhlutfall miðað við íslenska ferðamenn er tæp 4%, eða örlítið lægra en 2001 en þá var það 4,3%. Færri útlendingarAð sögn Helga fækkaði útlendingum í Álfastein í sumar miðað við árið 2001 úr 2.296 í 1.845. Fjöldi Íslendinga var hinsvegar nánast sá sami, eða 5.558 á móti 5.505 í fyrra. Helgi segir ekki gott að átta sig á þessari þróun en langur vegur sé frá því að Borgarfjörður haldi í við þróun ferðamála á landsvísu. "Ef við hefðum fylgt þróuninni á landsvísu sl. 12 ár, eða frá 1991, hefði mátt reikna með um 7.000 útlendingum hér sl. sumar," segir Helgi. Brýnt að endurvekja upplýsingamiðstöðinaEkki er gerð sérstök könnun á fjölda göngufólks á svæðinu en tilfinning manna er að sögn Helga sú að því hafi fækkað nokkuð frá sl. ári. Er það andstætt því sem reiknað hafði verið með miðað við góða aðstöðu og þau góðu orð sem svæðið hefur fengið hjá flestum sem til þekkja. "Hvað þessu veldur er heldur ekki einfalt að skýra en eflaust eru það nokkrir þættir svo sem gott veðurlag á suðvesturhorninu fyrri hluta sumars, HM í knattspyrnu og lítið fjármagn til auglýsinga og kynninga. Einnig er nokkuð flókið bókunarkerfi hjá okkur og vitað er að það fælir eitthvað frá. Kannski erum við með of miklar væntingar miðað við það sem við erum að leggja fram. Upplýsingamiðstöð hefur líka talsvert að segja í þessu en hún hefur ekki starfað frá því í mars. Kjarvalsstofa og aðrir hafa þó reynt að sinna því hlutverki en miðað við fyrri reynslu mína af rekstri upplýsingamiðstöðvar þá kostar það talsverða vinnu og til að koma henni á stofn aftur hér verðum við að vera samhent og tryggja henni fé til rekstrar. Ég álít það eitt brýnasta verkefnið auk þess að koma bókunarkerfinu í betra lag fyrir næsta sumar," segir Helgi. Gagnmerk heimasíðaFerðamálahópurinn er með góða heimasíðu með ýmsum gagnlegum upplýsingum fyrir göngufólk og aðra ferðamenn. Stöðugt er verið að breyta og bæta við upplýsingum. Á síðunni er mikill fjöldi ljósmynda, göngukortið sem gefið var út 1999, ýmsar tillögur að gönguferðum auk upplýsinga um skipulagðar gönguferðir á Víknaslóðum. Göngukortið er uppselt sem stendur en unnið er að endurbótum á því og stefnt að nýrri, endurbættri útgáfu á vordögum 2003. Helgi vildi að lokum koma á framfæri bestu þökkum til þeirra sem svöruðu könnuninni í sumar, svo og til allra þeirra sem heimsóttu Borgarfjörð. Könnunin í heild sinni er aðgengileg á heimasíðu Ferðamálahópsins.  
Lesa meira

Fjöldi Íslandskorta aðgengilegur á vef Landmælinga Íslands

Fyrr á árinu opnuðu Landmælingar Íslands fyrir nýjan þjónustuþátt á vefsíðu sinni, svokallaðan Kortaskjá, þar sem hægt er að nálgast kort og stafræn kortagögn. Á kortaskjánum eru Atlaskort, ferðakort og tvennskonar vektorkort af Íslandi. Hér er um athyglisverða nýjung að ræða fyrir ferðamenn og alla áhugamenn um landið og í raun má segja að netaðgangur að kortum með þessum hætti sé bylting. Kjörið er fyrir ferðaþjónustuaðila að vísa viðskiptavinum sínum erlendis inn á Kortaskjáin sem er öllum opinn á endurgjalds. Kortaskjárinn býður upp á fjölbreytta möguleika til að skoða kortin og kalla fram ýmsar upplýsingar, s.s. hæðarlínur, vatnafar, samgöngur og fleira. Hægt er að stækka og minnka myndir á skjánum og mæla vegalengdir. Tenging kortaskjásins við aðrar vefsíður er heimil án endurgjalds en birting efnis af honum, m.a. á öðrum vefsíðum, er háð skriflegu leyfi Landmælinga. Á vef stofnunarinnar kemur fram að kortaskjárinn sé einn af þeim gluggum sem verið er að ljúka upp til að auðvelda ferðamönnum og öðrum aðgang að kortum og nýjum stafrænum kortagögnum. Með hraðari nettengingum verður stöðugt auðveldara að koma umfangsmeiri og flóknari upplýsingum á framfæri með auðveldum hætti og kortaskjárinn er ein leiðin til þess. Atlaskortin sígildViðamesta efnið á kortaskjánum eru Atlaskortin sem eru 87 að tölu en þau hafa lengi verið á markaði og eru í mælikvarðanum 1:100 000. Á vef LMÍ er haft eftir Þorvaldi Bragasyni, forstöðumanni upplýsingasviðs LMÍ, að Atlaskortin hafi jafnan verið talin með fallegustu kortum en þau voru upphaflega unnin af dönskum kortagerðarmönnum. Í hugum margra eru Atlaskortin órjúfanlega tengd ímynd landsins eftir áratuga notkun þeirra við ferðalög á Íslandi. Á vefnum eru þau sýnd í mikilli upplausn þannig að skoða má vel öll tákn og örnefni Vektorkort af ÍslandiÁ kortaskjánum er einnig heildarkort af landinu í fjórum lögum. Gögnin eru frá vektorgagnasafninu IS 500V sem LMÍ hafa selt um árabil og endurskoðað reglulega. Ekki er þó hægt að taka sjálf gögnin af netinu heldur fyrst og fremst að skoða þau. Hnappurinn "valkostir" býður upp á val um hæðarlínur, vegi, vatnafar og stjórnsýslumörk og jafnframt er hægt að leita að sveitarfélögum og sjá flatarmál þeirra. Nákvæmni kortanna þyngir skoðun á Netinu Sem fyrr segir er kjörið fyrir ferðaþjónustuaðila að vísa viðskiptavinum sínum erlendis á kortin en vert er að vekja athygli á því að tekin var ákvörðun um að sýna kortin í góðri upplausn þannig að lesa mætti greinilega öll örnefni og tákn. Því er um mjög þungar skrár að ræða og tekur lengri tíma að fá kortin upp á skjáinn en notendur eiga yfirleitt að venjast á Netinu. Ef valin hefði verið sú leið að hafa litla upplausn í kortum hefði hraðinn orðið meiri en notagildið mun takmarkaðra. Nánari upplýsingar má sjá á vef Landmælinga Íslands. Myndatexti:  Hér má sjá hluta af Atlaskorti 83 sem er af Mývatnssveit og nágrenni.  
Lesa meira

Ferðamálasamtök landshluta styrkt

Í gær afhenti Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Ferðamálasamtökum Íslands formlega 9 milljóna króna styrk. Um er að ræða lið í markaðsátaki sem efnt var til í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum fyrir ári síðan. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra hleypti markaðsátakinu Ísland - sækjum það heim formlega af stokkunum á Ferðatorgi 2002, sem haldið var í vor að tilstilli Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs Íslands. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum þann 11. september höfðu fyrst í stað mikil áhrif á ferðaþjónustu um allan heim. Hratt var brugðist við breyttum aðstæðum íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfarið, er samgönguráðherra fékk samþykkta í ríkistjórn 150 milljóna króna fjárveitingu til að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni. Samkvæmt tillögu Magnúsar Oddssonar, ferðamálastjóra, sem falin var framkvæmd átaksins, var ákveðið að stórum hluta yrði varið í markaðssókn á erlendum vettvangi, aðallega í Bandaríkjunum og á okkar helstu markaðssvæðum í Evrópu. Auk þess var leitað samstarfs við nokkur íslensk fyrirtæki erlendis um kynningarstarf og voru viðtökur undantekningarlaust jákvæðar. Er það mat þeirra sem best til þekkja að umtalsverður árangur hafi náðst á síðustu mánuðum. Jafnframt ákvað samgönguráðherra að veita Ferðamálasamtökum Íslands og ferðamálasamtökum landshlutanna 9 milljóna króna styrk, er skiptist jafnt á milli samtakanna og var formlega gengið frá því í gær. Myndatexti:  Varaformaður Ferðamálasamtaka Íslands, Ásmundur Gíslason, tók við styrkjunum fyrir þeirra hönd og afhenti samgönguráðherra mynd sem þakklætisvott. Um var að ræða innrammað plagat sem auglýsti Ferðatorg 2002 sl. vor. Með þeim á myndinni er Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.  
Lesa meira

Gengið frá framhaldi FITUR-samstarfsins

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Bjarni Djurholm, atvinnumálaráðherra Færeyja undirrituðu í gær samstarfssamning um ferðamál á milli landanna en ráðherrarnir fara með þann málaflokk, hvor í sínu landi. Um er að ræða framhald svonefnds FITUR-samstarfs.Samningurinn tekur gildi 1. janúar 2003 og gildir í þrjú ár. Löndin leggja fram jafnháa upphæð til samstarfsins eða tíu milljónir íslenskra króna á ári. Hvort land tilnefnir þrjá fulltrúa í stjórn FITUR. Auka ferðalög og önnur samskiptiMegintilgangur FITUR-samstarfsins er að auka ferðalög og önnur samskipti á milli Íslands og Færeyja. Í því skyni styrkir FITUR árlega fjölmarga íslenska og færeyska hópa og einstaklinga, auk fyrirtækja, sem hafa skýr markmið með ferðalögum sínum og í anda samstarfsins. FITUR hefur einnig komið ásamstarfi á milli skóla í löndunum tveimur. Í FITUR-samningnum er lögð áhersla á að auka enn frekar samstarf íslenskra og færeyskra flugfélaga til þess að bæta megi samgöngur á milli landanna, en öruggar og tíðar ferðir á sanngjörnu verði eru undirstaða þess að samskiptin verði tryggð. Í samningnum er lögð áhersla á að íbúar landanna beggja ferðist meira innbyrðis og er fjallað sérstaklega um samskipti í atvinnu- og menningarmálum, vinabæjartengsl og íþrótta- og námsferðir enda sé um að ræða samskipti sem líkleg eru til að mynda tengsl og auka skilning á milli þjóðanna. Myndatexti:  Ráðherrar ferðamamála á Íslandi og í Færeyjum undirrituðu samning um framhald FUITUR-samstarfsins. Með þeim eru á myndinni Steinn Lárusson, formaður FITUR (lengst til vinstri); Magnús Oddsson, ferðamálastjóri; og Heri H. Niclasen, ferðamálastjóri Færeyja (lengst til hægri).  
Lesa meira

Hátíðarstemmning við setningu Vestnorden

Fólk var í hátíðarskapi við setningu Vestnorden ferðakaupstefnunnar í gærkvöld. Athöfnin fór fram í flugskýli Flugfélags Íslands á Akureyrarflugvelli og bar ekki á öðru en fólk skemmti sér vel. Á myndinni hér að neðan er vösk sveit kvenna frá Ferðaskrifstofunni Nonna, sem hafði veg og vanda að skipulagningu Vestnorden að þessu sinni. Þær mættu prúðbúnar til setningarinnar, allar í íslenska þjóðbúningnum og vöktu verðskuldaða athygli, með Helenu Dejak í broddi fylkingar. Fleiri myndir frá þessu skemmtilega kvöldi verða birtar hér á vefnum á næstunni.  
Lesa meira

Markaðsaðgerðir skiluðu tilætluðum árangri

Aðgerðir sem gripið var til í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum fyrir réttu ári síðan virðast hafa skilað tilætluðum árangri. Þær náðu að verja stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og gott betur. Þetta kom fram í máli Magnúsar Oddssonar, ferðamálastjóra, á sameiginlegum fréttamannafundi sem ferðamálstjórar vestnorrænu landanna héldu á Akureyri í dag. "Fyrir réttu ári síðan voru verulegar áhyggjur innan ferðaþjónustunnar um að atburðirnir 11. september myndu hafa mikil og varanleg neikvæð áhrif á umfang greinarinnar. Íslensk stjórnvöld ákváðu að bregðast við í þeim tilgangi að verja þann árangur sem náðst hafði í greininni og þrefölduðu þá opinberu fjármuni sem áætlaðir voru til markaðssetningar og kynningar. Þá brugðust fyrirtæki í greininni einnig skjótt við, m.a. drógu Flugleiðir úr sætaframboði sínu, sérstaklega á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Nú ári seinna er ljóst að allar þessar aðgerðir hafa skilað tilætluðum árangri. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustu hafa aukist á tímabilinu miðað við næstu 12 mánuði þar á undan og ýmsar fleiri vísbendingar mætti benda á sem sýna ótvíræðan árangur þeirra aðgerða sem ráðist var í. M.a. má nefna árangur Flugleiða sem hafa náð að snúa tapi í hagnað fyrstu 6 mánuði ársins," sagði Magnús meðal annars. Árleg fjölgun um 9% að meðaltaliFerðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið hratt á síðustu árum og er sá geiri atvinnulífsins sem hefur verið í hvað örustum vexti. Á síðasta ári skapaði ferðaþjónustan til að mynda um 13% gjaldeyristekna þjóðarinnar og af einstökum greinum eru það aðeins sjávarútvegur sem eru Íslendingum mikilvægari í þessu tilliti. Magnús sagði sama á hvaða sviði ferðaþjónustunnar er borðið niður, allar tölur sýna stöðuga aukningu. Árleg fjölgun í komum erlendra ferðamanna hingað til lands hefur til að mynda verið um 9% síðasta áratuginn og á árinu 2000 sóttu 302 þúsund erlendir ferðamenn landið heim. Á árinu 2000 var heildarfjöldi gistinátta á landinu öllu rúmlega 1.7 milljónir og á síðasta ári fjölgaði þeim síðan um 0,3% samkvæmt gistiskýrslum Hagstofunnar. Framboð gistingar hefur vaxið mikið síðustu ár. Yfir háannatímann nemur framboð gistirýmis á hótelum og gistiheimilum ríflega 12.600 rúmum á landinu öllu. Tæp 32% þess eru á höfuðborgarsvæðinu. Magnús sagði allt benda til þess að ferðaþjónustan muni halda áfram að vaxa á komandi árum. Ákvörðun hefur m.a. verið tekin um byggingu ráðstefnuhúss í Reykjavík sem mun skapa aukin sóknarfæri. Myndatexti:  Ferðamálstjórar vestnorrænu landanna voru bjartsýnir á framtíð ferðaþjónusgtunnar á fréttaamnnafundi sem þeir gengust fyrir á Akureyri æi dag. Frá vinstri: Stig Rømer, Grænlandi, Magnús Oddsson, Íslandi og Heri H. Niclasen, Færeyjum.  
Lesa meira

Lokahönd lögð á undirbúning Vestnorden

Undirbúningur er nú á lokastigi fyrir Vestnorden ferðaskaupstefnuna sem hefst á Akureyri í kvöld. Setningarathöfn hefst kl. 19. og það er Stig Rømer frá Grænlandi, formaður Vestnorrænaráðsins, sem setur kaupstefnuna. Þetta er í 17. sinn sem kaupstefnan er haldin og gert ráð fyrir að um 500 manns sæki hana heim að þessu sinni. Þar af um 290 aðilar sem bjóða vöru eða þjónustu til sölu í löndunum þremur, um 150 aðilar frá rúmlega 20 löndum sem eru að selja ferðir til Íslands, Færeyja og Grænlands, og loks fjölmargir erlendir fjölmiðlamenn auk opinberra gesta. Hin eiginlega kaupstefna stendur síðan yfir á morgun og fimmtudaginn og þá hittast kaupendur og seljendur á stuttum fundum sem búið er að ganga frá og tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Hér á vefsíðunni verður fylgst með framgangi kaupstefnunnar og birtar myndir af því sem fram fer, m.a. af básum allra sýenenda. Myndatexti:  Sýnendur voru í óða önn að ganga frá básum sínum í Íþróttahöllinni á Akureyri laust eftir hádegi í dag þegar þessi mynd var tekin. Hér er verið að vinna við bás Landmælinga Íslands.  
Lesa meira

Rekstur flugfélaga á uppleið

Rekstur flugfélaga í heiminum hefur verið að taka betur við sér undanfarna mánuði en fyrri spár gerðu ráð fyrir, eftir því sem fram kemur hjá alþjóðlegum samtökum flugfélaga, IATA. Afkomutölur frá fyrri hluta ársins sýna þetta glögglega. 4% meðaltalsvöxtur næstu 4 ár Þrátt fyrir jákvæðari fréttir er engu að síður gert ráð fyrir halla á rekstri flugfélaga þegar á heildina er litið og hefur IATA spáð því að samanlagt tap allra flugfélaga heimsins muni nema um 6 milljörðum Bandaríkjadala á yfirstandandi rekstrarári. Fyrri spár samtakanna gerðu ráð fyrir að tapið gæti numið hátt í 8 milljörðum USD, eða 705 milljörðum ISK. Á síðasta ári töpuðu flugfélög heimsins 12 milljörðum USD og rúmlega 200 þús. manns var sagt upp úr greininni. Ástæða þessa er rakin til um þriðjungs samdráttar í eftirspurn eftir flugfargjöldum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september á síðastliðnu ári. IATA gerir hins vegar ráð fyrir að flugið muni nú taka við sér á ný og að sala flugfargjalda muni aukast um 3% í ár, 6% á næsta ári og meðaltalsvöxtur verði 4% fram til ársins 2006. Íslenski markaðurinnBetri afkomu flugfélaga virðist mega heimafæra í íslenska markaðinn, ef marka má það sem fram kom í fréttum á dögunum um mikinn viðsnúning í rekstri Flugleiða fyrstu 6 mánuði yfirstandandi árs. Batnaði afkoma af reglulegri starfsemi án söluhagnaðar um 2,7 milljarða króna miðað við sama tíma í fyrra og 50 milljóna króna hagnaður varð af rekstrinum eftir skatta. Er batinn bæði rakinn til breytinga á rekstrinum og batnandi ytri skilyrða. Þá sýndi rekstur Flugfélags Íslands, sem er dótturfélag Flugleiða, í fyrsta sinn hagnað af starfsemi sinni á fyrri helmingi ársins. Myndatexti:  Frá Leifsstöð.  
Lesa meira