Fara í efni

Útlit fyrir góða þátttöku á Vestnorden

Vestnorden2002
Vestnorden2002

Nú eru aðeins tæpar 6 vikur í að Vestnorden ferðakaupstefnan hefjist á Akureyri. Útlit er fyrir mjög góða þátttöku en þarna er stefnt saman ferðaþjónustuaðilum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi og ferðaheildsölum hvaðanæva að úr heiminum sem eru að selja ferðir til norrænu landanna þriggja.
Skráningu er nú um það bil að ljúka og stefnir í að ferðaþjónustuaðilar sem kynna þjónustu sína og vöru verði um 150 talsins og kaupendur eða ferðaheildsalar litlu færri. Þeir koma sem fyrr segir frá fjölmörgum löndum og eru sumir langt að komnir. Má þar til að mynda nefna aðila frá Ástralíu, Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi.

Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin á hverju ári. Annað hvert ár er hún á Íslandi en hitt árið til skiptist í Færeyjum og á Grænlandi. Sjálf kaupstefnan stendur yfir dagana 10.-12. september en dagana fyrir og eftir hana eru boðið upp á skoðunarferðir fyrir ferðaheildsala, bæði um Ísland og einnig til Grænlands og Færeyja.