Íslandi gerð ítarleg skil í Washington Post

Íslandi gerð ítarleg skil í Washington Post
MaduraSteini

Íslandi eru gerð ítarleg skil í ferðaútgáfu bandaríska dagblaðsins The Washington Post síðastliðinn sunnudag. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Í grein The Washington Post kemur fram að íslensk náttúra sé helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hyggja á ferð til Íslands og er landinu lýst sem ósnortnu og leyndardómsfullu. Höfundur greinarinnar mælir með því að ferðamenn sem einungis ætli að staldra hér við í tvo daga eyði öðrum deginum úti á landsbyggðinni.

Hinum fjölmörgu opnu svæðum í Reykjavík er hrósað, sem og útisundlaugunum sem opnar séu allt árið. Hið reykvíska næturlíf vekur ekki jafn mikla lukku greinarhöfundar sem undrast það hversu lítil miðborgin er miðað við að 80% landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu. Þá er höfundur ekki á því að verslunarmöguleikar séu miklir í borginni, nema fólk hafi hugsað sér að festa kaup á íslenskri lopapeysu eða selskinni. Höfundur hrósar gististöðum hér á landi en mælir með því að fólk leiti ráðlegginga áður en haldið sé á matsölustaði og að ferðamenn ættu ekki að koma til Íslands með það að markmiði að borða góðan mat.

Í greininni er dáðst að þrautseigju landsmanna sem hafi búið sér líf á hrjóstrugu og köldu landi þar sem fjórir fimmtu hlutar lands séu óbyggilegir. Er lof borið á félags- og heilbrigðiskerfi landsins og því líkt við Svíþjóð, en tekið fram að skattahlutfall hér sé nær því sem gerist í Bandaríkjunum.

Myndatexti:  Í grein The Washington Post kemur fram að íslensk náttúra sé helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hyggja á ferð til Íslands og er landinu lýst sem ósnortnu og leyndardómsfullu.

 


Athugasemdir