Fréttir

Aukin umferð um icetourist.is

Veruleg aukning hefur orðið í heimsóknum á landkynningarvef Ferðamálaráðs, eftir að nýr og endurbættur vefur var opnaður um miðjan apríl sl. Umferð um vefinn hefur verið stigvaxandi frá þessum tíma og náði hámarki í júlí. Þá sýna mælingar að ríflega 36.000 gestir hafi komið í heimsókn og skoðað um 200.000 síður á vefnum. Þetta er nærri þreföldun miðað við sömu mæliaðferð á síðasta ári. Ljóst er að heimsóknir í ágúst verða nokkru færri en í júlí sem kemur heim og saman við reynslu fyrri ára. Samkvæmt reynslunni hefur dregið úr heimsóknum í ágúst og september en upp úr því fer þeim aftur að fjölga. Heimsóknir frá ríflega 70 þjóðlöndumBandaríkjamenn eru manna duglegastir að nota Internetið og það kemur berlega í ljós ef litið er til þess hvar þeir gestir sem heimsækja icetourist.is búa. Ef skoðaðar eru heimsóknir í júlí kemur í ljós að rótarlén um 20% gesta endar á .com og 17% hefur endinguna .net en stærstur hluti þessara tölvunotenda kemur frá Bandaríkjunum. Þar á eftir koma gestir frá Íslandi, þ.e. með endinguna .is í rótarléni sínu, og eru þeir um 7,5% gesta. Spánverjar og Frakkar eru með tæp 7% heimsókna hvor þjóð, Þjóðverjar og Bretar hvorir um sig með tæp 6%, Ítalir eru tæp 5% gesta og Danir 3,5% Samtals fékk vefurinn heimsóknir frá ríflega 70 þjóðlöndum í júlí. Viðamikill gagnagrunnurLandkynningarvefurinn icetourist.is er á 6 tungumálum og á honum er hægt að nálgast hagnýtar og fróðlegar upplýsingar um Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Einn grundvallarþáttur vefsins er sá viðamikli gagnagrunnur um íslenska ferðaþjónustuaðila sem byggður hefur verið upp á vegum Ferðamálaráðs Íslands á undanförnum árum. Í grunninum eru nú upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land, ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðafólk. Má fullyrða að um er að ræða heildstæðasta gagnagrunninn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Grunnurinn er öllum aðgengilegur á icetourist.is undir liðnum "Gulu síðurnar" og sýna mælingar að þetta er sá hluti vefsins sem hvað mest er skoðaður.  
Lesa meira

Fréttatilkynning frá Norðursiglingu

Í kjölfar atviks þess á sl. laugardagsmorgunn, þegar einn bátur fyrirtækisins rakst utan í bryggju, telja undirritaðir sér bæði ljúft og skylt að láta eftirfarandi koma fram: 36 farþegar voru um borð þegar báturinn rakst utan í bryggjuna á leið út úr höfninni. Skipstjóra annars báts fyrirtækisins sem varð vitni að atburðinum grunaði strax að ekki væri allt með felldu og kvöddu stjórnendur fyrirtækisins lögregluna á staðinn og í kjölfarið vöknuðu grunsemdir um ölvun. Engum farþeganna varð meint af og biðu þeir næstu brottfarar og fóru þá með öðrum báti fyrirtækisins í hvalaskoðun. Skipstjórinn sem um ræðir hefur starfað í hlutastarfi og við afleysingar hjá fyrirtækinu frá upphafi og hefur verið farsæll í starfi þar til þetta gerðist. Honum hefur verið sagt upp störfum. Mál hans fer sína leið fyrir dómstólum. Varðandi þann ólánssama mann sem óhappinu olli skal þess getið að hann hefur stundað sjó frá unga aldri og býr yfir mikilli reynslu og óvenjulegum sjómannshæfileikum. Aldrei áður í átta ára sögu fyrirtækisins hefur viðlíka mál komið upp en til þessa hafa bátar Norðursiglingar flutt vel á annað hundrað þúsund farþega í hátt í 4.000 sjóferðum. Varla þarf að taka það fram að stjórnendur Norðursiglingar ehf. líta þetta atvik mjög alvarlegum augum og munu í framhaldi af þessu enn auka kröfur til starfsmanna sinna. Með von um áframhaldandi gott samstarf, Heimir HarðarsonHörður Sigurbjarnarson  
Lesa meira

Þrjár vikur í Vestnorden

Eftir réttar þrjár vikur mun Vestnorden ferðakaupstefnan standa sem hæst í Íþróttahöllinni á Akureyri. Undirbúningur er í fullum gangi og stefnir allt í einkar glæsilegan viðburð. Skipulag eða uppsetning kaupstefnunnar verður með nokkuð öðrum hætti en verið hefur. Í stað hins hefðbundna básakerfis sem flestir þekkja eru notuð skilrúm sem eru einfaldari og ættu að gefa nokkuð léttara yfirbragð. Svæðið eða básinn sem hver og einn hefur til afnota er byggt upp af þremur 1 m breiðum einingum og hliðarnar tengjast bakinu í 45° horni (sjá mynd). Veggrými er því 3 m á lengd en einingarnar eru 2,5 metrar á hæð. Hverju svæði fylgja borð, fjórir stólar og ljós en að auki er mögulegt að fá rafmagnstengil sem dugar fyrir tölvu og þess háttar búnað. Hvert svæði er númerað en að öðru leyti sér hver og einn um að merkja sitt pláss. Húsið verður opið fyrir sýnendur á milli kl. 10 og 18 þriðjudaginn 10. september þannig að fólk geti komið búnaði sínum fyrir.  
Lesa meira

Ferja á milli Íslands og N.-Ameríku?

Vestnorræna ráðið hefur ákveðið að láta kanna hagkvæmni ferjusiglinga á milli Íslands og Norður-Ameríku. Hugmyndin gengur út á að siglingarnar yrðu í anda ferjunnar Norrænu sem eins og kunnugt er heldur uppi áætlunarsiglingum yfir sumartímann á milli Seyðisfjarðar og meginlands Evrópu með viðkomu í Færeyjum og á Hjaltlandseyjum. Gert er ráð fyrir að ferja sem sigldi á milli Íslands og Norður-Ameríku hefði viðkomu á Suður-Grænlandi. Vestnorræna ráðið vonast eftir því að hagkvæmnismatið liggi fyrir innan fárra mánaða og þá verði hægt að kanna hvort einhver hafi áhuga á að hleypa hugmyndinni af stokkunum. Styttist í nýja NorrænuÍ þessu sambandi hefur verið rifjað upp að í upphafi voru litlar vonir bundnar við rekstur Norrænu. Ferjan hefur hins vegar reynst vinsæll ferðamáti og nú styttist í að ný, þrefalt stærri ferja, verði tekin í gagnið. Nýja Norræna er smíðuð í Þýskalandi og verður sjósett innan örfárra daga, nánar tiltekið 24. ágúst nk. Unnið verður við frágang fram í febrúar á næsta ári og í mars er ráðgert að skipið fari í jómfrúarferð sína. Myndatexti:  Hin nýja Norræna er glæsilegt skip eins og þessi tölvugerða mynd ber með sér en hún er fengin á heimasíðu Smyril-Line.  
Lesa meira

Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs 2002

Á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin verður í Stykkishólmi 17.-18. október nk. verða umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs veitt. Hugmyndin að baki verðlaununum er að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum, fyrirtækjum eða einstaklingum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálaráðs að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra um að huga betur að umhverfinu og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Allir geta sent inn tilnefningarÖllum er heimilt að senda inn tilnefningar til umhverfisverðlauna og þurfa þær að hafa borist umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs fyrir 1. september nk. Tilnefningar má senda með tölvupósti á netfangið valur@icetourist.is eða til Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri og þar eru einnig veittar nánari upplýsingar. Meðfylgjandi er gátlisti sem gott er að hafa til hliðsjónar þegar verið er að velja þá sem tilnefndir verða. Gátlistinn er í pdf-formi og auðvelt að prenta hann út. Opna GÁTLISTA. Myndatexti:  Á síðasta ári fengu Íshestar umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs en myndin er einmitt tekin í ferð hjá fyrirtækinu.  
Lesa meira

Ferðamálaráð auglýsir eftir samstarfsaðilum vegna auglýsingaátaks

Ferðamálaráð Íslands hefur ákveðið að bjóða íslenskum fyrirtækjum til samstarfs um gerð og birtingu auglýsinga sem hvetja landsmenn til ferðalaga innanlands. Um er að ræða framhald af herferðinni "Ísland - sækjum það heim" og er gert ráð fyrir að útlit og efnistök auglýsinga taki mið af því sem gert hefur verið til þessa. Ferðamálaráð hyggst verja tíu milljónum króna til verkefnisins á tímabilinu 1. september 2002 til 5. maí 2003. Hér með er auglýst eftir fyrirtækjum sem hafa áhuga á að leggja fram fé á móti Ferðamálaráði og auglýsa þjónustu sína á framangreindu tímabili. Skilyrði er að viðkomandi fyrirtæki sé starfandi í ferðaþjónustugeiranum og reiðubúið að auglýsa í fjölmiðlum sem ná til allra landsmanna. Skipt í 16 hlutaFjármunum Ferðamálaráðs er skipt í 16 hluta, fjóra að fjárhæð ein milljón króna og tólf að fjárhæð 500.000 krónur. Lágmarksframlag þeirra sem vilja taka þátt er jafnhá upphæð í hverjum hluta. Hver aðili getur einungis boðið í einn hlut. Samstarfsaðilar verða valdir með hliðsjón af fjárframlögum og fyrirhugðum kynningarverkefnum hvers og eins. Tekið er við skriflegum umsóknum um samstarf til 20. ágúst nk. á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri  
Lesa meira