Gistiskýrslur 2001 - 0,3% fjölgun gistinátta

Gistiskýrslur 2001 - 0,3% fjölgun gistinátta
Fyrsti áfanginn í vottun Green Globe á Snæfellsnesi

Fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skagafirði hafi lagt mikla vinnu og fjármagn í uppbyggingu fljótasiglinga á þessu svæði og á síðasta ári störfuðu um 25 starfsmenn við fljótasiglingarnar yfir aðalsiglingartímann sem er frá maí til september.Ritið Gistiskýrslur 2001 hefur verið birt á heimasíðu Hagstofunnar. Ritið hefur að geyma upplýsingar um fjölda gistinátta, gestakoma, gistirými og nýtingu þess á gististöðum hér á landi árið 2001. Upplýsingarnar eru birtar í töflum og yfirlitum og sundurliðaðar eftir tegund gististaða, landsvæðum og ríkisfangi gesta.

Af niðurstöðum ritsins er það helst að nefna að heildarfjöldi gistinátta árið 2001 var 1.742 þúsund sem er um 0,3% fjölgun frá árinu 2000 en þá námu þær 1.737 þúsundum. Sé miðað við árið 2000 þá voru gistinætur árið 2001 fleiri á heimagististöðum, farfuglaheimilum, svefnpokagististöðum og í skálum í óbyggðum. Þær voru hins vegar færri á hótelum og gistiheimilum sem og í orlofshúsabyggðum og á tjaldsvæðum.

Hótel og gistiheimili
Gististöðum í flokki hótela og gistiheimila fjölgaði um fjóra milli áranna 2000 og 2001, úr 244 í 248, herbergjum fjölgaði um 129 og rúmum um 161. Sem fyrr voru gistinætur hlutfallslega flestar í þessum flokki eða um 68% heildargistinátta ársins 2001. Gistinætur töldust 1.180 þúsund á hótelum og gistiheimilum árið 2001 eða um 6.000 færri en árið 2000, sem er 0,5% fækkun. Ef litið er á einstök tímabil ársins þá fækkaði gistinóttum á tímabilinu maí til september um 2,4% en fjölgaði hins vegar yfir vetrarmánuðina um 3,5%.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum á höfuðborgarsvæðinu voru 639 þúsund árið 2001 eða um 1% færri en árið 2000. Á landsbyggðinni fjölgaði þeim hins vegar um 0,5% úr 539 þúsundum árið 2000 í 542 þúsund árið 2001.

Önnur tegund gistingar
Orlofshúsabyggðir töldust vera 26 árið 2001, sem er sami fjöldi og árið 2000. Þar voru gistinætur rétt tæp 39 þúsund eða um 15% færri en árið 2001. Þrátt fyrir að farfuglaheimilum fækkaði um þrjú milli áranna 2000 og 2001 töldust gistinætur þar vera 8% fleiri í fyrra en árið áður eða tæp 67 þúsund. Sama var uppi á teningnum hjá heimagististöðum, en þar fjölgaði gistinóttum um 5%, úr 53 þúsundum árið 2000 í 55 þúsund árið 2001 á meðan að gististöðunum sjálfum fækkaði um sjö. Svefnpokagististöðum fjölgaði hins vegar um sex árið 2001 og gistinóttum þar fjölgaði að sama skapi einnig, úr 21 þúsundi í 26 þúsund eða um 24%. Hlutfallslega varð mesta fjölgun gistinátta þó í skálum í óbyggðum, því þrátt fyrir að þeim fækkaði um tvo milli áranna 2000 og 2001 þá fjölgaði gistinóttunum þar um 28% og voru þær 55 þúsund árið 2001. Fjöldi tjaldsvæða á landinu var sá sami árið 2001 og árið á undan eða 133. Þar fækkaði gistinóttum um 2% milli áranna 2000 og 2001, fóru úr 326 þúsundum í 320 þúsund.

Hlutfallsleg skipting gistinátta eftir landsvæðum og ríkisfangi gesta
Þegar heildarfjöldi gistinátta er sundurliðaður eftir landsvæðum kemur í ljós að árið 2001 voru tæp 40% gistinátta á höfuðborgarsvæðinu líkt og árið á undan og árið þar á undan. Suðurland var með 19% gistinátta, Norðurland eystra með 16%, Austurland 10%, Vesturland 6%, Norðurland vestra 4% og landsvæðin Vestfirðir og Suðurnes reyndust vera hvort um sig með tæp 3% af heildarfjölda gistinátta árið 2001.

Helmingur gistinátta útlendinga var á höfuðborgarsvæðinu en töluverður munur er þó á vali á áfangastað eftir ríkisfangi. Útlendingar gista hlutfallslega oftast á höfuðborgarsvæðinu og eru ferðamenn frá Bandaríkjunum, Kanada, Norðurlöndum, Bretlandi og Írlandi þar mest áberandi. Ferðamenn frá öðrum löndum Evrópu eyddu á bilinu 14-23% gistinátta sinna á Suðurlandi, Austurlandi og Norðurlandi eystra árið 2001 sem er nokkuð hærra hlutfall en hjá öðrum útlendingum. Hvað íslenska ferðamenn varðar þá er helst að nefna að þeir eyddu um 30% gistinátta sinna á Suðurlandi, 20% á Norðurlandi eystra og um 13% á Austurlandi.

Á prenti eða á netinu
Ritið Gistiskýrslur 2001 ætti að nýtast vel til skipulagningar og markaðssóknar fyrir alla seljendur gistiþjónustu og aðra þá er tengjast ferðamennsku og hyggjast sækja fram á þeim markaði. Hægt er að panta ritið á heimasíðu Hagstofunnar og kostar það 700 krónur.

 


Athugasemdir