Fréttir

Samgönguráðherra fagnar því að ÍSLENDINGUR sé á heimleið

Samgönguráðherra, sem er ráðherra ferðamála, fagnar því að tekist hafi að leysa málefni víkingaskipsins ÍSLENDINGS og því frumkvæði sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók í málinu. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu ráðuneytisins. Í næstum tvö ár hefur ríkt óvissa um framtíð skipsins og er því forganga Reykjanesbæjar um lausn málsins sérstakt fagnaðarefni. Í Njarðvík, nýrri heimahöfn skipsins, mun það fá hlutverk sem skipinu sæmir og mun það efla íslenska ferðaþjónustu. Er öllum sem að þessu verki hafa komið óskað til hamingju með þetta framfaraskref. Vegna árþúsundamótanna fór fram umfangsmikil kynning á Íslandi vestanhafs á árinu 2000. Sá liður kynningarinnar sem fékk mesta athygli var sigling víkingaskipsins og náði umfjöllun fjölmiðla til milljóna manna. Sérstakan áhuga vakti framganga áhafnarinnar enda ekki á allra færi að sigla yfir Atlantshafið við aðstæður sem tíðkuðust fyrir þúsund árum. Gunnar Marel Eggertsson, sem smíðaði skipið og var jafnframt skipstjóri þess, stóð í eldlínunni og vakti mikla athygli fjölmiðla vestanhafs. Það kom því engum á óvart er Gunnar hlaut fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs árið 2000. Ferðaþjónustan kom þannig á framfæri við hann, og áhöfnina alla, innilegu þakklæti fyrir frábærlega vel unnin störf í þágu greinarinnar. Samgönguráðherra færir öllum sem að því komu að fá ÍSLENDING heim á ný sínar bestu þakkir.  
Lesa meira

Útlit fyrir góða þátttöku á Vestnorden

Nú eru aðeins tæpar 6 vikur í að Vestnorden ferðakaupstefnan hefjist á Akureyri. Útlit er fyrir mjög góða þátttöku en þarna er stefnt saman ferðaþjónustuaðilum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi og ferðaheildsölum hvaðanæva að úr heiminum sem eru að selja ferðir til norrænu landanna þriggja.Skráningu er nú um það bil að ljúka og stefnir í að ferðaþjónustuaðilar sem kynna þjónustu sína og vöru verði um 150 talsins og kaupendur eða ferðaheildsalar litlu færri. Þeir koma sem fyrr segir frá fjölmörgum löndum og eru sumir langt að komnir. Má þar til að mynda nefna aðila frá Ástralíu, Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi. Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin á hverju ári. Annað hvert ár er hún á Íslandi en hitt árið til skiptist í Færeyjum og á Grænlandi. Sjálf kaupstefnan stendur yfir dagana 10.-12. september en dagana fyrir og eftir hana eru boðið upp á skoðunarferðir fyrir ferðaheildsala, bæði um Ísland og einnig til Grænlands og Færeyja.
Lesa meira

Hótel Eldhestar fá Svaninn

Hótel Eldhestar á Völlum í Ölfusi hefur hlotið norræna umhverfismerkið Svaninn og er fyrsta íslenska hótelið sem fær þessa viðurkenningu. Svanurinn hefur verið opinbert umhverfismerki norðurlandaþjóða í um áratug og á heimasíðu Neytendasamtakanna kemur fram að Svanurinn er samkvæmt könnunum það umhverfismerki sem flestir neytendur á Norðurlöndum þekkja og treysta best. Fyrirtækið Eldhestar var stofnsett árið 1986 og bauð í fyrstu upp á styttri hestaferðir. Það síðan þróast mikið og er nú í hópi í öflugustu fyrirtækja landsins á sínu sviði. Yfir háannatímann starfa um 25 manns hjá Eldhestum og heildarfjöldi gesta er um 10.000. Fyrr á þessu ári reisti fyrirtækið síðan sveitarhótel á Völlum en frá upphafi var miðað við að það væri byggt eftir hugmyndafræði Norræna umhverfismerkisins. Á hótelinu eru 10 tveggja manna herbergi.  
Lesa meira

Samtök ferðaþjónustunnar fagna því að hætt er við Villinganesvirkjun

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent bæjarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar bréf þar sem því er fagnað að fallið hafi verið frá áformum um Villinganesvirkjun í Skagafirði. Segir í bréfinu að ákvörðun bæjarstjórnar stuðli að áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu í Skagafirði. Í bréfinu segir að fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skagafirði hafi lagt mikla vinnu og fjármagn í uppbyggingu fljótasiglinga á þessu svæði og árangur sé að koma í ljós. Á síðasta ári störfuðu um 25 starfsmenn við fljótasiglingarnar yfir aðalsiglingartímann sem frá maí til september. Þar sem ýmis önnur starfsemi tengist fljótasiglingunum og ferðamenn þurfi margs konar aðra þjónustu s.s. mat og gistingu hefði mátt búast við mun víðtækari áhrifum en sem nemur þeim störfum og veltu sem tengjast fljótasiglingunum beint. Myndatexti:  Fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skagafirði hafi lagt mikla vinnu og fjármagn í uppbyggingu fljótasiglinga á þessu svæði og á síðasta ári störfuðu um 25 starfsmenn við fljótasiglingarnar yfir aðalsiglingartímann sem er frá maí til september.  
Lesa meira

Gistiskýrslur 2001 - 0,3% fjölgun gistinátta

Fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skagafirði hafi lagt mikla vinnu og fjármagn í uppbyggingu fljótasiglinga á þessu svæði og á síðasta ári störfuðu um 25 starfsmenn við fljótasiglingarnar yfir aðalsiglingartímann sem er frá maí til september.Ritið Gistiskýrslur 2001 hefur verið birt á heimasíðu Hagstofunnar. Ritið hefur að geyma upplýsingar um fjölda gistinátta, gestakoma, gistirými og nýtingu þess á gististöðum hér á landi árið 2001. Upplýsingarnar eru birtar í töflum og yfirlitum og sundurliðaðar eftir tegund gististaða, landsvæðum og ríkisfangi gesta. Af niðurstöðum ritsins er það helst að nefna að heildarfjöldi gistinátta árið 2001 var 1.742 þúsund sem er um 0,3% fjölgun frá árinu 2000 en þá námu þær 1.737 þúsundum. Sé miðað við árið 2000 þá voru gistinætur árið 2001 fleiri á heimagististöðum, farfuglaheimilum, svefnpokagististöðum og í skálum í óbyggðum. Þær voru hins vegar færri á hótelum og gistiheimilum sem og í orlofshúsabyggðum og á tjaldsvæðum. Hótel og gistiheimiliGististöðum í flokki hótela og gistiheimila fjölgaði um fjóra milli áranna 2000 og 2001, úr 244 í 248, herbergjum fjölgaði um 129 og rúmum um 161. Sem fyrr voru gistinætur hlutfallslega flestar í þessum flokki eða um 68% heildargistinátta ársins 2001. Gistinætur töldust 1.180 þúsund á hótelum og gistiheimilum árið 2001 eða um 6.000 færri en árið 2000, sem er 0,5% fækkun. Ef litið er á einstök tímabil ársins þá fækkaði gistinóttum á tímabilinu maí til september um 2,4% en fjölgaði hins vegar yfir vetrarmánuðina um 3,5%. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum á höfuðborgarsvæðinu voru 639 þúsund árið 2001 eða um 1% færri en árið 2000. Á landsbyggðinni fjölgaði þeim hins vegar um 0,5% úr 539 þúsundum árið 2000 í 542 þúsund árið 2001. Önnur tegund gistingarOrlofshúsabyggðir töldust vera 26 árið 2001, sem er sami fjöldi og árið 2000. Þar voru gistinætur rétt tæp 39 þúsund eða um 15% færri en árið 2001. Þrátt fyrir að farfuglaheimilum fækkaði um þrjú milli áranna 2000 og 2001 töldust gistinætur þar vera 8% fleiri í fyrra en árið áður eða tæp 67 þúsund. Sama var uppi á teningnum hjá heimagististöðum, en þar fjölgaði gistinóttum um 5%, úr 53 þúsundum árið 2000 í 55 þúsund árið 2001 á meðan að gististöðunum sjálfum fækkaði um sjö. Svefnpokagististöðum fjölgaði hins vegar um sex árið 2001 og gistinóttum þar fjölgaði að sama skapi einnig, úr 21 þúsundi í 26 þúsund eða um 24%. Hlutfallslega varð mesta fjölgun gistinátta þó í skálum í óbyggðum, því þrátt fyrir að þeim fækkaði um tvo milli áranna 2000 og 2001 þá fjölgaði gistinóttunum þar um 28% og voru þær 55 þúsund árið 2001. Fjöldi tjaldsvæða á landinu var sá sami árið 2001 og árið á undan eða 133. Þar fækkaði gistinóttum um 2% milli áranna 2000 og 2001, fóru úr 326 þúsundum í 320 þúsund. Hlutfallsleg skipting gistinátta eftir landsvæðum og ríkisfangi gestaÞegar heildarfjöldi gistinátta er sundurliðaður eftir landsvæðum kemur í ljós að árið 2001 voru tæp 40% gistinátta á höfuðborgarsvæðinu líkt og árið á undan og árið þar á undan. Suðurland var með 19% gistinátta, Norðurland eystra með 16%, Austurland 10%, Vesturland 6%, Norðurland vestra 4% og landsvæðin Vestfirðir og Suðurnes reyndust vera hvort um sig með tæp 3% af heildarfjölda gistinátta árið 2001. Helmingur gistinátta útlendinga var á höfuðborgarsvæðinu en töluverður munur er þó á vali á áfangastað eftir ríkisfangi. Útlendingar gista hlutfallslega oftast á höfuðborgarsvæðinu og eru ferðamenn frá Bandaríkjunum, Kanada, Norðurlöndum, Bretlandi og Írlandi þar mest áberandi. Ferðamenn frá öðrum löndum Evrópu eyddu á bilinu 14-23% gistinátta sinna á Suðurlandi, Austurlandi og Norðurlandi eystra árið 2001 sem er nokkuð hærra hlutfall en hjá öðrum útlendingum. Hvað íslenska ferðamenn varðar þá er helst að nefna að þeir eyddu um 30% gistinátta sinna á Suðurlandi, 20% á Norðurlandi eystra og um 13% á Austurlandi. Á prenti eða á netinuRitið Gistiskýrslur 2001 ætti að nýtast vel til skipulagningar og markaðssóknar fyrir alla seljendur gistiþjónustu og aðra þá er tengjast ferðamennsku og hyggjast sækja fram á þeim markaði. Hægt er að panta ritið á heimasíðu Hagstofunnar og kostar það 700 krónur.  
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2002 verður í Stykkishólmi

Nú er komin dagsetning á hina árlegu ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands en hún verður að þessu sinni haldin í Stykkishólmi dagana 17. og 18. október næstkomandi. Á ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Eins og jafnan áður verður eitt tiltekið mál tekið sérstaklega til umfjöllunar og megin umræðuefnið í ár verður þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu á Íslandi. Að öðru leyti verður dagskráin auglýst síðar en þess má þó geta undanfarin ár hafa umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs verið afhent í tengslum við ráðstefnuna. Ráðstefnan í Stykkishólmi verður sú 32. í röðinni en síðasta ferðamálaráðstefnan var haldin á Hvolsvelli dagana 18. og 19. október síðastliðinn. Hún var jafnframt sú fjölmennasta sem haldin hefur verið til þessa en hana sóttu rúmlega 200 manns hvaðanæva af landinu. Má búast við að gestir verði ekki færri í ár enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða enda eru mýmörg dæmi um að ráðstefnan hefur orðið upphaf frekara samstarfs. Ráðstefnan er jafnan haldin utan suðvesturhornsins og hafa heimamenn í hvert sinn jafnframt getað notað tækifærið til að kynna svæði sitt. Myndatexti:  Árleg ferðamálaráðstefna Ferðamálaráðs Íslands verður að þessu sinni haldin í Stykkishólmi dagana 17. og 18. október nk.  Heimasíða Stykkishólmsbæjar.  
Lesa meira

Hvað væri Ísland án fjalla?

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 2002 alþjóðlegt ár fjalla. Af þessu tilefni standa Landvernd og Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir kynningarátaki til að vekja athygli á mikilvægi fjalla í íslensku þjóðlífi. FjallgönguhappdrættiGefið hefur verið út veggspjald og efnt til samkeppni á Internetinu um að þekkja 10 fjöll og ganga á a.m.k. eitt þeirra. Síðan verða 20 heppnir þátttakendur dregnir úr pottinum þann 15. september nk. Á vefsíðunni Ár fjalla er að finna margvíslegan fróðleik um fjöll, m.a. um gerðir fjalla, um fjallaflóruna, um fjöll í myndlist og þjóðtrú, fjallgöngur o.fl. o.fl. Þar er einnig hægt að taka þátt í umræddri samkeppni. Stöðugt verður bætt við efni á þennan vef og í haust verður svo efnt til samkeppni og ferðahappdrættis meðal grunnskólabekkja og málþings um mikilvægi fjalla í íslensku þjóðlífi. Það er Herðubreið, drottning íslenskra fjalla, sem prýðir áðurnefnt veggspjald sem gefið hefur verið út til að vekja athygli á mikilvægi fjalla. Myndatexti:  Á heimasíðu Landverndar og Náttúrufræðistofnunar Íslands um ár fjalla 2002 er hægt að taka þátt í samkeppni. Sýndar eru myndir af 10 fjöllum og þeir sem geta nafngreint öll fjöllin og hafa þar að auki gengið á a.m.k. eitt þessara fjalla á árinu, geta verið með í samkeppninni. Eitt fjallanna sem þarf að þekkja er það sem myndin er af hér að ofan.  
Lesa meira

"Hvernig sem viðrar" nýtur mikilla vinsælda

Ferðaþátturinn "Hvernig sem viðrar" er eitt vinsælasta efnið í íslensku sjónvarpi um þessar mundir. Þetta kemur skýrt fram í fjölmiðlakönnun Gallup sem fram fór dagana 18. júní til 2. júlí sl. Þættirnir eru á dagskrá Sjónvarpsins á fimmtudagskvöldum. "Hvernig sem viðrar" mældist með 22,7% uppsafnað áhorf en þá eru reiknaðir saman þeir sem horfa á frumsýningu þáttarins og þeir sem bætast við þegar hann er endursýndur. Hver og einn er þó aðeins talinn einu sinni. "Hvernig sem viðrar" er vinsælasti þáttur Sjónvarpsins en aðeins fleiri horfðu á þrjá erlenda þætti á Skjá 1, sem voru þannig vinsælasta sjónvarpsefni landsmanna á umræddu tímabili. Könnunin var unnin í gegnum síma upp úr 1.500 manna tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur voru á aldrinum 12-80 ára af öllu landinu og alls svöruðu 932 manns. Liður í ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim"Eins og fram hefur komið er "Hvernig sem viðrar" liður í ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim", sem Samgönguráðuneytið og Ferðamálaráð Íslands standa að með stuðningi nokkurra aðila. Umsjónarmenn þáttarins, þau Villi og Rósa, koma víða við á ferð sinni um landið og er ekkert óviðkomandi, hvort sem um spennandi ævintýraferðir, hjólreiðar um hálendið, böð í heitum laugum, leyndar náttúruperlur eða skemmtilegar uppákomur er að ræða. Þtturinn er unninn á lifandi hátt og hægt er að fylgjast með ferðalöngunum á vefsíðu RÚV, þar sem þeir halda úti ferðadagbók, auk þess sem umsjónarmennirnir eru í reglulegu sambandi við Rás 2. Myndatexti:  Villi og Rósa hafa svo sannarlega náð til landsmanna enda er þátturinn unninn á lifandi og skemmtilegan hátt.  
Lesa meira

Íslandi gerð ítarleg skil í Washington Post

Íslandi eru gerð ítarleg skil í ferðaútgáfu bandaríska dagblaðsins The Washington Post síðastliðinn sunnudag. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Í grein The Washington Post kemur fram að íslensk náttúra sé helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hyggja á ferð til Íslands og er landinu lýst sem ósnortnu og leyndardómsfullu. Höfundur greinarinnar mælir með því að ferðamenn sem einungis ætli að staldra hér við í tvo daga eyði öðrum deginum úti á landsbyggðinni. Hinum fjölmörgu opnu svæðum í Reykjavík er hrósað, sem og útisundlaugunum sem opnar séu allt árið. Hið reykvíska næturlíf vekur ekki jafn mikla lukku greinarhöfundar sem undrast það hversu lítil miðborgin er miðað við að 80% landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu. Þá er höfundur ekki á því að verslunarmöguleikar séu miklir í borginni, nema fólk hafi hugsað sér að festa kaup á íslenskri lopapeysu eða selskinni. Höfundur hrósar gististöðum hér á landi en mælir með því að fólk leiti ráðlegginga áður en haldið sé á matsölustaði og að ferðamenn ættu ekki að koma til Íslands með það að markmiði að borða góðan mat. Í greininni er dáðst að þrautseigju landsmanna sem hafi búið sér líf á hrjóstrugu og köldu landi þar sem fjórir fimmtu hlutar lands séu óbyggilegir. Er lof borið á félags- og heilbrigðiskerfi landsins og því líkt við Svíþjóð, en tekið fram að skattahlutfall hér sé nær því sem gerist í Bandaríkjunum. Myndatexti:  Í grein The Washington Post kemur fram að íslensk náttúra sé helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hyggja á ferð til Íslands og er landinu lýst sem ósnortnu og leyndardómsfullu.  
Lesa meira

Staða umhverfisfulltrúa laus til umsóknar

Ferðamálaráð Íslands hefur auglýst stöðu umhverfisfulltrúa lausa til umsóknar. Meðal helstu verkefna sem fylgja starfinu eru úttektir og tillögur til úrbóta á ferðamannastöðum ásamt eftirliti með framkvæmdum, ýmiskonar ráðgjöf varðandi umhverfismál, ráðgjöf vegna styrkbeiðna, umsagnir vegna umhverfismats og vinna við útgáfu og fræðslumál. Umhverfisfulltrúi er með starfsaðstöðu á skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri. Umsóknum skal skila, fyrir 19. júlí nk., til:Ferðamálaráð ÍslandsStrandgötu 29600 AkureyriNánari upplýsingar eru veittar í síma 461-2915. Laun eru samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Samkvæmt lögum skal Ferðamálaráð Íslands sinna ýmsum verkefnum í ferðaþjónustu. Stofnuninn starfrækir fjórar skrifstofur í þremur löndum, Reykjavík, Akureyri, New York og Frankfurt. Stærstu málaflokkar eru landkynning og markaðsmál, upplýsingar fyrir ferðamenn og söluaðila, rannsóknir og kannanir, umhverfismál, gæðamál og fjölþjóðlegt samstarf. Myndatexti:  Umsóknum um stöðu umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs skal skila fyrir 19. júlí nk. til skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri.  
Lesa meira