Fréttir

Ráðstefna um íslenska ferðaþjónustu á Internetinu

Fimmtudaginn 23. maí nk. heldur Félag háskólamenntaðra ferðamálafræðinga (FHF) ráðstefnu á Hótel Loftleiðum undir yfirskriftinni "Íslensk ferðaþjónusta á Netinu - er upplýsingahraðbrautin greiðfær eða ófær?" Þar verður fjallað um íslenska ferðaþjónustu á Netinu og hvaða árangur hefur náðst í markaðssetningu, kynningu og ekki síst sölu á íslenskri ferðaþjónustu á þeim vettvangi. Ráðstefnan hefst kl. 13:00 og lýkur um kl. 17:30.
Lesa meira

Ísland sækjum það heim!

Ísland sækjum það heim! er yfirskrift kynningarátaks sem formlega var ýtt úr vör sl. föstudag. Markmiðið er að efla ferðalög landsmanna innanlands og hvetja þá til þess að nýta sér í auknum mæli þá fjölbreyttu möguleika sem íslensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða. Kynningarverkefnið Ísland sækjum það heim er samstarfsverkefni samgönguráðuneytisins og skrifstofu Ferðamálaráðs. Verkefnið er hluti af kynningarátaki sem efnt hefur verið til á helstu markaðssvæðum Íslands í Evrópu og í Bandaríkjunum. Er vonast til þess að viðbrögð meðal almennings á Íslandi verði ekki síðri en á meðal ferðalanga erlendis. Brugðist við hryðjuverkunum sl. haustÁkvörðun um átakið var tekin af stjórnvöldum strax í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum síðastliðið haust. Við afgreiðslu fjárlaga var samgönguráðuneytinu úthlutað 150 milljónum króna sem varið yrði til þess að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni. Ákveðið var að verja stærstum hluta fjárins á erlendum vettvangi strax í upphafi ársins en jafnframt að verja 45 milljónum til sérstakra kynningarverkefna innanlands. Þar af verður tæplega 30 milljónum varið til auglýsingaherferðar undir vígorðinu Ísland sækjum það heim. Gengið hefur verið frá samkomulagi um samstarf við Ríkisútvarpið í því átaki og samningar um samstarfsaðild fyrirtækja standa yfir. Ferðamálasamtök landshlutanna fá hvert um sig ákveðna upphæð til að kynna sérstaklega hvern landshluta eða sinna vöruþróun heima í héraði. Þá verður verkefnum á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu gefinn sérstakur gaumur. Það voru þeir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri; Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Einar Kr. Guðfinsson, formaður Ferðamálaráðs, sem kynntu átakið sl. föstudag við opnun Ferðatogs 2002 í Smáralind. Opna augu landsmanna til að upplifa land og þjóðÞjónusta við ferðamenn hefur þróast hratt hér á landi á undanförnum árum. Möguleikum í gistingu, afþreyingu, veitingum og verslun hefur fjölgað mjög og þeir vaxið að gæðum og fjölbreytni. Á sama tíma hefur ferðamynstur landsmanna á ferðum innanlands breyst lítið og viðskipti þeirra við fjölbreytta ferðaþjónustu innanlands hafa ekki þróast í takt við aukið framboð. Það er von þeirra sem standa að verkefninu að með því opnist augu landsmanna frekar fyrir fjölbreyttum tækifærum til þess að upplifa land og þjóð með augum ferðamannsins og að þeir gefi sér aukinn tíma til þess að upplifa og njóta umhverfis, sögu og menningar á Íslandi. Í herferðinni verður lögð áhersla á upplifun þeirra sem ferðast um Ísland og þeir hvattir til að snerta, smakka, anda að sér, hlusta, skoða og kynnast. Auglýst verður jöfnum höndum í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og víðar auk þess sem umhverfisgrafík og fleiri birtingarform verða notuð.  
Lesa meira

Klúbbur matreiðslumeistara fékk fjölmiðlabikarinn

Ferðamálaráð Íslands veitti Klúbbi matreiðslumeistara Fjölmiðlabikarinn á sýningunni "Matur 2002" sem nú er haldin í Kópavogi. Bikarinn er veittur fyrir umfjöllun um ferðamál. Í júní, árið 1982 kviknaði sú hugmynd innan Ferðamálaráðs að veita árlega viðurkenningu, fjölmiðlabikarinn, fyrir umfjöllun um ferðamál í fjölmiðlum. Síðan þá hefur fjölmiðlabikarinn verið veittur, reyndar ekki árlega, því ef ekkert eitt hefur staðið uppúr, hefur verðlaunaveitingunni verið sleppt. Þessi háttur hefur verið hafður til þess að vægi viðurkenningarinnar verði sem mest. Fjölmiðlabikar 2002Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, afhenti Gissuri Guðmundssyni, formanni Klúbbs matreiðslumeistara bikarinn og sagði við það tækifæri: "Kynningar íslenskra matreiðslumeistara á hámenningu okkar í matargerð hefur vakið mikla athygli erlendis og áhersla þeirra á úrvals hráefni og náttúrulegar afurðir hafa opnað augu ótalmargra á hreinni og óspilltri náttúru Íslands. Mikil umfjöllun um íslenskan mat og íslenskt hráefni í stórum og virtum erlendum fjölmiðlum hafa leitt af sér mikil greinarskrif um Ísland sem áskjósanlegan áningarstað fyrir sælkera sem vilja upplifa óspillta náttúru og ævintýralegt umhverfi um leið og gælt er við bragðlaukana á fyrsta flokks veitingahúsum. Markaðsátak íslenskra matreiðslumanna hefur auk þess dregið hingað til lands fjölda heimsþekktra og virtra matreiðslumanna sem hafa kynnt sér leyndardóma íslenska hráefnisins og matargerðarlistar. Þessir áhrifamenn í matarmenningu heimsins eru margir hverjir orðnir óformlegir kynningarfulltrúar lands og þjóðar, því heima fyrir deila þeir upplifun sinni með löndum sínum og viðskiptavinum. Fjöldi erlendra blaða- og fréttamanna hafa auk þess gert sér ferðir hingað til lands í því augnamiði að deila upplifun sinni á matnum, hráefninu og ævintýrum landsins með lesendum sínum, áhorfendum og hlustendum. Það er ljóst að íslenskir matreiðslumenn hafa lyft grettistaki með jákvæðri kynningu sinni á landi og þjóð. Og það er vel við hæfi að Ferðamálaráð Íslands veiti Klúbbi matreiðslumanna fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs nú á 30 ára afmælisári klúbbsins." Viðurkenningin er veitt fyrir umfjöllun um ferðamál í víðasta skilningi. Fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs var afhendur í fyrsta sinn árið 1982, þá Sæmundi Guðvinssyni fyrir skrif hans um ferðamál. Meðal annarra sem hlotið hafa þessa viðurkenningu eru Haraldur J. Hamar, vegna útgáfu Iceland Review, Sigurður Sigurðsson fyrir útgáfu ferðablaðsins Áfanga, Magnús Magnússon fyrir umfjöllum um Ísland í Bretlandi, Ríkisútvarpið vegna Stiklu-þátta Ómars Ragnarssonar, Örlygur Hálfdánason vegna útgáfu bóka um Ísland og Flugleiðir fyrir markaðsstarf sitt og síðast Gunnar Marel Eggertsson skipasmiður og skipstjóri víkingaskipsins Íslendings sem árið 2000 sigldi í kjölfar Leifs Eiríkssonar í tilefni 1000 ára afmæli landafundanna.  
Lesa meira

Þolmörk ferðamennsku í þjóðgarðinum í Skaftafelli

Ferðamálaráð Íslands hefur látið gera rannsókn á þolmörkum ferðamennsku á fimm vinsælum ferðamannastöðum með það að markmiði að bæta aðgengi fyrir ferðamenn, vernda landið og uppfylla væntingar ferðamanna, íslenskra sem erlendra. Staðirnir eru þjóðgarðurinn í Skaftafelli, Lónsöræfi, Landmannalaugar, Mývatnssveit og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri með stuðningi frá Rannís. Þolmörk ferðamennsku eru skilgreind sem sá hámarksfjöldi ferðamanna sem getur ferðast um svæði án þess að það leiði af sér óviðunandi hnignun á umhverfinu eða upplifun ferðamanna og íbúa svæðisins. Úrvinnslu rannsóknarinnar á þolmörkum þjóðgarðarins í Skaftafelli er lokið en árið 2000 voru gestir þjóðgarðarins 147.000. Þar af voru erlendir ferðamenn 106.000 eða 62% erlendra ferðamanna sem komu til landsins á tímabilinu maí til september þetta ár. 80% gestanna voru ánægðir með dvölina og sögðu náttúrlegt umhverfi Skaftafells hafa staðist væntingar þeirra. Þjóðgarðurinn virðist höfða til ólíkra hópa, jafnt þeirra sem sækjast eftir gönguferðum í óspilltri náttúru, sem og þeirra sem kjósa að slappa af við leik og störf í grennd við tjaldstæðið og þjónustumiðstöðina. Fjórðungi ferðamanna fannst helst til mikið um ferðamenn á þessum ferðamannastað.Viðhorf heimamanna til ferðamennskunnar var jákvætt, einkum með tilliti til jákvæðra efnahagslegra áhrifa. Rannsóknin leiddi í ljós að hluti stígakerfis þjóðgarðsins er í afturför og þarf því meira viðhald en verið hefur. Gróðurlendur þola umferð misjafnlega vel, unnt verður að taka tillit til þess við stígalagningar í framtíðinni. Rannsóknir sem þessar eru nauðsynlegar til þess að viðhalda og byggja upp eðlilega og nauðsynlega þjónustu á íslenskum ferðamannastöðum, til þess að verja náttúruna og stuðla að eðlilegri þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu á landinu en ekki síst til þess að bregðast við og auka þolmörk ferðamannastaða, þar sem það er hægt, t.d. með aukinni stígagerð, bættum samgöngum og fleiru. Þolmörk ferðamannastaða-Skaftafell (pdf-3,3 Mb.)  
Lesa meira

Ávarp samgönguráðherra við opnun Ferðatorgs 2002

Það er mér sönn ánægja að opna Ferðatorg 2002. Ferðatorgið er lofsverð nýjung í markaðssetningu ferðaþjónustunnar innanlands. Hér er skapaður nýr vettvangur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki af öllu landinu, til að sýna og kynna það helsta sem þau hafa upp á að bjóða, nú þegar sumarleyfistími landsmanna er á næsta leyti. Markaðssetning sem þessi, er ákaflega mikilvæg, til að þeir möguleikar sem í boði eru til ferðalaga innanlands, komi til álita sem raunhæfur valkostur þegar ákvarðanir eru teknar um það hvernig frítíma skuli varið. Hér er á aðgengilegan hátt hægt að fá nákvæmar upplýsingar um það sem býðst í hverjum landshluta í flutningum, gistingu og afþreyingu. Fjölbreytileikinn er ótrúlegur og hægt er að fullyrða að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvar sem er á landinu. Þannig er hægt að opna augu okkar allra fyrir því, að það er alveg jafn áhugavert að ferðast um þessa stórkostlegu eyju, Íslandi, sem við byggjum eins og að ferðast um framandi lönd. Ég bind vonir við að Ferðatorg 2002 verði árviss viðburður, sem almenningur getur hlakkað til og kannað hverju sinn þá valmöguleika sem í boði eru til ferðalaga innanlands. Ferðatorg 2002 er lofsvert framtak Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs. Er mjög við hæfi að opna Ferðatorg 2002 og hleypa jafnframt af stokkunum markaðsátaki innanlands undir slagorðinu "Ísland sækjum það heim". Hryðjuverkin í Bandaríkjunum höfðu mikil ákhrif á ferðaþjónustu um allan heim. Hratt var brugðist við breyttum aðstæðum íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar. Ég beitti mér fyrir í ríkisstjórn að ákveðið var 150 milljóna króna fjárveiting, til þess að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni. Samkvæmt tillögu Ferðamálastjóra, sem falin var framkvæmd átaksins, var ákveðið að stórum hluta yrði varið í markaðssókn á erlendum vettvangi, aðallega í Bandaríkjunum og á okkar helstu markaðssvæðum í Evrópu. Auk þess var leitað samstarfs við nokkur íslensk fyrirtæki erlendis um kynningarstarf og voru viðtökur undantekningarlaust jákvæðar. Er það mat þeirra sem best til þekkja að umtalsverður árangur hafi náðst á síðustu mánuðum. Til verkefnisins innanlands, hefur verið ákveðið að verja alls 45 milljónum króna. Markmiðið með innanlandsátakinu er að hvetja landsmenn til að ferðast um Ísland og upplifa það á annan hátt en tíðkast hefur. Að kynna sér þann mikla fjölbreytileika sem einkennir íslenska ferðaþjónustu allan ársins hring í formi gistingar, veitinga og ekki síst afþreyingar. Þennan fjölbreytileika og gæði þess sem er í boði, eru erlendir ferðamenn búnir að uppgötva og nýta sér í æ ríkari mæli ár frá ári. Á hinn bóginn þykir ekki hafa tekist nægilega vel að opna augu landsmanna fyrir þessari staðreynd og því að fyrir þessa þjónustu þarf að greiða rétt eins og á erlendri grundu. Langtímaverkefnið er að fá Íslendinga til að læra að upplifa land og þjóð og ferðalög innanlands á sama hátt og þegar þeir ferðast erlendis, gefa sér meiri tíma til slökunar og afþreyingar, kynna sér umhverfi sitt og náttúru, sögu og menningu með opnum huga. Beri átakið árangur mun það ná að vekja athygli á markbreytilegum tækifærum til að ferðast um landið, árið um kring, og skapa hlý hughrif vegna einstakra eiginleika okkar fallega lands. Þykir mér sýnt að þannig muni landsmenn upplifa ferðalag innanlands sem engu minna ævintýri en ferðalag erlendis. Mikil gróska hefur verið í funda- og ráðstefnuhaldi hér á landi og á undanförnum árum hafa tekjur af þeirri þjónustu verið í stöðugum vexti. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir því að heildartekjur af ráðstefnugestum árið 2000 hafi verið nálægt 4 milljörðum króna þ.e. um 15% af gjaldeyristekjum greinarinnar. Eitt af því sem getur ráðið úrslitum í þróun ferðaþjónustu hér á landi er bygging ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík. Í síðustu viku var undirritað samkomulag um byggingu ráðstefnu- og tónlistarhúss og hótels í hjarta borgarinnar. Sú ákvörðun verður að vera lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna um allt land. Gera verður þá kröfu til þeirra sem byggja og reka ráðstefnumiðstöðina, að ráðstefnustarfsemi leiði til aukins ferðamannafjölda utan hins hefðbundna ferðamannatímabils, til hagsbóta fyrir íslenska ferðaþjónustu í heild. Ísland hefur ímynd hreinleika og öryggis. Breytt ferðamynstur og áherslur í ferðalögum um allan heim hafa opnað ný tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem getur boðið upp á fyrsta flokks þjónustu í umhverfi sem er óspillt og laust við þá ógn sem hryðjuverk og glæpir skapa. Þá hefur orðið samstaða um að fara nýjar leiðir við markaðssetningu og skapa ný sóknarfæri, eitt dæmið um það er Ferðatorg 2002. Ágætu gestir Íslensk ferðaþjónusta á framtíðina fyrir sér. Ég hvet landsmenn alla til að ferðast meira um landið, gera það með opnum huga, skoða, hlusta, snerta og kynnast Íslandi eins og kynningarátakið hvetur til, það mun örugglega koma skemmtilega á óvart.Látum okkur líða vel á ferð um landið Ferðatorg 2002 er opnað. Góða ferð.  
Lesa meira