Fara í efni

"Hvernig sem viðrar" nýtur mikilla vinsælda

Hvernigsemvidrar
Hvernigsemvidrar

Ferðaþátturinn "Hvernig sem viðrar" er eitt vinsælasta efnið í íslensku sjónvarpi um þessar mundir. Þetta kemur skýrt fram í fjölmiðlakönnun Gallup sem fram fór dagana 18. júní til 2. júlí sl. Þættirnir eru á dagskrá Sjónvarpsins á fimmtudagskvöldum.

"Hvernig sem viðrar" mældist með 22,7% uppsafnað áhorf en þá eru reiknaðir saman þeir sem horfa á frumsýningu þáttarins og þeir sem bætast við þegar hann er endursýndur. Hver og einn er þó aðeins talinn einu sinni. "Hvernig sem viðrar" er vinsælasti þáttur Sjónvarpsins en aðeins fleiri horfðu á þrjá erlenda þætti á Skjá 1, sem voru þannig vinsælasta sjónvarpsefni landsmanna á umræddu tímabili. Könnunin var unnin í gegnum síma upp úr 1.500 manna tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur voru á aldrinum 12-80 ára af öllu landinu og alls svöruðu 932 manns.

Liður í ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim"
Eins og fram hefur komið er "Hvernig sem viðrar" liður í ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim", sem Samgönguráðuneytið og Ferðamálaráð Íslands standa að með stuðningi nokkurra aðila. Umsjónarmenn þáttarins, þau Villi og Rósa, koma víða við á ferð sinni um landið og er ekkert óviðkomandi, hvort sem um spennandi ævintýraferðir, hjólreiðar um hálendið, böð í heitum laugum, leyndar náttúruperlur eða skemmtilegar uppákomur er að ræða. Þtturinn er unninn á lifandi hátt og hægt er að fylgjast með ferðalöngunum á vefsíðu RÚV, þar sem þeir halda úti ferðadagbók, auk þess sem umsjónarmennirnir eru í reglulegu sambandi við Rás 2.

Myndatexti:  Villi og Rósa hafa svo sannarlega náð til landsmanna enda er þátturinn unninn á lifandi og skemmtilegan hátt.