Fara í efni

Hægt að ganga á milli heimsálfa

Erlendir ferðamenn keyptu þjónustu fyrir rúmlega 1500 milljónum króna hærri upphæð í sumar en í fyrr…
Erlendir ferðamenn keyptu þjónustu fyrir rúmlega 1500 milljónum króna hærri upphæð í sumar en í fyrra

Brú á milli heimsálfa var formlega vígð við hátíðlega athöfn á Reykjanesi í gær. Það voru þeir Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sem klipptu á borða á milli Evrópu og Ameríku og gengu að því loknu á milli heimsálfanna.

Þessari táknrænu brú var komið fyrir yfir gjá sem myndast hefur vegna hreyfingar meginlandsflekanna, Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, sem mætast hér á landi. Gjáin er á því svæði sem flekaskilin ganga upp á landið en þau halda áfram frá Reykjanesi, norður fyrir land, og eru víða sýnileg. Brúin er 18 m löng og situr á gjánni þar sem hún er um 6 m há, við veginn á milli Hafna og Reykjanesvita, ofan Stóru-Sandvíkur.

8 ára hugmynd orðin að veruleika
Hugmyndin um gerð slíkrar brúar vaknaði fyrir um 8 árum hjá Jóhanni D. Jónssyni, ferðamálafulltrúa Reykjaness. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar stóð fyrir byggingu brúarinnar en hópur fólks undir forystu Hjálmars Jónssonar alþingismanns kom framkvæmdinni af stað. Íslenskir aðalverktakar sáu um smíðina og eru jafnframt aðal stuðningsaðili verkefnisins. Ýmsir fleiri hafa komið að því, m.a. Ferðamálaráð. Til framkvæmdarinnar hafa verið lagðar um 10 milljónir króna en eftir er að leggja í kostnað vegna upplýsingaskilta og stígagerðar. Auk þess hefur Vegagerðin kostað hluta bílastæða.

Hægt að fá viðurkenningarskjal
Fólki gefst kostur á að fara yfir brúna hvenær sem er, því að kostnaðarlausu. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfanna" en markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar sér um að úthluta slíkum viðurkenningum gegn vægu gjaldi. Er þess þannig vænst að brúin verði sjálfbær.