Fara í efni

Markviss markaðssetning á ráðstefnu- og hvataferðamarkaði

Ráðstefnur- og hvataferðir
Ráðstefnur- og hvataferðir

Síðustu misseri hefur farið fram skipuleg markaðssetning á Íslandi sem áfangastað fyrir hvataferðir og ráðstefnur. Fjölmargir aðilar standa saman að þessum verkefnum undir leiðsögn og forystu Ferðamálaráðs og Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Dæmi um þetta eru þátttaka í sýningum og beinar markaðsaðgerðir á völdum markaðssvæðum á Norðurlöndum, í Evrópu og Bandaríkjunum.

Kynningar í sendiráðum í fimm löndum
Á næstunni mun Ráðstefnuskrifstofa Íslands í samvinnu við Ferðamálaráð Íslands, Icelandair og sendiráð Íslands, standa fyrir kynningum í London, Osló, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki. Fyrsta kynningin verður haldinn í London þann 28. september þar sem kynnt verður hvað Ísland hefur að bjóða er varðar hvataferðir og ráðstefnur. Gestunum verður boðið að bragða íslenskan mat og hitta aðildarfélaga RSÍ sem taka þátt í kynningunni. Einnig verður kynning á fyrirhugaðri byggingu Ráðstefnu- og tónlistarhúss sem mun rísa á Miðbakkanum í Reykjavík. Samskonar kynningar verða svo haldnar í Helsinki 25. október, í Osló þann 7. nóvember, Stokkhólmi þann 8. nóvember og Kaupmannahöfn þann 9. nóvember.

Samvinnan gefur aukið vægi
?Tilgangurinn með þessum kynningum er að sinna því meginhlutverki Ráðstefnuskrifstofunnar að markaðssetja Ísland sem áfangastað til ráðstefnuhalds og móttöku hvataferða. Með því að halda kynningarnar erlendis næst betur til vel valdra kaupenda og samvinnan við sendiráðin, Ferðamálaráð og Icelandair gefur þeim enn aukið vægi. Norðurlöndin og Stóra-Bretland eru meðal mikilvægustu markaðssvæða Íslands þegar kemur að hvataferðum og ráðstefnuhaldi og því mikilvægt að sinna vel markaðsstarfi og kynningum þar,? segir Anna R. Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri Ráðstefnuskrifstofunnar.

Ráðstefnu-og tónlistarhús skapar nýja möguleika
Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs, er ráðstefnu-og hvataferðamarkaðurinn einn verðmætasti vaxtabroddurinn í íslenskri ferðaþjónustu. ?Nú hillir undir nýtt metnaðarfullt Ráðstefnu-og tónlistarhús með alþjóðlegu hóteli. Sú framkvæmd mun gerbreyta möguleikum okkar á þessum markaði og skapa ný sóknarfæri, beggja vegna Atlantshafs, fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan og opinberir aðilar vinna náið saman að markaðssetningunni enda viðurkennt að markaðssetning og gjaldeyrisöflun vegna ferðaþjónustu vinni gegn þensluáhrifum í hagkerfinu og skilar erlendu tekjustreymi inn í landið, segir Ársæll Harðarson að lokum.

Mynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.