Fara í efni

Nýr stigi upp úr Ásbyrgi og bætt aðstaða fyrir ferðamenn við Dettifoss

Síðastliðinn föstudag var formlega tekinn í notkun nýr stigi upp úr Tófugjá í Ásbyrgi. Jafnframt var opnuð ný og gjörbreytt snyrtiaðstaða fyrir ferðamenn við Dettifoss að austan.

Stiginn upp úr Tófugjá bætir aðstöðu allra náttúruunnenda, innlendra sem erlendra, á vinsælli gönguleið milli Vesturdals og Ásbyrgis. Áður voru margir sem treystu sér ekki til að fara um Tófugjá og þurftu að fara um lengri veg í Ásbyrgi.

Vatnssalernið við Dettifoss kemur í stað þurrsalernis sem hefur staðið ferðamönnum til boða í nokkur ár. Hér er um verulega framkvæmd að ræða þar sem bora þurfti sérstaklega fyrir vatni til að geta boðið gestum þjóðgarðsins upp á viðunandi hreinlætisaðstöðu á þessum vinsæla ferðamannastað. Ferðamálaráð Íslands styrkti verkefnið um 3 milljónir króna en einnig fékk Umhverfisstofnun, sem Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum heyrir undir, styrki vegna þessara verkefna frá Pokasjóði og ÁTVR.


Klippt á borða við formlega opnun á nýju salernishúsi við Dettifoss. Talið frá vinstri. Davíð Egilson, forstjóri Umhverfisstofnunar; Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands og Þórey I. Guðmundsdóttir, forstöðumaður  fjárhags- og rekstrarsviðs Umhverfisstofnun.