Fara í efni

Niðurstöður vetrarkönnunar Ferðamálaráðs

Loftferðasamningur við Kína skapar grundvöll fyrir áætlunarflug
Loftferðasamningur við Kína skapar grundvöll fyrir áætlunarflug

Niðurstöður úr vetrarkönnun Ferðamálaráðs 2004-05 eru nú aðgengilegar hér á vefnum. Könnunin fór fram í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá miðjum september 2004 fram til loka maí 2005 og er sambærileg eldri könnunum sem gerðar hafa verið yfir vetrartímann, síðast veturinn 2001-2002.

Á könnunartímabilinu fóru um 176 þúsund gestir úr landi í gegnum Leifsstöð, 31% voru Norðurlandabúar, 21,0% Bretar, 16,7% N-Ameríkanar, 7,1% Þjóðverjar og 4,0% Frakkar. Alls tóku 2600 einstaklingar þátt í könnuninni. Notfær svör voru því 1,5 prósent úr þýðinu.

Mismunandi tekjuhópar
Heldur fleiri karlar en konur voru í hópi vetrargesta síðastliðinn vetur, 54,8% á móti 45,2%, en hins vegar hefur hlutfall kvenna farið vaxandi sé litið til tveggja síðustu kannana. Hlutfall tekjuhærra fólks er að aukast en athygli vekur að nokkur munur er á markaðssvæðum í því tilliti. Svo virðist að verr hafi gengið að ná til tekjuhærri einstaklinga í Mið-Evrópu heldur en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þannig er mun stærri hluti síðartöldu gestanna í hópi tekjuhærri einstaklinga, miðað við tekjur í heimalandi viðkomandi.

Eins og í fyrri könnunum nefna langflestir svarenda náttúruna og landið þegar spurt er um hvaðan hugmynd að Íslandsheimsókn hafi komið. Næstflestir nefna vini/ættingja og síðan þætti eins og viðskiptatengsl, netið og ferðabæklinga. Þá vegur náttúran sem fyrr þyngst þegar ákvörðun um Íslandsferð er tekin. Netið er langöflugasti upplýsingamiðill erlendra ferðamanna um Ísland. Ríflega helmingur svarenda sagðist nota það og er hlutfallið hæst hjá Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum. Ánægjulegt er að um fimmtungur vetrargesta hefur komið áður til landsins.

Ferðahegðun
Áhugavert er að skoða tölur um dvalarlengd. Gestir frá meginlandi Evrópu dvöldu hér að meðaltali í 7 nætur að vetri á meðan Bandaríkjamenn, Bretar og Norðurlandabúar dvöldu hér tæplega 5 nætur að jafnaði. Í báðum tilfellum hefur meðaldvalarlengd lengst frá árinu 2000, ólíkt því sem oft heyrist haldið fram, þ.e. að gestir séu almennt að dvelja hér í færri nætur en áður. Þegar skoðað er í hvaða landshluta er gist kemur í ljós að hærra hlutfall gesta hefur gist utan höfuðborgarsvæðisins en fram kom í síðustu könnun. Sérstaklega hefur hlutur Suðurlands vaxið. Bendir þetta til betri dreifingar gesta en áður. Meðaldvalarlengd er þó sem fyrr lengst í Reykjavík. Náttúruskoðun er líkt og í fyrri könnunum efst á blaði þegar spurt er um nýtingu á afþreyingu.

Þjónustan fær hærri einkunn
Gestir voru sem fyrr beðnir að leggja mat á ýmsa þá þjónustu sem þeir fengu hér á landi. Er sérlega ánægjulegt að þeir eru að gefa þjónustu hærri einkunn en áður. Á þetta við um gistingu, mat og upplýsingagjöf.

Niðurstöður könnunarinnar eru settar fram í gröfum en út frá þeim má síðan skoða þær nánar, m.a. eftir þjóðernum, kyni, aldri, starfsstétt, tilgangi og tegund ferðar.

Í meðfylgjandi Powerpoint-skjali hefur síðan verið tekinn saman samanburur við eldri kannanir.

Mynd: Fyrir ofan Grenivík, sér inn Eyjafjörð.
/Guðni Hermannsson