Fara í efni

Íslendingar fjölmennir á Vestnorden

nordurbryggja2
nordurbryggja2

Rúmlega 100 íslenskir aðilar eru skráðir til þátttöku á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin verður í Kaupmannahöfn 13.-14. september næstkomandi. Ferðamálaráð Íslands, Grænlands og Færeyja hafa staðið að kaupstefnunni síðastliðna tvo áratugi og er hún nú haldin í tuttugasta sinn.

Rúmlega 150 sýnendur
Sýnendur á kaupsstefnunni koma frá vestnorrænu löndunum þremur auk þess sem fyrirtæki frá Danmörku og Settlandseyjum taka þátt. Samtals eru rúmlega 150 fyrirtæki frá þessum löndum skráð sem sýnendur að þessu sinni þannig Íslendingar eru lang fölmennastir líkt og jafnan áður.

Kaupendur koma víð að
Á Vestnorden hitta sýnendurnir ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum og eiga með þeim stutta fundi sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Þarna er um að ræða fyrirtæki sem eru að selja, eða hafa hug á að selja, ferðir til vestnorrænu landanna. Um 112 kaupendur frá um 20 löndum eru skráðir til þátttöku á Vestnorden að þessu sinni. Má þar nefna fyrirtæki frá Ástralíu, N.-Ameríku og Rússlandi og en flest eru fyrirtækin þó frá nágrannaríkjum okkar í V.-Evrópu.

Takmarkanir á kynningum
Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs vill koma því á framfæri við íslenska söluaðila að þeir átti sig á þeirri takmörkun á kynningum sem felst í breytingu á fyrirkomulagi kaupstefnunnar nú. ?Að þessu sinni stendur Ferðamálaráð Grænlands fyrir Vestnorden og fer það fram í Kaupmannahöfn í fyrsta sinn. Fundirnir fara fram í húsnæði bak við Bryggjuhúsið og plássleysi gerir það að verkum að fyrirtækin geta ekki haft með sér kynningarveggi og annað áberandi sýningarefni. Þetta er ókostur en að sögn Grænlendinga óhjákvæmilegt," segir Ársæll.

Vestnorden í Kaupmannahöfn í haust verður sem fyrr segir sú 20. í röðinni. Kaupstefnan hefur 10 sinnum verið haldin hér á landi, 5 sinnum í Færeyjum og nú eru Grænlendingar gestgjafar í fimmta sinn. Þetta er þó í fyrsta skipti sem Vestnorden er haldin utan landanna þriggja en ákvörðun um Kaupmannahöfn í stað Grænlands miðar að því að draga úr kostnaði fyrir þátttakendur.

Heimasíða Vestnorden 2005

Mynd: Norðurbrygggja í Kaupmannahöfn.