Fara í efni

Um 2 milljónir gesta heimsækja landkynningarvefi Ferðamálaráðs

Áfangaskýrsla um Vatnajökulsþjóðgarð
Áfangaskýrsla um Vatnajökulsþjóðgarð

Líkt og fram kom í frétt um könnun Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna, sem kynnt var í gær, hefur Internetið haldið áfram að sækja í sig veðrið sem aðal upplýsingamiðill þeirra er sækja landið heim. Þessa sér einnig stað í sívaxandi umferð um landkynningarvefi Ferðamálaráðs.

800% fjölgun á 4 árum
Meginlandkynningarvefur Ferðamálaráðs er www.visiticeland.com og er hann á 6 tungumálum. Að sögn Halldórs Arinbjarnarsonar vefstjóra var nýtt met slegið í umferð um vefinn í júlí síðastliðnum þegar tæplega 120 þúsund gestir heimsóttu vefinn. Umferðin er að jafnaði mest yfir hásumarið, það dregur úr henni á haustin en síðan fer allt á fulla ferð aftur eftir áramótin. Umferð um vefinn hefur aukist frá ári til árs og ef horft er 4 ár aftur í tímann hefur gestum á mánuði fjölgað um tæp 800%. Bara fjölgunin miðað við júlí í fyrra er nærri 50% og á síðustu 12 mánuðum telja gestir vefsins nokkuð á aðra milljón. Auk visiticeland.com þá er skrifstofa Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum með landkynningarvefinn www.icelandtouristboard.com og skrifstofan í Frankfurt með vefinn www.icetourist.de. Halldór segir þannig hægt að gera ráð fyrir að sé gestum þessara vefja bætt við séu samanlagt um 2 milljónir gesta að heimsækja landkynningarvefi Ferðamálaráðs á ári.

Áhersla á leitarvélar
Aukin umferð um vefi Ferðamálaráðs getur að sögn Halldórs átt sér fleiri en eina skýringu. ?Að hluta til skýrist þetta að sjálfsögðu af sífellt aukinni vefnotkun í heiminum almennt en meginskýringin liggur að ég tel í betri sýnileika vefsins okkar, bæði í kynningarefni Ferðamálaráðs og á leitarvélum. Leitarvélarnar gegna þarna lykilhlutverki því tölur sýna að bróðurpartur fólks hefur upplýsingaöflun sína á vefnum með því nota leitarvélar. Þar ber Google-leitarvélin höfuð og herðar yfir aðra og því afar mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila að huga vel að stöðu sinni þar. Því miður eru leitarvélamál þó það sem allt of margir vanrækja,? segir Halldór.

Mikilvægasta markaðs og upplýsingatækið
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, bendir á að landkynningarvefirnir byggja á viðamesta gagnagrunni landsins um þá þjónustu sem er í boði um land allt. Að auki geta gestir fengið margvíslegar upplýsingar um land og þjóð auk þess sem mögulegt er að kíkja á stuttar videomyndir frá Íslandi, panta bæklinga og gera fyrirspurnir. ?Þannig eru vefirnir að treysta sig í sessi sem mikilvægasta markaðs-og upplýsingatækið í okkar starfssemi. Þá má geta þess að yfir 120.000 einstaklingar hafa skráð sig á lista og óskað eftir fréttum á tölvupósti reglulega,? segir Ársæll.