Fréttir

Fréttatilkynning frá Norðursiglingu

Í kjölfar atviks þess á sl. laugardagsmorgunn, þegar einn bátur fyrirtækisins rakst utan í bryggju, telja undirritaðir sér bæði ljúft og skylt að láta eftirfarandi koma fram: 36 farþegar voru um borð þegar báturinn rakst utan í bryggjuna á leið út úr höfninni. Skipstjóra annars báts fyrirtækisins sem varð vitni að atburðinum grunaði strax að ekki væri allt með felldu og kvöddu stjórnendur fyrirtækisins lögregluna á staðinn og í kjölfarið vöknuðu grunsemdir um ölvun. Engum farþeganna varð meint af og biðu þeir næstu brottfarar og fóru þá með öðrum báti fyrirtækisins í hvalaskoðun. Skipstjórinn sem um ræðir hefur starfað í hlutastarfi og við afleysingar hjá fyrirtækinu frá upphafi og hefur verið farsæll í starfi þar til þetta gerðist. Honum hefur verið sagt upp störfum. Mál hans fer sína leið fyrir dómstólum. Varðandi þann ólánssama mann sem óhappinu olli skal þess getið að hann hefur stundað sjó frá unga aldri og býr yfir mikilli reynslu og óvenjulegum sjómannshæfileikum. Aldrei áður í átta ára sögu fyrirtækisins hefur viðlíka mál komið upp en til þessa hafa bátar Norðursiglingar flutt vel á annað hundrað þúsund farþega í hátt í 4.000 sjóferðum. Varla þarf að taka það fram að stjórnendur Norðursiglingar ehf. líta þetta atvik mjög alvarlegum augum og munu í framhaldi af þessu enn auka kröfur til starfsmanna sinna. Með von um áframhaldandi gott samstarf, Heimir HarðarsonHörður Sigurbjarnarson  
Lesa meira

Þrjár vikur í Vestnorden

Eftir réttar þrjár vikur mun Vestnorden ferðakaupstefnan standa sem hæst í Íþróttahöllinni á Akureyri. Undirbúningur er í fullum gangi og stefnir allt í einkar glæsilegan viðburð. Skipulag eða uppsetning kaupstefnunnar verður með nokkuð öðrum hætti en verið hefur. Í stað hins hefðbundna básakerfis sem flestir þekkja eru notuð skilrúm sem eru einfaldari og ættu að gefa nokkuð léttara yfirbragð. Svæðið eða básinn sem hver og einn hefur til afnota er byggt upp af þremur 1 m breiðum einingum og hliðarnar tengjast bakinu í 45° horni (sjá mynd). Veggrými er því 3 m á lengd en einingarnar eru 2,5 metrar á hæð. Hverju svæði fylgja borð, fjórir stólar og ljós en að auki er mögulegt að fá rafmagnstengil sem dugar fyrir tölvu og þess háttar búnað. Hvert svæði er númerað en að öðru leyti sér hver og einn um að merkja sitt pláss. Húsið verður opið fyrir sýnendur á milli kl. 10 og 18 þriðjudaginn 10. september þannig að fólk geti komið búnaði sínum fyrir.  
Lesa meira

Ferja á milli Íslands og N.-Ameríku?

Vestnorræna ráðið hefur ákveðið að láta kanna hagkvæmni ferjusiglinga á milli Íslands og Norður-Ameríku. Hugmyndin gengur út á að siglingarnar yrðu í anda ferjunnar Norrænu sem eins og kunnugt er heldur uppi áætlunarsiglingum yfir sumartímann á milli Seyðisfjarðar og meginlands Evrópu með viðkomu í Færeyjum og á Hjaltlandseyjum. Gert er ráð fyrir að ferja sem sigldi á milli Íslands og Norður-Ameríku hefði viðkomu á Suður-Grænlandi. Vestnorræna ráðið vonast eftir því að hagkvæmnismatið liggi fyrir innan fárra mánaða og þá verði hægt að kanna hvort einhver hafi áhuga á að hleypa hugmyndinni af stokkunum. Styttist í nýja NorrænuÍ þessu sambandi hefur verið rifjað upp að í upphafi voru litlar vonir bundnar við rekstur Norrænu. Ferjan hefur hins vegar reynst vinsæll ferðamáti og nú styttist í að ný, þrefalt stærri ferja, verði tekin í gagnið. Nýja Norræna er smíðuð í Þýskalandi og verður sjósett innan örfárra daga, nánar tiltekið 24. ágúst nk. Unnið verður við frágang fram í febrúar á næsta ári og í mars er ráðgert að skipið fari í jómfrúarferð sína. Myndatexti:  Hin nýja Norræna er glæsilegt skip eins og þessi tölvugerða mynd ber með sér en hún er fengin á heimasíðu Smyril-Line.  
Lesa meira

Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs 2002

Á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin verður í Stykkishólmi 17.-18. október nk. verða umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs veitt. Hugmyndin að baki verðlaununum er að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum, fyrirtækjum eða einstaklingum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálaráðs að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra um að huga betur að umhverfinu og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Allir geta sent inn tilnefningarÖllum er heimilt að senda inn tilnefningar til umhverfisverðlauna og þurfa þær að hafa borist umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs fyrir 1. september nk. Tilnefningar má senda með tölvupósti á netfangið valur@icetourist.is eða til Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri og þar eru einnig veittar nánari upplýsingar. Meðfylgjandi er gátlisti sem gott er að hafa til hliðsjónar þegar verið er að velja þá sem tilnefndir verða. Gátlistinn er í pdf-formi og auðvelt að prenta hann út. Opna GÁTLISTA. Myndatexti:  Á síðasta ári fengu Íshestar umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs en myndin er einmitt tekin í ferð hjá fyrirtækinu.  
Lesa meira

Ferðamálaráð auglýsir eftir samstarfsaðilum vegna auglýsingaátaks

Ferðamálaráð Íslands hefur ákveðið að bjóða íslenskum fyrirtækjum til samstarfs um gerð og birtingu auglýsinga sem hvetja landsmenn til ferðalaga innanlands. Um er að ræða framhald af herferðinni "Ísland - sækjum það heim" og er gert ráð fyrir að útlit og efnistök auglýsinga taki mið af því sem gert hefur verið til þessa. Ferðamálaráð hyggst verja tíu milljónum króna til verkefnisins á tímabilinu 1. september 2002 til 5. maí 2003. Hér með er auglýst eftir fyrirtækjum sem hafa áhuga á að leggja fram fé á móti Ferðamálaráði og auglýsa þjónustu sína á framangreindu tímabili. Skilyrði er að viðkomandi fyrirtæki sé starfandi í ferðaþjónustugeiranum og reiðubúið að auglýsa í fjölmiðlum sem ná til allra landsmanna. Skipt í 16 hlutaFjármunum Ferðamálaráðs er skipt í 16 hluta, fjóra að fjárhæð ein milljón króna og tólf að fjárhæð 500.000 krónur. Lágmarksframlag þeirra sem vilja taka þátt er jafnhá upphæð í hverjum hluta. Hver aðili getur einungis boðið í einn hlut. Samstarfsaðilar verða valdir með hliðsjón af fjárframlögum og fyrirhugðum kynningarverkefnum hvers og eins. Tekið er við skriflegum umsóknum um samstarf til 20. ágúst nk. á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri  
Lesa meira

Samgönguráðherra fagnar því að ÍSLENDINGUR sé á heimleið

Samgönguráðherra, sem er ráðherra ferðamála, fagnar því að tekist hafi að leysa málefni víkingaskipsins ÍSLENDINGS og því frumkvæði sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók í málinu. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu ráðuneytisins. Í næstum tvö ár hefur ríkt óvissa um framtíð skipsins og er því forganga Reykjanesbæjar um lausn málsins sérstakt fagnaðarefni. Í Njarðvík, nýrri heimahöfn skipsins, mun það fá hlutverk sem skipinu sæmir og mun það efla íslenska ferðaþjónustu. Er öllum sem að þessu verki hafa komið óskað til hamingju með þetta framfaraskref. Vegna árþúsundamótanna fór fram umfangsmikil kynning á Íslandi vestanhafs á árinu 2000. Sá liður kynningarinnar sem fékk mesta athygli var sigling víkingaskipsins og náði umfjöllun fjölmiðla til milljóna manna. Sérstakan áhuga vakti framganga áhafnarinnar enda ekki á allra færi að sigla yfir Atlantshafið við aðstæður sem tíðkuðust fyrir þúsund árum. Gunnar Marel Eggertsson, sem smíðaði skipið og var jafnframt skipstjóri þess, stóð í eldlínunni og vakti mikla athygli fjölmiðla vestanhafs. Það kom því engum á óvart er Gunnar hlaut fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs árið 2000. Ferðaþjónustan kom þannig á framfæri við hann, og áhöfnina alla, innilegu þakklæti fyrir frábærlega vel unnin störf í þágu greinarinnar. Samgönguráðherra færir öllum sem að því komu að fá ÍSLENDING heim á ný sínar bestu þakkir.  
Lesa meira

Útlit fyrir góða þátttöku á Vestnorden

Nú eru aðeins tæpar 6 vikur í að Vestnorden ferðakaupstefnan hefjist á Akureyri. Útlit er fyrir mjög góða þátttöku en þarna er stefnt saman ferðaþjónustuaðilum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi og ferðaheildsölum hvaðanæva að úr heiminum sem eru að selja ferðir til norrænu landanna þriggja.Skráningu er nú um það bil að ljúka og stefnir í að ferðaþjónustuaðilar sem kynna þjónustu sína og vöru verði um 150 talsins og kaupendur eða ferðaheildsalar litlu færri. Þeir koma sem fyrr segir frá fjölmörgum löndum og eru sumir langt að komnir. Má þar til að mynda nefna aðila frá Ástralíu, Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi. Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin á hverju ári. Annað hvert ár er hún á Íslandi en hitt árið til skiptist í Færeyjum og á Grænlandi. Sjálf kaupstefnan stendur yfir dagana 10.-12. september en dagana fyrir og eftir hana eru boðið upp á skoðunarferðir fyrir ferðaheildsala, bæði um Ísland og einnig til Grænlands og Færeyja.
Lesa meira

Hótel Eldhestar fá Svaninn

Hótel Eldhestar á Völlum í Ölfusi hefur hlotið norræna umhverfismerkið Svaninn og er fyrsta íslenska hótelið sem fær þessa viðurkenningu. Svanurinn hefur verið opinbert umhverfismerki norðurlandaþjóða í um áratug og á heimasíðu Neytendasamtakanna kemur fram að Svanurinn er samkvæmt könnunum það umhverfismerki sem flestir neytendur á Norðurlöndum þekkja og treysta best. Fyrirtækið Eldhestar var stofnsett árið 1986 og bauð í fyrstu upp á styttri hestaferðir. Það síðan þróast mikið og er nú í hópi í öflugustu fyrirtækja landsins á sínu sviði. Yfir háannatímann starfa um 25 manns hjá Eldhestum og heildarfjöldi gesta er um 10.000. Fyrr á þessu ári reisti fyrirtækið síðan sveitarhótel á Völlum en frá upphafi var miðað við að það væri byggt eftir hugmyndafræði Norræna umhverfismerkisins. Á hótelinu eru 10 tveggja manna herbergi.  
Lesa meira

Samtök ferðaþjónustunnar fagna því að hætt er við Villinganesvirkjun

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent bæjarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar bréf þar sem því er fagnað að fallið hafi verið frá áformum um Villinganesvirkjun í Skagafirði. Segir í bréfinu að ákvörðun bæjarstjórnar stuðli að áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu í Skagafirði. Í bréfinu segir að fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skagafirði hafi lagt mikla vinnu og fjármagn í uppbyggingu fljótasiglinga á þessu svæði og árangur sé að koma í ljós. Á síðasta ári störfuðu um 25 starfsmenn við fljótasiglingarnar yfir aðalsiglingartímann sem frá maí til september. Þar sem ýmis önnur starfsemi tengist fljótasiglingunum og ferðamenn þurfi margs konar aðra þjónustu s.s. mat og gistingu hefði mátt búast við mun víðtækari áhrifum en sem nemur þeim störfum og veltu sem tengjast fljótasiglingunum beint. Myndatexti:  Fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skagafirði hafi lagt mikla vinnu og fjármagn í uppbyggingu fljótasiglinga á þessu svæði og á síðasta ári störfuðu um 25 starfsmenn við fljótasiglingarnar yfir aðalsiglingartímann sem er frá maí til september.  
Lesa meira

Gistiskýrslur 2001 - 0,3% fjölgun gistinátta

Fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skagafirði hafi lagt mikla vinnu og fjármagn í uppbyggingu fljótasiglinga á þessu svæði og á síðasta ári störfuðu um 25 starfsmenn við fljótasiglingarnar yfir aðalsiglingartímann sem er frá maí til september.Ritið Gistiskýrslur 2001 hefur verið birt á heimasíðu Hagstofunnar. Ritið hefur að geyma upplýsingar um fjölda gistinátta, gestakoma, gistirými og nýtingu þess á gististöðum hér á landi árið 2001. Upplýsingarnar eru birtar í töflum og yfirlitum og sundurliðaðar eftir tegund gististaða, landsvæðum og ríkisfangi gesta. Af niðurstöðum ritsins er það helst að nefna að heildarfjöldi gistinátta árið 2001 var 1.742 þúsund sem er um 0,3% fjölgun frá árinu 2000 en þá námu þær 1.737 þúsundum. Sé miðað við árið 2000 þá voru gistinætur árið 2001 fleiri á heimagististöðum, farfuglaheimilum, svefnpokagististöðum og í skálum í óbyggðum. Þær voru hins vegar færri á hótelum og gistiheimilum sem og í orlofshúsabyggðum og á tjaldsvæðum. Hótel og gistiheimiliGististöðum í flokki hótela og gistiheimila fjölgaði um fjóra milli áranna 2000 og 2001, úr 244 í 248, herbergjum fjölgaði um 129 og rúmum um 161. Sem fyrr voru gistinætur hlutfallslega flestar í þessum flokki eða um 68% heildargistinátta ársins 2001. Gistinætur töldust 1.180 þúsund á hótelum og gistiheimilum árið 2001 eða um 6.000 færri en árið 2000, sem er 0,5% fækkun. Ef litið er á einstök tímabil ársins þá fækkaði gistinóttum á tímabilinu maí til september um 2,4% en fjölgaði hins vegar yfir vetrarmánuðina um 3,5%. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum á höfuðborgarsvæðinu voru 639 þúsund árið 2001 eða um 1% færri en árið 2000. Á landsbyggðinni fjölgaði þeim hins vegar um 0,5% úr 539 þúsundum árið 2000 í 542 þúsund árið 2001. Önnur tegund gistingarOrlofshúsabyggðir töldust vera 26 árið 2001, sem er sami fjöldi og árið 2000. Þar voru gistinætur rétt tæp 39 þúsund eða um 15% færri en árið 2001. Þrátt fyrir að farfuglaheimilum fækkaði um þrjú milli áranna 2000 og 2001 töldust gistinætur þar vera 8% fleiri í fyrra en árið áður eða tæp 67 þúsund. Sama var uppi á teningnum hjá heimagististöðum, en þar fjölgaði gistinóttum um 5%, úr 53 þúsundum árið 2000 í 55 þúsund árið 2001 á meðan að gististöðunum sjálfum fækkaði um sjö. Svefnpokagististöðum fjölgaði hins vegar um sex árið 2001 og gistinóttum þar fjölgaði að sama skapi einnig, úr 21 þúsundi í 26 þúsund eða um 24%. Hlutfallslega varð mesta fjölgun gistinátta þó í skálum í óbyggðum, því þrátt fyrir að þeim fækkaði um tvo milli áranna 2000 og 2001 þá fjölgaði gistinóttunum þar um 28% og voru þær 55 þúsund árið 2001. Fjöldi tjaldsvæða á landinu var sá sami árið 2001 og árið á undan eða 133. Þar fækkaði gistinóttum um 2% milli áranna 2000 og 2001, fóru úr 326 þúsundum í 320 þúsund. Hlutfallsleg skipting gistinátta eftir landsvæðum og ríkisfangi gestaÞegar heildarfjöldi gistinátta er sundurliðaður eftir landsvæðum kemur í ljós að árið 2001 voru tæp 40% gistinátta á höfuðborgarsvæðinu líkt og árið á undan og árið þar á undan. Suðurland var með 19% gistinátta, Norðurland eystra með 16%, Austurland 10%, Vesturland 6%, Norðurland vestra 4% og landsvæðin Vestfirðir og Suðurnes reyndust vera hvort um sig með tæp 3% af heildarfjölda gistinátta árið 2001. Helmingur gistinátta útlendinga var á höfuðborgarsvæðinu en töluverður munur er þó á vali á áfangastað eftir ríkisfangi. Útlendingar gista hlutfallslega oftast á höfuðborgarsvæðinu og eru ferðamenn frá Bandaríkjunum, Kanada, Norðurlöndum, Bretlandi og Írlandi þar mest áberandi. Ferðamenn frá öðrum löndum Evrópu eyddu á bilinu 14-23% gistinátta sinna á Suðurlandi, Austurlandi og Norðurlandi eystra árið 2001 sem er nokkuð hærra hlutfall en hjá öðrum útlendingum. Hvað íslenska ferðamenn varðar þá er helst að nefna að þeir eyddu um 30% gistinátta sinna á Suðurlandi, 20% á Norðurlandi eystra og um 13% á Austurlandi. Á prenti eða á netinuRitið Gistiskýrslur 2001 ætti að nýtast vel til skipulagningar og markaðssóknar fyrir alla seljendur gistiþjónustu og aðra þá er tengjast ferðamennsku og hyggjast sækja fram á þeim markaði. Hægt er að panta ritið á heimasíðu Hagstofunnar og kostar það 700 krónur.  
Lesa meira