Fréttir

"Scandinavian Travel Award"

Sem kunnugt er verður hin árlega ferðasýning, INTERNATIONAL TOURISM - BÖRSE (ITB) haldin í Berlín dagana 7.-11. mars nk. Í tengslum við hana mun útgáfufyrirtækið NORDIS Verlag í annað sinn veita svokölluð "Scandinavian Travel Award" verðlaun.Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti í fyrra og þá unnu Vestfirðir til þeirra eins og margir eflaust muna. Um er að ræða fjóra mismunandi flokka. Besti áfangastaður, svæði Besta vöruframboð/þjónusta Flutningsfyrirtæki, flugfélög, ferjur eða annað Besti ferðaheildsali í Þýskalandi og ferðaskrifstofa Þátttökufrestur rennur út þann 15 janúar nk. en meiri upplýsingar (á þýsku og sænsku) og skráningareyðublöð má nálgast hér. (pdf-skrá 350 kb) Allar nánari upplýsingar veitir Jeanette Jansson hjá NORDIS í netfang sekretariat@nordis.com  
Lesa meira

Ísland virkur aðili í Ferðamálaráði Evrópu

Um 600 manns sóttu árlega ráðstefnu Ferðamálaráða Evrópu, European Travel Commission (ETC), sem haldin var í New York sl. miðvikudag. Ferðamálaráð Íslands hefur í áratugi verið aðili að (ETC) en innan þessara 50 ára gömlu samtaka eru nú 33 ferðamálaráð jafnmargra þjóða. Ferðamálastjóri, Magnús Oddsson, hefur sl. fjögur ár setið í framkvæmdastjórn Ferðamálráðs Evrópu. Stjórnarformaður er ferðamálastjóri Spánar og auk þeirra sitja í stjórninni ferðamálastjóri Frakklands, ferðamálastjóri Austurríkis, ferðamálastjóri Ítalíu og fulltrúi breska ferðamálaráðsins. Sl. þrjú ár hefur Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum, verið formaður bandarísku deildar ETC og situr einnig sem slíkur í framkvæmdastjórn samtakanna. Þannig sitja nú í reynd tveir fulltrúar Íslands í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs Evrópu. Bill Clinton aðalræðumaðurAllir helstu forystumenn ferðamála í Evrópu og Bandaríkjunum sóttu ráðstefnuna á miðvikudaginn en aðalræðumaður var Blill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. Fram kom m.a. að talið er að ferðalög á milli Evrópu og Bandaríkjanna aukist á næstu árum og nái hámarki á árinu 2006.  
Lesa meira

Viðburðarríkur dagur í fluginu

Segja má að gærdagurinn hafi verið nokkuð viðburðarríkur hvað varðar tíðindi af flugsamgöngum til og frá landinu. Annars vegar var tilkynnt formlega um stofnun á nýju íslensku lággjaldaflugfélagi, Iceland Express. Hins var millilenti þota kanadíska leiguflugfélagsins HMY Airways á Keflavíkurflugvelli í fyrstu ferð sinni milli Vancouver og Calgary í Kanada og Manchester í Englandi en félagið stefnir á aukin umsvif í sumar. Stefnir að 12% markaðshlutdeildFram kom í máli forsvarsmanna Iceland Express að félagið stefnir að 12% markaðshlutdeild í millilandaflugi. Áformað er að hefja áætlunarflug 27. febrúar á milli Íslands og Kastrupflugvallar í Kaupmannahöfn annars vegar og Íslands og Stansteadflugvallar við London hins vegar. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu verður lægsta fargjald fram og til baka til Kaupmannahafnar 14.660 krónur, með flugvallarsköttum, og 14.160 krónur fram og til baka til London. Sala farmiða hefst 9. janúar. Hægt verður að kaupa farmiða á Netinu, í síma, á söluskrifstofu og hjá ferðaskrifstofum. Flogið verður einu sinni á dag til hvorrar borgar, sjö daga vikunnar, allan ársins hring. Brottför til Kaupmannahafnar verður að morgni dags og til Lundúna um miðjan dag. Gert er ráð fyrir að á ársgrundvelli verði um 40 þúsund sæti í boði á fargjöldum sem kosta á bilinu 14 til 19 þúsund krónur báðar leiðir með flugvallarsköttum. Gert er ráð fyrir að fargjöld félagsins ráðist af markaðsaðstæðum og geti því verið breytileg milli daga, vikna og mánaða. Þannig geti hæsta fargjald t.d. verið mismunandi frá einni brottför til annarrar. Forsvarsmenn félagsins gera ráð fyrir að hæsta fargjald verði á bilinu 15-19 þúsund krónur, aðra leiðina án flugvallarskatta. Á blaðamannafundinum í gær kom fram að notuð verður 148 farþega Boeing 737-300, flugvél sem fengin er á samningi frá breska flugrekstrarfélaginu Astraeus. Áhöfn í farþegarými verður íslensk og flogið verður á flugrekstrarleyfi Astraeus. Iceland Express er til húsa í að Suðurlandsbraut 24. Rúmlega 20 manns munu starfa á skrifstofu fyrirtækisins og fimmtán flugþjónar að auki í fullu starfi. Búið er að ráða í flestar stöður og framkvæmdastjóri er Jóhannes Georgsson, fyrrum framkvæmdastjóri SAS á Íslandi. Fyrsta millilending HMY Airways á KeflavíkurflugvelliÞota kanadíska leiguflugfélagsins HMY Airways millilenti á Keflavíkurflugvelli í gær í fyrstu ferð sinni á milli Vancouver og Calgary í Kanada og Manchester í Englandi. HMY Airways er ungt flugfélag sem á tvær Boeing 757-200 vélar. Það flýgur á milli borga á vesturströnd Kanada, Bandaríkjunum og Mexíkó og nú hefur Manchester bæst við en þangað verður flogið einu sinni í viku til að byrja með. Vélar félagsins hafa viðkomu á Keflavíkurflugvelli í báðum ferðum, meðal annars til að taka eldsneyti. Á meðan vélin er afgreidd fara farþegarnir inn í flugstöðina og geta keypt inn í fríhafnarverslun, notið bankaþjónustu og keypt sér veitingar. Í gær voru 130 farþegar með vélinni. Félagið stefnir á að auka flugið til Englands með því að fljúga til fleiri borga og reiknar með fjórum til fimm ferðum í viku í sumar. Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur, er fulltrúi fyrirtækisins hér á landi.  
Lesa meira

Verkefni í menningarferðaþjónustu fær 50 milljóna króna styrk frá ESB

Evrópuverkefnið "Destination Viking - Sagas & Storytelling" fékk um helgina jákvæða afgreiðslu á umsókn um styrk úr sjóði Northern Periphery áætlunar Evrópusambandsins sem Íslendingar gerðust aðilar að fyrr á þessu ári. Um er að ræða stærsta Evrópuverkefni á sviði menningarferðaþjónustu sem Íslendingar taka þátt í en Íslendingasögurnar eru samnefnari verkefnisins. Heildarkostnaðaráætlun verkefnisins nemur einni milljón evra eða um 85 milljónum króna. Þar af styrkir Evrópusambandið verkefnið um 50 milljónir króna og rennur um helmingur styrkfjárins hingað til lands. Um er að ræða samstarf 18 "víkingaverkefna" frá sex löndum: Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð. Þá hafa aðilar frá eyjunni Mön á Írlandshafi og Leifsbúðum (L´Anse aux Meadows) á Nýfundnalandi óskað eftir að fá að taka þátt í verkefninu á eigin kostnað. Samningsaðili við Evrópusambandið um styrkinn er Byggðastofnun en verkefnisstjóri er Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar. Sex íslenskir þátttakendur eru í verkefninu: Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða með verkefni um Gísla sögu, Dalabyggð með Eiríksstaði og Leifsverkefnið, Safnahús Vesturlands með Egilsstofu, Grettistak sf. í Húnaþingi vestra, Reykjanesbær með víkingaskipið Íslending og uppsveitir Árnessýslu með verkefni um Þjórsárdal og Þjóðveldisbæinn. Verkefnið er til þriggja ára og lýkur í árslok 2005. Fyrsti samráðsfundur í verkefninu verður haldinn í uppsveitum Árnessýslu í febrúar  
Lesa meira

Tekjukönnun SAF í nóvember 2002

Samtök Ferðaþjónustunnar hafa birt niðurstöður úr tekjukönnun sinni fyrir nóvembermánuð. Hún sýnir m.a. betri nýtingu herbergja en á sama tíma í fyrra, bæði í Reykajvík og á landsbyggðinni. Þorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur SAF, segir mjög óeðlilegt ef nýting í Reykjavík hefði ekki batnað frá því í fyrra þar sem yfir 200 herbergi hafa verið tekin úr rekstri á meðan endurbætur standa yfir á Hótel Esju. Merkilegra sé að nýting á landsbyggðinni fari batnandi. Þetta sé í samræmi við þróun sem sést hafi undanfarna mánuði og hafi síðan verið staðfest af gistináttatalningu Hagstofu. Þorleifur segir að niðurstöður Hagstofunnar fyrir októbermánuð hafi verið mjög í takt við tekjukönnun SAF. Hér að neðan má sjá niðurstöður tekjukönnunarinnar og samanburð við fyrri ár. Reykjavík Meðalnýting 61,31%. Meðalverð kr. 5.528. Tekjur á framboðið herbergi kr. 105.070.Fyrri ár hafa gefið eftirfarandi tölur:1996 52,95% Kr. 3.8261997 52,27% Kr. 3.7451998 59,26% Kr. 3.6851999 57,73% Kr. 4.274. Tekjur á framboðið herbergi kr. 76.487.2000 70,28% Kr. 5.182. Tekjur á framboðið herbergi kr. 112.907.2001 55,74% Kr. 5.206. Tekjur á framboðið herbergi kr. 89.951.Það tosast aðeins upp frá fyrra ári, enda hefur úrtakið minnkað sem nemur Hótel Esju sem hefur verið lokað. Umdeilanlegt er hvort halda ætti úrtaksstærðinni, en þar sem það hótel er ekki í rekstri er það tekið út. Því er eðlilegt að nýting hinna hótelanna batni. Sendið athugasemdir ef þið hafið skoðun á málinu Landsbyggðin Meðalnýting 21,19 Meðalverð kr. 6.811. Tekjur á framboðið herbergi kr. 43.292.Til samanburðar koma fyrri ár: 1996 28,29% Kr. 3.9301997 22,58% Kr. 3.8951998 26,65% Kr. 4.2401999 21,05 % Kr. 4.646. Tekjur á framboðið herbergi kr. 29.342.2000 24,26 % Kr. 4.767. Tekjur á framboðið herbergi kr. 34.693.2001 19,91 % Kr. 4.742. Tekjur á framboðið herbergi kr. 28.318.Hér er það fyrst og fremst mjög góður árangur hótelanna í Keflavík sem er að koma inn. Landsbyggðin án Akureyrar og Keflavíkur Meðalnýting 13,59%. Meðalverð kr. 4.732. Tekjur á framboðið herbergi kr. 19.290.Til samburðar koma fyrri ár:1996 32,60% Kr. 3.0471997 18,29% Kr. 3.3151998 18,59% Kr. 3.6521999 12,26% Kr. 4.308. Tekjur á framboðið herbergi kr. 15.842.2000 12,00% Kr. 4.329. Tekjur á framboðið herbergi kr. 15.590.2001 10,84% Kr. 4.504. Tekjur á framboðið herbergi kr. 14.643.Stór bætt nýting á landsbyggðinni og það án þess að verð hafi farið niður. Þetta er í rétta átt.  
Lesa meira

Skipurit Ferðamálaráðs Íslands

Á fundi Ferðamálaráðs fyrr í vikunni voru samþykktar skipulagsbreytingar og skipurit fyrir stofnunina. Starfseminni er formlega skipt upp í þrjú svið og þannig stofnað nýtt svið, markaðssvið. Undir það munu heyra öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend. Hið nýja skipulag tekur gildi 1. febrúar nk. Eins og fram hefur komið rennur samningur um Markaðsráð ferðaþjónustunnar út nú í árslok eftir fjögurra ára gildistíma. Í því ljósi beindi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, því til Ferðamálaráðs að þessi lögbundni málaflokkur stofnunarinnar, þ.e. markaðs- og kynningarmál, yrði efldur á næstunni. Á það bæði við um innlenda og erlenda markaðsvinnu. Til að styrkja enn frekar markaðsþáttinn í starfsemi Ferðamálaráðs við þessar aðstæður mæltist samgönguráðherra til þess að gerðar yrðu ákveðnar skipulagsbreytingar á starfsemi stofnunarinnar. Þrjú sviðTil að verða við tilmælum ráðherra, og jafnframt til að gera Ferðamálaráð enn betur í stakk búið til að sinna verkefnum sínum, var unnið skipurit fyrir stofnunina þar sem starfseminni er skipt upp í þrjú svið. Með því er leitast við að gera verkefni ráðsins skilvirkari og línur á milli mismunandi málaflokka stofnunarinnar skýrari. Segja má að hér sé verið að festa á blað í aðalatriðum það verklag sem unnið hefur verið eftir í stofnuninn en með samþykki ráðsins hefur það verið formlega staðfest. Þannig verði rennt styrkari stoðum undir núverandi starfsemi Ferðamálaráðs, auknar áherslur lagðar á meginmálaflokka og búið í haginn fyrir nýja. MarkaðssviðLandkynningar- og markaðsmál verði styrkt með stofnun á nýju markaðssviði. Öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend, munu heyra undir sviðið, þ.á.m. kynningarskrifstofur Ferðamálaráðs í New York, Frankfurt og fyrirhuguð skrifstofa í Kaupmannahöfn. Forstöðumaður markaðssviðs verður jafnframt staðgengill ferðamálastjóra. Upplýsinga- og þróunarsviðNúverandi starfsemi á Akureyri fær nafnið upplýsinga- og þróunarsvið. Meðal verkefna eru upplýsingamál, gerð gagnagrunns, umhverfismál, fræðslumál, vefþróun og -viðhald, rannsóknir, flokkun gististaða o.fl. Rekstrar- og stjórnsýslusviðÞriðja sviðið er síðan rekstrar- og stjórnsýslusvið og þar er ferðamálastjóri jafnframt forstöðumaður. Undir sviðið heyra m.a. rekstur og fjármál, skipulag og áætlanagerð, lögbundin stjórnsýsluverkefni, umsjón með samningagerð, kannanir, leyfismál, fjölþjóðlegt samstarf o.fl. Nýtt skipulag tekur sem fyrr segir gildi frá og með 1. febrúar 2003.  
Lesa meira

Gistinætur og gestakomur á hótelum í október

Hagstofan hefur nú birt bráðabirgðatölur yfir gistinætur og gestakomur á hótelum í október síðastliðnum. Meðal þess sem fram kemur er að miðað við sama tímabil í fyrra þá fækkar gistinóttum í öllum landshlutum nema Suðurlandi. Þar er um verulega fjölgun að ræða. Ekki nægjanleg skil frá AusturlandiÞar sem skil á gistiskýrslum septembermánaðar hafa ekki verið nægjanleg fyrir Austurland er ekki mögulegt að birta tölur fyrir þann landshluta að svo stöddu. Hagstofan birtir því ekki heildartölur fyrir landið. Tölur annarra landsvæða eru birtar eins og vanalega. Gistinætur á höfuðborgarsvæðinu færri en á sama tíma í fyrraGistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í októbermánuði voru færri en árið 2001. Í október síðastliðnum töldust gistinætur vera 40.010 en árið 2001 voru þær 45.153, sem telst um 11% samdráttur milli ára. Athygli vekur þó að fjöldi íslenskra hótelgesta á höfuðborgarsvæðinu eykst lítillega á þessu tímabili, eða um rúm 3%. Þá fækkar gistinóttum vegna útlendinga um rúm 13%. Gistinóttum fækkar á Suðurnesjum, Vesturlandi og VestfjörðumÍ október fækkaði gistinóttum um tæp 12% í þessum landshlutum. Þar voru gistinætur 4.569 í október síðastliðnum en árið á undan voru þær 5.182. Þess má þó geta að gististöðum í þessum landshlutum fækkaði um einn og rúmum um 42. Á Norðurlandi fækkar gistinóttum í októberGistinóttum á Norðurlandi vestra og eystra fækkaði um tæp 8% milli ára. Þá voru gistinæturnar 3.761 árið 2001 en töldust 3.466 í október síðastliðnum. Hótelum á Norðurlandi hefur fjölgað um eitt og hefur rúmum fjölgað um 105 á tímabilinu. Gistinóttum á Suðurlandi fjölgar Eins og flesta aðra mánuði ársins fjölgar gistinóttum á Suðurlandi. Þær voru 3.776 í ágúst 2001 en töldust 5.056 í október sl. en það er aukning um tæp 34%. Fjölgunin á bæði við um íslenska og erlenda hótelgesti. Geta má að á Suðurlandi fjölgar gististöðum um 4 á milli ára og rúmum um 303. TalnaefniTöflurnar hér á eftir eru á vef Hagstofunnar. Þær eru settar upp í Excel-skjölum og því þarf Excel að vera tiltækt á viðkomandi tölvu svo hægt sé að skoða þær. Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í október 1997-2002 Gistinætur á hótelum á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum í október 1997-2002 Gistinætur á hótelum á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra í október 1997-2002 Gistinætur á hótelum á Suðurlandi í október 1997-2002 Framboð gistirýmis og fjöldi gistinátta á hótelum eftir landsvæðum 2001-2002  
Lesa meira

Framkvæmdum við fjölfarna ferðamannastaði miðar vel

Á undanförnum árum hefur Ferðamálaráð sem kunnugt er staðið að úrbótum í umhverfismálum á mörgum fjölsóttum ferðamannastöðum. Í haust hafa staðið yfir framkvæmdir á þremur stöðum, þ.e. við Hraunfossa í Borgarfirði, Gullfoss og Skógarfoss, og miðar þeim öllum vel. Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, segir að markmið allra þessara framkvæmda, og þá ekki síst við Skógarfoss, sé að vernda náttúruna, þ.e að koma í veg fyrir frekari gróðurskemmdir. Við Hraunfossa er m.a. verið að afmarka bílastæði með skýrari hætti en verið hefur, bæta gönguleiðir og klára ýmsan frágang. Verður verkinu væntanlega lokið núna fyrir áramótin. Framkvæmdir við Gullfoss eru sömuleiðis á lokastigi en þar var verið að ganga frá bílastæðum og gönguleið niður að fossinum. Stigi upp með SkógarfossiFramkvæmdirnar við Skógarfoss eru langumfangsmestar af þessum þremur sem nú eru í gangi en um er að ræða nýja gönguleið upp að brún fossins. Eins og þeir vita sem til þekkja er brekkan mjög brött og erfið og því var orðið brýnt að ráðast þarna í framkvæmdir. Komið verður fyrir stálstiga sem nær alla leið upp á brún og var nýlega lokið við að steypa undirstöður hans. Aðstæður til framkvæmda eru erfiðar og nánast ógjörningur að koma við hefðbundnum tækjum. Var því gripið til þess ráðs að fá þyrlu til að ferja steypuna. Sjálfur stiginn verður síðan settur upp seinna í vetur og er stefnt á að verkinu verði lokið með vorinu. Skófarfoss er neðstur í röð margra fallegra fossa í Skógaá og er afar tilkomumikið að ganga upp með ánni. Búast má við að það verði nú enn vinsælla en áður, auk þess sem framkvæmdin nýtist þeim sem hyggja á göngu yfir Fimmvörðuháls, yfir í Þórsmörk. Mikilvægt að geta notað haustiðValur Þór segir að gott tíðarfar það sem af er vetrar hafi vissulega auðveldað framkvæmdir. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að standa í framkvæmdum á fjölsóttum ferðamannastöðum á sumrin, á meðan umferð er sem mest, og því mikilvægt að geta nýtt haustið sem best.  Myndatexti: Þyrlan á myndinni var fengin til aðstoðar við framkvæmdir við Skógarfoss.  
Lesa meira

"Vistakstur" tekinn upp á hjá Hópbílum og Hagvögnum

Þau neikvæð áhrif sem notkun bifreiða hefur á umhverfið ættu að vera flestum kunn og ekki er síst mikilvægt að fyrirtæki sem gera út bifreiðar séu meðvituð um þessa staðreynd. Nú hafa Hópbílar og Hagvagnar sett sér umhverfisstefnu sem felur m.a. í sér að komið verður á umhverfisstjórnunarkerfi sem stefnt er á að fá vottað skv. ISO 14001 staðli um mitt næsta ár. Í frétt frá fyrirtækjunum kemur fram að lykilatriði umhverfisstefnunnar er að draga úr útblæstri frá bílum fyrirtækjanna, að auka umhverfisvitund starfsmanna með fræðslu og þjálfun, og hvetja starfsmenn til að framkvæma verk sín á umhverfisvænan hátt. Í samvinnu við Ökuskólann í Mjódd og Ökukennarafélag Íslands hefur verið útbúinn námskeið fyrir starfsmenn Hópbíla og Hagvagna sem uppfyllir kröfur í umhverfisstefnu félaganna. "Vistakstur"Eitt af stóru atriðunum á námskeiðinu er svokallað "EcoDriving" ökulag sem þýtt hefur verið á íslensku sem "vistakstur". Vistakstursökulag var þróað í Finnlandi og er nú einnig kennt í Noregi og Svíþjóð. Undirstöður vistaksturs er aukin hagkvæmni í akstri, aukið öryggi og umhverfisvernd. Á vistakstursnámskeiðinu fara fram einstaklingsbundin ökupróf þar sem eldsneyti er mælt með sérstökum mæli, fyrst á meðan ökumaður ekur eins og hann er vanur og svo með vistaksturslagi. Samkvæmt reynslu erlendis hefur eyðsla minnkað um 10-15% við það að taka upp vistakstur, eftir því sem fram kemur í frétt frá Hópbílum og Hagvögnum. Myndatexti: Bifreiðastjórar Hópbíla og Hagvagna á námskeiði hjá Ökuskólanum í Mjódd.  
Lesa meira

Íslandsbæklingur Ferðamálaráðs 2003 kominn út

Hinn árlegi Íslandsbæklingur Ferðamálaráðs er mikilvægur liður í markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Íslandsbæklingurinn fyrir árið 2003 er nú kominn úr prentun og farinn í dreifingu. Íslandsbæklingurinn er myndskreyttur landkynningarbæklingur og er sem fyrr gefinn út á 10 tungumálum, þ.e. ensku, dönsku, sænsku, norsku, finnsku, hollensku, ítölsku og spænsku, auk sérútgáfu fyrir þýskumælandi lönd, Frakkland og Norður-Ameríku. Upplag bæklingsins er 350 þúsund eintök. Skrifstofur FMR erlendis, sem og ferðaheildsalar í viðkomandi löndum, annast dreifingu bæklingsins, auk þess sem hann er kynntur á ferðasýningum víðsvegar um heim og sendur til íslenskra sendiráða og ræðismanna. Leitað er eftir þátttöku aðila í ferðaþjónustu í kostnaði við gerð bæklingsins og aftast í honum er að finna upplýsingasíður þar sem þeim gefst kostur á að fá birtar upplýsingar um fyrirtæki sitt gegn gjaldi. Aukið vægi InternetsinsVægi Internetsins í upplýsingaöflun ferðafólks er alltaf að aukast, eins og m.a. fékkst staðfest í síðustu könnun Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna. Könnunin sýndi að nærri helmingur þeirra ferðamanna sem kom til Íslands sl. sumar aflaði sér upplýsinga um Ísand á Internetinu. Nú hefur það skref verið stigið að Íslandsbæklingurinn 2003 fyrir Norður-Ameríkumarkað hefur verið settur inn á vef Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum þar sem hann er öllum aðgengilegur.  
Lesa meira