Fréttir

Guðmundur Tyrfingsson ehf. hlaut umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs 2002

Að þessu sinni bárust 15 tilnefningar til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs en þau voru samkvæmt venju afhent í tengslum við ferðamálaráðstefnuna sl. fimmtudag. Ferðamálaráð komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. skyldi hljóta verðlaunin í ár. Verðlaunagripurinn er höggmynd sem ber heitið Harpa og er unnin af Hallsteini Sigurðssyni myndhöggvara. Það var Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sem afhenti verðlaunin.Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a. að vegna stærðar landsins og þess að áhugaverðir staðir eru vítt og breitt um það, eru umfangsmiklir flutningar á farþegum einn af þeim þáttum sem einkenna íslenska ferðaþjónustu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þau tæki sem annast farþegaflutninga eru fyrst og fremst knúin kolefnisorkugjöfum og eru ábyrg fyrir töluverðri myndun gróðurhúsalofttegunda í landinu. Afstaða og aðgerðir flutningafyrirtækja í umhverfismálum og viðleitni þeirra til að halda óæskilegum áhrifum á umhverfið í lágmarki eru því afar mikilvægar. Til að ná merkjanlegum árangri á þessu sviði þurfa fyrirtæki að leggja á sig umtalsverða vinnu sem líklegast skilar ekki skjótfenginni arðsemi en til lengri tíma litið skilar það fyrirtækinu og umhverfinu sínu. Unnið eftir samþykktri umhverfisstefnuÞann 20. september 1999 samþykkti Guðmundur Tyrfingsson ehf. metnaðarfulla umhverfisstefnu fyrir fyrirtækið. Stefnan var síðan endurskoðuð og uppfærð 15. mars 2001 og aftur 8. júlí 2002. Í stefnunni koma fram markmið sem fyrirtækið vinnur að í umhverfismálum. Þar er m.a. kveðið á um kröfur um bifreiðar sem ætlað er að draga úr mengun, um flokkun og endurnýtingu úrgangs, þar á meðal vélaolíu, um það markmið að með sérstakri þjálfun temji bifreiðastjórar sér "grænt aksturslag", um snyrtimennsku og ástand bifreiða og loks um notkun á umhverfisvænum vörum. Í lokaorðum umhverfisstefnu Guðmundar Tyrfingssonar ehf. segir: "Umhverfismál eru mál okkar allra, aldrei er nóg að gert og alltof margt í okkar samfélagi skaðar náttúrunnar og þar með okkar. Þetta eru dæmi um okkar áherslur og markmið í þessum málaflokki. Þessi mál eru í stanslausri skoðun hjá okkur enda er það skylda okkar að vera meðvituð og opin fyrir öllum leiðum til að draga úr mengun. Við fylgjumst því grannt með þróun umhverfismála og eru vakandi yfir þessum málaflokki, framtíðin er jú í húfi." Hvatning til annarraTilgangur verðlauna sem þessara er að hvetja ferðaþjónustuaðila til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að huga að þeirri auðlind sem þeir nýta og hvetja þá til ábyrgðar á eigin athöfnum. Þótt fólksflutningar teljast seint til umhverfisvænna athafna þá sýnir þetta dæmi að alltaf er hægt að gera betur í umhverfismálum, hver svo sem starfsemin er. Þess má geta að þann 26. júlí 2002 fékk fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. staðfesta vottun og viðurkenningu Green Globe 21 samtakanna á umhverfisstefnunni en Green Globe eru alþjóðleg samtök á sviði umhverfismála í ferðþjónustu. Myndatexti:  Fulltrúar Guðmundar Tyrfingssonar ehf. ásamt formanni ferðamálaráðs og samgönguráðherra. Talið frá vinstri: Einar K. Guðfinnsson, formaður ferðamálaráðs, Guðmundur Tyrfingsson, Sigríður Benediktsdóttir, Benedikt Guðmundsson og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.  
Lesa meira

Fundaröð Ferðamálaráðs og Ferðamálasamtaka Íslands

Í lok sumars hófst fundaröð sem Ferðamálaráð og Ferðamálasamtök Íslands efndu til í sameiningu. Fundað verður með heimamönnum um allt land og áætlað að ljúka yfirferðinni seinnipart vetrar."Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands samþykkti á síðasta vetri að efna til funda formannsins með sem flestum aðilum sem koma að ferðamálum heima í héraði. Þessir fundir voru hugsaðir bæði til að veita heimamönnum upplýsingar um það sem stjórn FSÍ væri að aðhafast og ekki síður til að hlusta á viðhorf heimamanna. Ég hafði orð á þessu við nýjan formann Ferðamálaráðs, Einar K. Guðfinnsson, en hann hafði verið að hugsa á sömu nótum og þótti honum því tilvalið að ráðið og samtökin færu í þetta saman," segir Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, um tilefni fundanna. Auk þeirra hefur Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, einnig verið á fundinum. Líflegar umræðurFundaröðin hófst á Tálknafirði 24. ágúst og síðan hefur verið borið niður víðar á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Til fundanna hafa m.a. verið boðaðar stjórnir ferðamálasamtakanna á hverju svæði, ferða- og atvinnumálafulltrúar, sveitarstjórnarmenn og rekstraraðilar í greininni. "Fundirnir hafa undantekningarlaust verið vel sóttir og líflegar umræður skapast. Þarna hefur verið komið inn á alla helstu þætti sem snúa að málaflokknum, svo sem markaðsmál erlendis sem innan lands, rekstrarumhverfi greinarinnar, samgöngur, fjármögnun, gæði og öryggi, þróun upplýsingamiðstöðva, verkefni og verksvið Ferðamálaráðs o.fl.   Ég tel ótvírætt að allir aðilar hafi haft gagn af þessum fundum og þeir hafi orðið til að upplýsa ýmis atriði og ekki síst til að styrkja tengsl á milli aðila," segir Pétur. Myndatexti:  Fundaröðin hófst á Tálknafirði 24. ágúst og síðan hefur verið borið niður víðar á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Myndin er frá Ísafirði.  
Lesa meira

Málþing Ferðamálaráðs um umhverfismál

Eins og fram kemur í dagskrá ferðamálaráðstefnunnar í Stykkishólmi þá stendur Ferðamálaráð fyrir málþingi um umhverfismál í Hótel Stykkishólmi föstudaginn 18. október kl. 10.00-12.00, þ.e. daginn eftir ráðstefnuna. Meginviðfangsefni málþingsins er sjálfbær þróun í ferðaþjónustu og mikilvægi vottunar á þessu sviði. Umhverfisstefna einskis virði án vottunarMarkmiðið með málþinginu er fyrst og fremst að ræða um, kynna og vekja athygli á því hve mikilvæg vottun þriðja aðila er fyrir umhverfisvæna ferðaþjónustu og að sett séu heildarmarkmið á því sviði fyrir tiltekin svæði og jafnvel landið allt. Í viðfangsefni málþingsins felst meðal annars sú áhersla að umhverfisstefna sé einskis virði nema til komi öflugt og virkt eftirlit sem leiðir til vottunar á því að tiltekin ferðaþjónusta, fyrirtæki eða áfangastaðir standist strangar kröfur sem gera verður til umhverfisvænnar ferðaþjónustu. Mjög áhugaverð erindiVið upphaf málþingsins flytur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ávarp. Þá flytur Reg Easy, framkvæmdastjóri vottunarsviðs Green Globe 21, erindi sem hann nefnir "Umhverfisvottun áfangastaða - í hverju felst hún?". Green Globe 21 vottar umhverfisvæna ferðaþjónustu, fyrirtæki og áfangastaði og hefur Reg Easy farið mjög víða í þeim erindagjörðum og hefur af mikilli reynslu á þessu sviði að miðla. Stefán Gíslason, verkefnisstjóri staðardagskrár 21 á Íslandi, flytur erindi um sjálfbæra þróun í ferðaþjónustu en hann hefur mikla reynslu og þekkingu á því starfi sem tengist Staðardagskrá 21, umhverfisstefnu og framkvæmdaáætlunum sveitarfélaga um sjálfbæra þróun á 21. öldinni. Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla, segir frá vottunarferli Green Globe 21 á Íslandi en Hólaskóli er um það bil að taka við umboði frá Green Globe 21 til úttektar á umhverfisvænni ferðaþjónustu á Íslandi. Snæfellsbær hefur verið í forystu þeirra sveitarfélaga sem tekið hafa upp umhverfisstefnu undir merkjum Staðardagskrár 21 og flytur Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, erindi undir heitinu "Meðvituð samvinna skilar árangri". Við lok málþingsins flytur Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, samantekt um efni málþingsins. Dagskrá ráðstefnunnar og málþingsins  
Lesa meira

Íslendingar tíðari gestir á hótelum höfuðborgarsvæðisins

Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í ágústmánuði fækkaði milli áranna 2001 og 2002 samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Í ágúst síðastliðnum töldust gistinætur vera 63.354 en árið 2001 voru þær 64.981, en það er um 2,5 % samdráttur. Hagstofan vekur hins vegar athygli á að fjöldi íslenskra hótelgesta á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldaðist milli ára og fór úr 1919 í 3852 en útlendingum fækkaði um tæp 6% á sama tíma. Gistinóttum fækkaði á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum um rúm 13% í þessum landshluta í ágúst. Þar voru gistinætur 9.082 í ágúst síðastliðnum en árið á undan voru þær 10.470. Gististöðum í þessum landshluta fækkaði um einn og rúmum fækkaði þar með um 49. Á Norðurlandi vestra og eystra fækkaði um tæp 3% milli ára. Þá voru gistinæturnar 14.946 árið 2001 en töldust 14.504 í ágúst síðastliðnum. Útlendingum fjölgaði þá um 5% milli ára en á sama tíma fækkaði gistinóttum vegna Íslendinga úr 2.692 í 1.638. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi eins og gerst hefur í öllum mánuðum á þessu ári. Þær voru 11.176 í ágúst 2001 en töldust 16.367 í ágúst sl, en það er aukning um rúm 46%. Fjölgunin á bæði við um íslenska og erlenda hótelgesti. Á Suðurlandi fjölgaði gististöðum um 3 á milli ára og rúmum þar með um 286. Hagstofan segir að skil á gistiskýrslum ágústmánaðar hafi ekki verið nægjanleg fyrir Austurland og því sé ekki mögulegt að birta tölur fyrir þann landshluta að svo stöddu.  
Lesa meira

Skýrsla um þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu kynnt á ferðamálaráðstefnunni

Nú er rétt vika í árlega ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands, þá 32. í röðinni. Hún verður, eins og áður hefur komið fram, haldin á Hótel Stykkishólmi dagana 17. og 18. október nk. og er opin öllu áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu. Að venju er á ráðstefnunni tekið fyrir eitt meginviðfangsefni og að þessu sinni er það þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu á Íslandi. Til grundvallar verður lögð nýútkomin skýrsla sem unnin hefur verið um þetta efni og ber hún yfirskriftina "Auðlindin Ísland - ferðaþjónustusvæði". Upphaf þessa máls má rekja til þess að á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í apríl í fyrra setti ráðherra ferðamála, Sturla Böðvarsson, fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að kortleggja auðlindina Ísland, meta svæðisbundið helstu vaxtarmöguleika í ferðaþjónustu og móta framtíðarsýn, sem hafa mætti hliðsjón af við uppbyggingu starfsgreinarinnar á komandi árum. Skrifstofu Ferðamálaráðs var síðan falin umsjá málsins. Skýrslunni ætlað að skapa umræðurHöfundar skýrslunnar eru þeir Valtýr Sigurbjarnarson, landfræðingur og Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri. Í skýrslunni eru markaðssvæði skilgreind með tilliti til ferðaþjónustu. Síðan er sérstaða hvers svæðis dregin fram og helstu möguleikar þeirra tíundaðir. Í þriðja lagi eru þeir þættir skilgreindir, sem líklegastir eru til að laða ferðamenn hingað til lands á komandi árum og loks eru gerðar tillögur um skilgreind verkefni til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Að sögn Magnúsar Oddssonar, ferðamálastjóra, eru þær hugmyndir og tillögur, sem settar eru fram í skýrslunni, fyrst og fremst hugsaðar til þess að skapa umræður og leiða af sér frekari úrvinnslu. "Við höfum lagt áherslu á að vinna náið með ferðaþjónustuaðilum á hverjum stað og munum auðvitað haga framhaldinu í samræmi við þau viðbrögð sem við fáum við efni þessarar viðamiklu skýrslu. Staða og framtíð upplýsingamiðstöðvaOfangreind skýrsla er ekki eina umfjöllunarefni ferðamálaráðstefnunnar því einnig verður farið yfir stöðu og framtíð upplýsingamiðstöðva á Íslandi og hefur Pétur Rafnsson, verkefnisstjóri hjá Ferðamálaráði, framsögu í málinu. Undanfarin ár hefur á vegum Ferðamálaráðs verið unnið markvisst að uppbyggingu og samræmingu á starfsemi upplýsingamiðstöðva fyrir ferðamenn, með góðum árangri, og hefur Pétur haldið utan um þá vinnu. Bjartara framundan í ferðaþjónustunniMagnús segir að mikill uggur hafi verið í fólki innan ferðaþjónustunnar á sama tíma í fyrra, enda hryðjuverkin í Bandaríkjunum þá nýafstaðin. "Við óttuðumst það mjög að hryðjuverkin myndu koma hart niður á ferðaþjónustunni um allan heim. Það hefur hins vegar sýnt sig að með réttum og skjótum viðbrögðum hefur okkur Íslendingum tekist að verja stöðu okkar í ferðaþjónustunni og virðast menn sammála um að forsendur séu til frekari sóknar okkar á þessu sviði." Umhverfisverðlaunin 2002 afhentSamkvæmt venju verða umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs afhent í tengslum við ráðstefnuna. Þau hafa verið afhent árlega frá árinu 1995 og komu síðast í hlut Íshesta. "Umhverfisþátturinn spilar æ stærri þátt í starfi Ferðamálaráðs og umhverfisverðlaunin er hugsuð sem hvatning til þeirra sem stunda umhverfisvæna ferðamennsku," segir Magnús. Markmiðin með umhverfisvænni ferðamennsku eru að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi og hún felur í sér samspil ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins. Dagskrá ráðstefnunnar  
Lesa meira

Suðurnesjamenn þinga um umhverfisvæna ferðaþjónustu

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar standa fyrir ráðstefnu um umhverfisvæna ferðaþjónustu á Hótel Keflavík þann 16. október nk.Fjallað verður um umhverfisvæna ferðaþjónustu og hvert sé hlutverk sveitastjórna og fyrirtækja, hvað sé hægt að gera til þess að gera fyrirtæki umhverfisvænni og hver ávinningurinn af því kann að vera. Umhverfismerkin Svanurinn, Green Globe og Blái fáninn verða kynnt og fjallað verður um stöðu umhverfismála á Suðurnesjum. Sturla Böðvarsson, samgöngumálaráðherra, mun setja ráðstefnuna. Hún er öllum opinn en í frétt frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum eru sveitarstjórnarmenn og aðilar í ferðaþjónustu sérstaklega hvattir til að mæta. Myndatexti:  Bláa Lónið er án efa einn þekktasti ferðamannastaður landsins en það hlaut einmitt umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands árið 1999.  
Lesa meira

Samstarf við 19 aðila um auglýsingar á íslenskri ferðaþjónustu

Seinnipart ágústmánaðar sl. auglýsti Ferðamálráð Íslands eftir samstarfsaðilum um auglýsingar á íslenskri ferðaþjónustu. Alls sóttust tuttugu og þrír aðilar eftir samstarfi við Ferðamálaráð. Níu af þessum aðilum sóttu um framlag upp á kr. 500 þúsund og var ákveðið var að ganga til samstarfs við sex. Fjórtán óskuðu eftir samstarfi upp á kr. 1 milljón og ákveðið var að ganga til samstarfs við þrettán. Ekki þótti forsvaranlegt að gera upp á milli verkefna þessara þrettán aðila og var því ákveðið að Ferðamálráð skyldi ganga til samstarfs við þá alla en þó á þeim forsendum að framlag Ferðamálaráðs yrði lækkað í kr. 538 þúsund. Ekki verður greint frá verkefnum einstakra aðila en öll koma þau til með að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands á komandi mánuðum. Um er að ræða framhald af herferðinni "Ísland - sækjum það heim" og er gert ráð fyrir að útlit og efnistök auglýsinga taki mið af því sem gert hefur verið til þessa. Sem fyrr segir leggur Ferðamálaráð fram 10 milljónir króna og með þessu er verið að meira en tvöfalda þá upphæð. Því er um afar öfluga markaðssetningu að ræða og væntir Ferðamálaráð mikils af þessu samstarfi. Eftirfarandi er listi yfir þá aðila sem óskuðu eftir samstarfi uppá kr. 500 þúsund og ákveðið var að ganga til samstarfs við: Safnasvæðið á Akranesi Guðmundur Tyrfingsson ehf. Ísfjarðarbær og hagsmunaaðilar Köfunarskólinn ehf. Greifinn, Bautinn, Sjallinn og Höldur Hótel Reykholt og Hótel Stykkishólmur Eftirfarandi er listi yfir þá aðila sem óskuðu eftir samstarfi upp á kr. 1 milljón og ákveðið var að ganga til samstarfs við: AVIS Ísland Íslandsflug hf. Höfuðborgastofa Ferðamálafélag Húsavíkur og nágrennis Flugleiðahótel, Hótel Ísafjörður, Hótel Reynihlíð, Flugfélag Íslands og Hótel KEA Destination Iceland ehf. Fosshótel Húsavík, Hótel Reynihlíð, Hótelveitingar, Sel Hótel Mývatn og SBA-Norðurleið Íslenskar Ævintýraferðir Ferðaskrifstofa Akureyrar Bláa Lónið hf. Íshestar ehf. Flugleiðahótel hf. Hótel Borgarnes hf.  
Lesa meira

Ísfirðingar ræða leiðir til að lengja ferðamannatímabilið

Aðilar í ferðaþjónustu í Ísafjarðarbæ ætla að hittast á hádegisfundi í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað í dag og ræða um samræmdar aðgerðir til að kynna sveitarfélagið sem funda- og ráðstefnubæ. Þetta kemur fram í frétt í Bæjarins besta í dag. Til fundarins boðar ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar, Rúnar Óli Karlsson. Bæjarins besta hefur eftir Rúnari Óla að á fundinum verði rætt um leiðir til að lengja ferðamannatímabilið og fá fólk til bæjarins á jaðartímum, í maí og í september og október. Ein leiðin til þess sé að kynna bæinn sem heppilegan stað fyrir ýmis konar samkomur og mannamót, fundi og ráðstefnur. Jafnframt er haft eftir Rúnari Óla að forsvarsmenn þeirra fyrirtækja og félagasamtaka sem hafa komið til Ísafjarðar í þessum erindagjörðum séu mjög ánægðir. Uppi séu ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt er að kynna bæinn betur og verða þær ræddar á fundinum. Nú hafi fengist fjármagn til þess konar kynningarstarfs, 200.000 krónur frá bæjarfélaginu og 500.000 krónur frá Ferðamálaráði. Sá styrkur sé eyrnamerktur auglýsingum á jaðartímum ferðamannatímabilsins. Myndatexti:  Frá Ísafirði. Mynd af vef Bæjarins besta.  
Lesa meira

Ferðaútgáfa Heims komin á Netið

Ferðaútgáfa Heims er nú komin á Netið. Um er að ræða Íslandsbækurnar, Á ferð um Ísland, Around Iceland, Rund um Island, Reykjavík this month, South Iceland, East Iceland og Undur Vestfjarða. Fleiri útgáfur eru væntanlegar á næstu vikum. Mikil eftirspurn er eftir bókunum erlendis frá bæði af þeirra hálfu sem eru að kynna landið og eins þeirra sem væntanlegir eru til landsins. Dreifing kynningarefnis hefur aðallega miðast við innanlandsmarkað og er því mikill fengur í netútgáfunni fyrir ofangreinda aðila auk þess sem markhópur auglýsenda stækkar verulega. Hægt er að prenta út skjölin af netinu og þar með velja t.d. ákveðin landssvæði eða upplýsingar. Smellið hér til að skoða vefútgáfu Heims.  
Lesa meira

Árleg ferðamannakönnun á Borgarfirði eystri

Nú í sumar gekkst Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri fyrir ferðamannakönnun fimmtánda árið í röð. Var þetta jafnframt í sextánda sinn sem ferðamenn eru taldir í Álfasteini. Ferðamannakönnunin var unnin á sama hátt og áður, ekki vísindalega en þó má draga af henni ýmsan lærdóm, að sögn Helga M. Arngrímssonar, formanns Ferðamálahóps Borgarfjarðar. Eyðublöðin lágu eins og áður frammi í Fjarðarborg og Álfasteini og nú einnig á Borg. Í sumar fengust 220 svör sem eru sæmilegar heimtur en könnunin nær eingöngu til Íslendinga. Svarhlutfall miðað við íslenska ferðamenn er tæp 4%, eða örlítið lægra en 2001 en þá var það 4,3%. Færri útlendingarAð sögn Helga fækkaði útlendingum í Álfastein í sumar miðað við árið 2001 úr 2.296 í 1.845. Fjöldi Íslendinga var hinsvegar nánast sá sami, eða 5.558 á móti 5.505 í fyrra. Helgi segir ekki gott að átta sig á þessari þróun en langur vegur sé frá því að Borgarfjörður haldi í við þróun ferðamála á landsvísu. "Ef við hefðum fylgt þróuninni á landsvísu sl. 12 ár, eða frá 1991, hefði mátt reikna með um 7.000 útlendingum hér sl. sumar," segir Helgi. Brýnt að endurvekja upplýsingamiðstöðinaEkki er gerð sérstök könnun á fjölda göngufólks á svæðinu en tilfinning manna er að sögn Helga sú að því hafi fækkað nokkuð frá sl. ári. Er það andstætt því sem reiknað hafði verið með miðað við góða aðstöðu og þau góðu orð sem svæðið hefur fengið hjá flestum sem til þekkja. "Hvað þessu veldur er heldur ekki einfalt að skýra en eflaust eru það nokkrir þættir svo sem gott veðurlag á suðvesturhorninu fyrri hluta sumars, HM í knattspyrnu og lítið fjármagn til auglýsinga og kynninga. Einnig er nokkuð flókið bókunarkerfi hjá okkur og vitað er að það fælir eitthvað frá. Kannski erum við með of miklar væntingar miðað við það sem við erum að leggja fram. Upplýsingamiðstöð hefur líka talsvert að segja í þessu en hún hefur ekki starfað frá því í mars. Kjarvalsstofa og aðrir hafa þó reynt að sinna því hlutverki en miðað við fyrri reynslu mína af rekstri upplýsingamiðstöðvar þá kostar það talsverða vinnu og til að koma henni á stofn aftur hér verðum við að vera samhent og tryggja henni fé til rekstrar. Ég álít það eitt brýnasta verkefnið auk þess að koma bókunarkerfinu í betra lag fyrir næsta sumar," segir Helgi. Gagnmerk heimasíðaFerðamálahópurinn er með góða heimasíðu með ýmsum gagnlegum upplýsingum fyrir göngufólk og aðra ferðamenn. Stöðugt er verið að breyta og bæta við upplýsingum. Á síðunni er mikill fjöldi ljósmynda, göngukortið sem gefið var út 1999, ýmsar tillögur að gönguferðum auk upplýsinga um skipulagðar gönguferðir á Víknaslóðum. Göngukortið er uppselt sem stendur en unnið er að endurbótum á því og stefnt að nýrri, endurbættri útgáfu á vordögum 2003. Helgi vildi að lokum koma á framfæri bestu þökkum til þeirra sem svöruðu könnuninni í sumar, svo og til allra þeirra sem heimsóttu Borgarfjörð. Könnunin í heild sinni er aðgengileg á heimasíðu Ferðamálahópsins.  
Lesa meira