Fréttir

Aðgengilegir ferðamannastaðir á Íslandi

Á vegum Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, er unnið að því að taka saman lista yfir ferðamannastaði hérlendis sem eru aðgengilegir hreyfihömluðu fólki. Listinn tekur til allar starfsemi sem snýr að ferðafólki, svo sem gististaða, veitingastaða, verslana, sundlauga, útvistarstaða, þjóðgarða, útsýnisstaða og fleiri þátta.   Samtökin leita aðstoðar þeirra sem starfa við ferðaþjónustu við að finna staði sem eru aðgengilegir en fylla þarf út sérstakt eyðublað fyrir hvern stað og senda það síðan til samtakanna. Listi yfir aðgengilega staði er birtur á heimasíðu Sjálfsbjargar.   Staðir eru flokkaðir niður eftir landshlutum og eru nýjar upplýsingar færðar inn á heimasíðuna jafnóðum og þær berast . Jafnframt má á heimasíðunni nálgast umrætt eyðublað. Sjálfsbjargarfélagar munu síðan gera stikkprufur, fara á staði og prófa aðgengið.  
Lesa meira

"Ísland - sækjum það heim" bætist liðsauki

Ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim" , sem Samgönguráðuneytið og Ferðamálaráð Íslands, standa að hefur bæst mikill liðsauki. Gengið hefur verið frá samkomulagi um samstarf við Ríkisútvarpið, Olíufélagið ESSÓ og Íslandspóst og munu þessir aðilar leggja sitt af mörkum til þess að efla ferðalög landsmanna innanlands eins og kostur er. Framlag samstarfsaðilanna þriggja má meta til um 20 milljóna króna og alls er umfang kynningarátaksins, sem einkum stendur yfir á sumarmánuðunum, þá orðið um 50 milljónir króna. Hvernig sem viðrarSamstarf RÚV og Íslands - sækjum það heim felst í gerð ferðaþáttarins Hvernig sem viðrar, sem sýndur verður vikulega fram eftir sumri, eins og sjónvarpsáhorfendur hafa  þegar séð, enda nokkuð síðan þættirnir fóru í loftið. Umsjónarmenn þáttarins leggja land undir fót og bregða sér í ferð um landið. Þeir munu koma víða við á ferð sinni og verður ekkert óviðkomandi, hvort sem um spennandi ævintýraferðir, hjólreiðar um hálendið, böð í heitum laugum, leyndar náttúruperlur eða skemmtilegar uppákomur er að ræða. Hvernig sem viðrar er þáttur sem unninn er á lifandi hátt og hægt er að fylgjast með ferðalöngunum á vefsíðu RÚV, þar sem þeir halda úti ferðadagbók, auk þess sem umsjónarmennirnir eru í reglulegu sambandi við Rás 2. PóstkortaleikurÞáttur ESSÓ og Íslandspósts tengist einkum sérstökum póstkortaleik sem efnt er til undir formerkjum átaksins. Markmiðið með leiknum er að hvetja ferðafólk til þess að senda vinum og vandamönnum póstkort hvaðanæva að af landinu. Þeir sem taka þátt í sjálfum póstkortaleiknum senda kort með skemmtilegum textum til Helgarútgáfunnar á Rás 2 og þar verður vikulega valið besta póstkortið og sendanda þess veitt verðlaun. Í haust verður síðan dregið úr öllum innsendum póstkortum sumarsins og munu nokkrir heppnir þátttakendur fá vegleg verðlaun. Aðalvinningur póstkortaleiksins er Coleman fellihýsi en á meðal annarra vinninga má nefna spennandi ferðir á vegum Íslenskra ævintýraferða, flugmiða hjá Flugfélagi Íslands, gasgrill og bensínvinninga Upplifa landið með vakandi augaMarkmið ferðaátaksins Ísland sækjum það heim er að hvetja Íslendinga til að ferðast um landið sitt og upplifa það með vakandi og forvitnu auga ferðamannsins með svipuðum hætti og þegar þeir ferðast erlendis. Um leið eru landsmenn hvattir til þess að gefa sér aukinn tíma til slökunar og afþreyingar, kynna sér umhverfi, sögu og menningu þjóðarinnar og njóta þeirrar fjölbreyttu möguleika sem íslensk ferðaþjónusta býður upp á um allt land. Samstarfssamkomulag aðstandenda ferðaátaksins undirrituðu þeir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands, Lárus Guðmundsson, auglýsingastjóri RÚV, Hjörleifur Jakobsson forstjóri Olíufélagsins ESSÓ og Einar Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts. Athöfnin fór fram í Fjörukránni í Hafnarfirði.  
Lesa meira

Handbók Ferðamálaráðs, ÍSLAND 2002

Út er komin handbók Ferðamálaráðs, ÍSLAND, sem gildir fyrir árið 2002. Við viljum biðjast velvirðingar á því hversu seint bókin er á ferðinni en ástæðan er tæknilegs eðlis. Ráðist var í að skipta um gagnagrunninn sem bókin byggir á og reyndist það verk bæði flóknara og tafsamara en ráð var fyrir gert. Nýi gagnagrunnurinn gefur hins vegar mun meiri möguleika en sá eldri, sérstaklega þegar kemur að uppflettingu og leit í honum á Netinu, en sem fyrr er grunnurinn öllum aðgengilegur á heimasíðu Ferðamálaráðs. Í gagnagrunni Ferðamálaráðs eru upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land. Má fullyrða að um er að ræða heildstæðasta gagnagrunn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Í grunninum er m.a. að finna ítarlegar upplýsingar um gistingu, þ.e. hótel, gistiheimili, bændagistingu, farfuglaheimili, sumarhús, skála og tjaldsvæði. Einnig skipulagðar ferðir af öllu tagi og samgöngur, s.s. rútur, báta, flug, bílaleigur, strætisvagna og leigubíla. Þá er þar að finna upplýsingar um opnunartíma safna um allt land, lista yfir það sem er á döfinni, golfvelli, veiði, sundlaugar, reiðhjólaleigur og hestaleigur. Loks má nefna ýmsar fleiri hagnýtar upplýsingar, svo sem um upplýsingamiðstöðvar, ferðaskrifstofur, sendiráð erlendra ríkja og ræðismenn, vegalengdir á milli staða og ýmislegt fleira. Handbókin er mikilvægt uppflettirit fyrir þá sem starfa að skipulagningu hvers konar og upplýsingagjöf í ferðaþjónustu. Bókin hefur til þessa komið út tvisvar á ári en mun eftirleiðis koma út einu sinni og þá gilda fyrir allt árið. Er fyrirhugað að næsta bók, sem þá gildir fyrir árið 2003, komi út fyrir næstu áramót. Handbókin er seld í áskrift og fæst á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri. Nánari upplýsingar fást í síma 464-9990 eða með því að senda póst á netfangið upplysingar@icetourist.is  
Lesa meira

Alþjóðlegt ár umhverfisvænnar ferðaþjónustu árið 2002

Nú á tímum er fólk sífellt að verða meðvitaðra um umhverfi sitt; náttúru, menningu og sögu. Ferðaþjónustuaðilar eru þar engin undantekning og eru þeir í æ ríkari mæli farnir að huga að umhverfismálum í sínum rekstri. Hér á landi gefa nokkrir aðilar sig út fyrir að reka sjálfbæra ferðaþjónustu en enn fleiri stunda umhverfisvæna ferðaþjónustu. Það er því vel að helga árið 2002 vistvænum ferðamálum. Frekari upplýsingar  
Lesa meira

Áætlunarflug á milli Düsseldorf og Egilsstaða hefst í kvöld

Viss tímamót verða í ferða- og samgöngumálum hér á landi þegar farþegaþota þýska flugfélagsins LTU lendir á Egilsstaðaflugvelli í kvöld. Þar með hefst vikulegt áætlunarflug á milli Düsseldorf og Egilsstaða og er þetta í fyrsta sinn sem erlent flugfélag hefur áætlunarflug til og frá Egilsstaðaflugvelli. Flogið verður alla föstudaga í sumar frá 7. júní til 30. ágúst. Vegleg móttökuathöfnÍ tilefni af þessu fyrsta flugi LTU til Egilsstaða í sumar verður vegleg móttökuathöfn á Egilsstaðaflugvelli. Þar verða m.a. viðstaddir ráðherrar, alþingismenn, sendiherra Þýskalands á Íslandi, fulltrúar LTU, fulltrúar Terra Nova-Sólar umboðsaðila LTU á Íslandi, fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi, fulltrúar Flugmálastjórnar og fulltrúar Ferðamálaráðs. Flutt verða ávörp og fyrsti farþeginn sem stígur frá borði verður heiðraður sérstaklega. Hinir þýsku fulltrúar munu fagna þessum tímamótum að þýskum sið og austfirskir listamenn skemmta. Hópur þýskra blaðamann kemur með fluginu frá Þýskalandi og kynnir sér aðstæður á Austurlandi og víðar um land. Þriggja ára undirbúningurÍ fréttatilkynningu segir að áætlunarflug LTU til Egilsstaða sé afrakstur þriggja ára mikillar undirbúningsvinnu Þróunarstofu Austurlands, Terra Nova Sólar og Ferðaskrifstofu Austurlands. LTU hefur flogið til Íslands frá því árið 1995 í góðri samvinnu við Terra Nova-Sól og með áætlunarflugi til Egilsstaða fjölgar ferðum LTU á milli Íslands og Þýskalands og eykur möguleika á ferðum Íslendinga til Þýskalands og öfugt. "Nýr áfangastaður, og um leið ný innkomuleið með flugi til Íslands, fjölgar möguleikum ferðaþjónustuaðila almennt við að auka fjölbreytni í framboði ferða til landsins og samkeppnisstaða Íslands batnar," segir í tilkynningunni. Markaðssetning erlendisSíðastliðinn vetur undirrituðu LTU, Ferðamálaráð Íslands, Ferðaskrifstofa Austurlands, Markaðsstofa Austurlands, Ferðamálasamtök Austurlands, Þróunarstofa Austurlands og Terra Nova-Sól, samkomulag sem felur í sér að þessir aðilar muni, í allt að þrjú ár, vinna að því að festa í sessi millilandaflug á Egilsstaðaflugvöll. LTU og Markaðsráð ferðaþjónustunnar hafa varið samtals 20 milljónum króna til markaðssetningar á Íslandi í Þýskalandi, í tengslum við opnun á Egilsstaðaflugvelli sem nýrri innkomuleið til landsins. Nýr, hagkvæmur valkosturÍ tilkynningunni segir jafnframt af flug frá Egilsstaðaflugvelli til útlanda sé nýr og hagkvæmur valkostur fyrir íbúa á Austur- og Norðurlandi. Beint flug stytti ferðatímann, lækki ferðakostnað og auki þægindin. LTU flýgur til og frá Egilsstaðaflugvelli alla föstudaga fram að 30. ágúst næstkomandi og millilending á Keflavíkurflugvelli, á leiðinni út, gefur farþegum kost á að nýta sér þjónustu Fríhafnarinnar. Þegar komið er til Düsseldorf opnast fjölmargir ferðamöguleikar í Þýskalandi og víðar í Evrópu og einnig möguleikar á áframhaldandi flugi til fjölda áfangastaða LTU erlendis. Þota LTU, sem er af gerðinni Airbus A320, lendir á Egilsstöðum kl. 22:45, en skráning farþega í flugið hefst klukkustund áður. Myndatexti:  Mynd frá Egilsstöðum.
Lesa meira

Breytingar á starfsemi Ferðamálaráð Íslands í Evrópu

-verkefni skrifstofunnar í París flutt til Frankfurt -skrifstofa opnuð í Kaupmannahöfn á næsta ári Undanfarin tvö ár hefur Ferðamálaráð rekið skrifstofu í París en í dag, 15. maí, verður sú breyting að starfsemi hennar færist til skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Frankfurt. Er þetta í samræmi við samþykkt Ferðamálaráðs frá því sl. haust þar sem gert er ráð fyrir að erlend starfsemi á næstu misserum verði byggð upp á þremur meginskrifstofum, auk starfseminnar á Íslandi. Skrifstofan í New York sinnir þannig N.- Ameríku og skrifstofan í Frankfurt sinnir meginlandi Evrópu. Að auki er stefnt að opnun skrifstofu í Kaupmannahöfn á árinu 2003 og mun hún sinna Norðurlöndunum. Frá síðustu áramótum hefur síðan Bretlandsmarkaði verið sinnt frá skrifstofunni í Reykjavík. Þessu fylgja jafnframt breytingar á starfsmannahaldi. Guðrún Kristinsdóttir, sem verið hefur forstöðumaður skrifstofunnar í París frá upphafi, lætur af störfum í lok þessa mánaðar. Á skrifstofuna í Frankfurt hefur verið ráðinn franskur starfsmaður, Mario Noellee ADAM, til að sinna frönskumælandi hluta Evrópu.  
Lesa meira

Nordic overseas workshop (NOW) á Íslandi 2003

Nú stendur yfir í Osló Nordic Overseas Workshop ( NOW) þar sem söluaðilar í ferðaþjónustu frá Norðurlöndunum fimm kynna vöru sína og þjónustu fyrir söluaðilum í löndum utan Evrópu. Fjölmargir söluaðilar eru frá N.- Ameríku og Asíu en færri frá S.- Ameríku og Ástralíu. Þessi ferðamarkaður færist á milli landanna fimm sem eru aðilar að Ferðamálaráði Norðurlanda en það eru Danmörk, Finnland, Ísland Noregur og Svíþjóð. Á Íslandi að ári liðnuNæst verður NOW á Íslandi 12-13 maí 2003. Gera má ráð fyrir að um 60 söluaðilar frá Norðurlöndum komi hér og kynni sig fyrir um 100 kaupendum frá löndum utan Evrópu. Þá munu þessir kaupendur einnig fara í ferðir um Ísland á undan og á eftir ferðakaupstefnunni. Því er ljóst að NOW getur haft mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustuaðila hérlendis.  
Lesa meira

Ráðstefnuskrifstofa Íslands boðar til morgunverðarfundar

Í tilefni af 10 ára starfsafmæli sínu mun Ráðstefnuskrifstofa Íslands standa fyrir morgunverðarfundi í Þjóðmenningarhúsinu miðvikudaginn, 8. maí nk kl 08:15-09:30. Yfirskrift fundarins er: Framtíð ráðstefnuhalds á Íslandi. Eftirfarandi eru framsöguerindin sem verða flutt: · Mikilvægi ráðstefnuhúss fyrir ferðaþjónustuna, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra · Bygging ráðstefnuhúss í Reykjavík - fjárfesting til framtíðar - Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgastjóri · Ráðstefnulandið Ísland -best eða ódýrast - Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við HÍ  
Lesa meira

Ráðstefna um íslenska ferðaþjónustu á Internetinu

Fimmtudaginn 23. maí nk. heldur Félag háskólamenntaðra ferðamálafræðinga (FHF) ráðstefnu á Hótel Loftleiðum undir yfirskriftinni "Íslensk ferðaþjónusta á Netinu - er upplýsingahraðbrautin greiðfær eða ófær?" Þar verður fjallað um íslenska ferðaþjónustu á Netinu og hvaða árangur hefur náðst í markaðssetningu, kynningu og ekki síst sölu á íslenskri ferðaþjónustu á þeim vettvangi. Ráðstefnan hefst kl. 13:00 og lýkur um kl. 17:30.
Lesa meira

Ísland sækjum það heim!

Ísland sækjum það heim! er yfirskrift kynningarátaks sem formlega var ýtt úr vör sl. föstudag. Markmiðið er að efla ferðalög landsmanna innanlands og hvetja þá til þess að nýta sér í auknum mæli þá fjölbreyttu möguleika sem íslensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða. Kynningarverkefnið Ísland sækjum það heim er samstarfsverkefni samgönguráðuneytisins og skrifstofu Ferðamálaráðs. Verkefnið er hluti af kynningarátaki sem efnt hefur verið til á helstu markaðssvæðum Íslands í Evrópu og í Bandaríkjunum. Er vonast til þess að viðbrögð meðal almennings á Íslandi verði ekki síðri en á meðal ferðalanga erlendis. Brugðist við hryðjuverkunum sl. haustÁkvörðun um átakið var tekin af stjórnvöldum strax í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum síðastliðið haust. Við afgreiðslu fjárlaga var samgönguráðuneytinu úthlutað 150 milljónum króna sem varið yrði til þess að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni. Ákveðið var að verja stærstum hluta fjárins á erlendum vettvangi strax í upphafi ársins en jafnframt að verja 45 milljónum til sérstakra kynningarverkefna innanlands. Þar af verður tæplega 30 milljónum varið til auglýsingaherferðar undir vígorðinu Ísland sækjum það heim. Gengið hefur verið frá samkomulagi um samstarf við Ríkisútvarpið í því átaki og samningar um samstarfsaðild fyrirtækja standa yfir. Ferðamálasamtök landshlutanna fá hvert um sig ákveðna upphæð til að kynna sérstaklega hvern landshluta eða sinna vöruþróun heima í héraði. Þá verður verkefnum á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu gefinn sérstakur gaumur. Það voru þeir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri; Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Einar Kr. Guðfinsson, formaður Ferðamálaráðs, sem kynntu átakið sl. föstudag við opnun Ferðatogs 2002 í Smáralind. Opna augu landsmanna til að upplifa land og þjóðÞjónusta við ferðamenn hefur þróast hratt hér á landi á undanförnum árum. Möguleikum í gistingu, afþreyingu, veitingum og verslun hefur fjölgað mjög og þeir vaxið að gæðum og fjölbreytni. Á sama tíma hefur ferðamynstur landsmanna á ferðum innanlands breyst lítið og viðskipti þeirra við fjölbreytta ferðaþjónustu innanlands hafa ekki þróast í takt við aukið framboð. Það er von þeirra sem standa að verkefninu að með því opnist augu landsmanna frekar fyrir fjölbreyttum tækifærum til þess að upplifa land og þjóð með augum ferðamannsins og að þeir gefi sér aukinn tíma til þess að upplifa og njóta umhverfis, sögu og menningar á Íslandi. Í herferðinni verður lögð áhersla á upplifun þeirra sem ferðast um Ísland og þeir hvattir til að snerta, smakka, anda að sér, hlusta, skoða og kynnast. Auglýst verður jöfnum höndum í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og víðar auk þess sem umhverfisgrafík og fleiri birtingarform verða notuð.  
Lesa meira