Fréttir

Ferðamálaráðstefnan 2002 verður í Stykkishólmi

Nú er komin dagsetning á hina árlegu ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands en hún verður að þessu sinni haldin í Stykkishólmi dagana 17. og 18. október næstkomandi. Á ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Eins og jafnan áður verður eitt tiltekið mál tekið sérstaklega til umfjöllunar og megin umræðuefnið í ár verður þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu á Íslandi. Að öðru leyti verður dagskráin auglýst síðar en þess má þó geta undanfarin ár hafa umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs verið afhent í tengslum við ráðstefnuna. Ráðstefnan í Stykkishólmi verður sú 32. í röðinni en síðasta ferðamálaráðstefnan var haldin á Hvolsvelli dagana 18. og 19. október síðastliðinn. Hún var jafnframt sú fjölmennasta sem haldin hefur verið til þessa en hana sóttu rúmlega 200 manns hvaðanæva af landinu. Má búast við að gestir verði ekki færri í ár enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða enda eru mýmörg dæmi um að ráðstefnan hefur orðið upphaf frekara samstarfs. Ráðstefnan er jafnan haldin utan suðvesturhornsins og hafa heimamenn í hvert sinn jafnframt getað notað tækifærið til að kynna svæði sitt. Myndatexti:  Árleg ferðamálaráðstefna Ferðamálaráðs Íslands verður að þessu sinni haldin í Stykkishólmi dagana 17. og 18. október nk.  Heimasíða Stykkishólmsbæjar.  
Lesa meira

Hvað væri Ísland án fjalla?

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 2002 alþjóðlegt ár fjalla. Af þessu tilefni standa Landvernd og Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir kynningarátaki til að vekja athygli á mikilvægi fjalla í íslensku þjóðlífi. FjallgönguhappdrættiGefið hefur verið út veggspjald og efnt til samkeppni á Internetinu um að þekkja 10 fjöll og ganga á a.m.k. eitt þeirra. Síðan verða 20 heppnir þátttakendur dregnir úr pottinum þann 15. september nk. Á vefsíðunni Ár fjalla er að finna margvíslegan fróðleik um fjöll, m.a. um gerðir fjalla, um fjallaflóruna, um fjöll í myndlist og þjóðtrú, fjallgöngur o.fl. o.fl. Þar er einnig hægt að taka þátt í umræddri samkeppni. Stöðugt verður bætt við efni á þennan vef og í haust verður svo efnt til samkeppni og ferðahappdrættis meðal grunnskólabekkja og málþings um mikilvægi fjalla í íslensku þjóðlífi. Það er Herðubreið, drottning íslenskra fjalla, sem prýðir áðurnefnt veggspjald sem gefið hefur verið út til að vekja athygli á mikilvægi fjalla. Myndatexti:  Á heimasíðu Landverndar og Náttúrufræðistofnunar Íslands um ár fjalla 2002 er hægt að taka þátt í samkeppni. Sýndar eru myndir af 10 fjöllum og þeir sem geta nafngreint öll fjöllin og hafa þar að auki gengið á a.m.k. eitt þessara fjalla á árinu, geta verið með í samkeppninni. Eitt fjallanna sem þarf að þekkja er það sem myndin er af hér að ofan.  
Lesa meira

"Hvernig sem viðrar" nýtur mikilla vinsælda

Ferðaþátturinn "Hvernig sem viðrar" er eitt vinsælasta efnið í íslensku sjónvarpi um þessar mundir. Þetta kemur skýrt fram í fjölmiðlakönnun Gallup sem fram fór dagana 18. júní til 2. júlí sl. Þættirnir eru á dagskrá Sjónvarpsins á fimmtudagskvöldum. "Hvernig sem viðrar" mældist með 22,7% uppsafnað áhorf en þá eru reiknaðir saman þeir sem horfa á frumsýningu þáttarins og þeir sem bætast við þegar hann er endursýndur. Hver og einn er þó aðeins talinn einu sinni. "Hvernig sem viðrar" er vinsælasti þáttur Sjónvarpsins en aðeins fleiri horfðu á þrjá erlenda þætti á Skjá 1, sem voru þannig vinsælasta sjónvarpsefni landsmanna á umræddu tímabili. Könnunin var unnin í gegnum síma upp úr 1.500 manna tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur voru á aldrinum 12-80 ára af öllu landinu og alls svöruðu 932 manns. Liður í ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim"Eins og fram hefur komið er "Hvernig sem viðrar" liður í ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim", sem Samgönguráðuneytið og Ferðamálaráð Íslands standa að með stuðningi nokkurra aðila. Umsjónarmenn þáttarins, þau Villi og Rósa, koma víða við á ferð sinni um landið og er ekkert óviðkomandi, hvort sem um spennandi ævintýraferðir, hjólreiðar um hálendið, böð í heitum laugum, leyndar náttúruperlur eða skemmtilegar uppákomur er að ræða. Þtturinn er unninn á lifandi hátt og hægt er að fylgjast með ferðalöngunum á vefsíðu RÚV, þar sem þeir halda úti ferðadagbók, auk þess sem umsjónarmennirnir eru í reglulegu sambandi við Rás 2. Myndatexti:  Villi og Rósa hafa svo sannarlega náð til landsmanna enda er þátturinn unninn á lifandi og skemmtilegan hátt.  
Lesa meira

Íslandi gerð ítarleg skil í Washington Post

Íslandi eru gerð ítarleg skil í ferðaútgáfu bandaríska dagblaðsins The Washington Post síðastliðinn sunnudag. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Í grein The Washington Post kemur fram að íslensk náttúra sé helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hyggja á ferð til Íslands og er landinu lýst sem ósnortnu og leyndardómsfullu. Höfundur greinarinnar mælir með því að ferðamenn sem einungis ætli að staldra hér við í tvo daga eyði öðrum deginum úti á landsbyggðinni. Hinum fjölmörgu opnu svæðum í Reykjavík er hrósað, sem og útisundlaugunum sem opnar séu allt árið. Hið reykvíska næturlíf vekur ekki jafn mikla lukku greinarhöfundar sem undrast það hversu lítil miðborgin er miðað við að 80% landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu. Þá er höfundur ekki á því að verslunarmöguleikar séu miklir í borginni, nema fólk hafi hugsað sér að festa kaup á íslenskri lopapeysu eða selskinni. Höfundur hrósar gististöðum hér á landi en mælir með því að fólk leiti ráðlegginga áður en haldið sé á matsölustaði og að ferðamenn ættu ekki að koma til Íslands með það að markmiði að borða góðan mat. Í greininni er dáðst að þrautseigju landsmanna sem hafi búið sér líf á hrjóstrugu og köldu landi þar sem fjórir fimmtu hlutar lands séu óbyggilegir. Er lof borið á félags- og heilbrigðiskerfi landsins og því líkt við Svíþjóð, en tekið fram að skattahlutfall hér sé nær því sem gerist í Bandaríkjunum. Myndatexti:  Í grein The Washington Post kemur fram að íslensk náttúra sé helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hyggja á ferð til Íslands og er landinu lýst sem ósnortnu og leyndardómsfullu.  
Lesa meira

Staða umhverfisfulltrúa laus til umsóknar

Ferðamálaráð Íslands hefur auglýst stöðu umhverfisfulltrúa lausa til umsóknar. Meðal helstu verkefna sem fylgja starfinu eru úttektir og tillögur til úrbóta á ferðamannastöðum ásamt eftirliti með framkvæmdum, ýmiskonar ráðgjöf varðandi umhverfismál, ráðgjöf vegna styrkbeiðna, umsagnir vegna umhverfismats og vinna við útgáfu og fræðslumál. Umhverfisfulltrúi er með starfsaðstöðu á skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri. Umsóknum skal skila, fyrir 19. júlí nk., til:Ferðamálaráð ÍslandsStrandgötu 29600 AkureyriNánari upplýsingar eru veittar í síma 461-2915. Laun eru samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Samkvæmt lögum skal Ferðamálaráð Íslands sinna ýmsum verkefnum í ferðaþjónustu. Stofnuninn starfrækir fjórar skrifstofur í þremur löndum, Reykjavík, Akureyri, New York og Frankfurt. Stærstu málaflokkar eru landkynning og markaðsmál, upplýsingar fyrir ferðamenn og söluaðila, rannsóknir og kannanir, umhverfismál, gæðamál og fjölþjóðlegt samstarf. Myndatexti:  Umsóknum um stöðu umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs skal skila fyrir 19. júlí nk. til skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri.  
Lesa meira

Hægt að ganga á milli heimsálfa

Brú á milli heimsálfa var formlega vígð við hátíðlega athöfn á Reykjanesi í gær. Það voru þeir Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sem klipptu á borða á milli Evrópu og Ameríku og gengu að því loknu á milli heimsálfanna. Þessari táknrænu brú var komið fyrir yfir gjá sem myndast hefur vegna hreyfingar meginlandsflekanna, Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, sem mætast hér á landi. Gjáin er á því svæði sem flekaskilin ganga upp á landið en þau halda áfram frá Reykjanesi, norður fyrir land, og eru víða sýnileg. Brúin er 18 m löng og situr á gjánni þar sem hún er um 6 m há, við veginn á milli Hafna og Reykjanesvita, ofan Stóru-Sandvíkur. 8 ára hugmynd orðin að veruleikaHugmyndin um gerð slíkrar brúar vaknaði fyrir um 8 árum hjá Jóhanni D. Jónssyni, ferðamálafulltrúa Reykjaness. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar stóð fyrir byggingu brúarinnar en hópur fólks undir forystu Hjálmars Jónssonar alþingismanns kom framkvæmdinni af stað. Íslenskir aðalverktakar sáu um smíðina og eru jafnframt aðal stuðningsaðili verkefnisins. Ýmsir fleiri hafa komið að því, m.a. Ferðamálaráð. Til framkvæmdarinnar hafa verið lagðar um 10 milljónir króna en eftir er að leggja í kostnað vegna upplýsingaskilta og stígagerðar. Auk þess hefur Vegagerðin kostað hluta bílastæða. Hægt að fá viðurkenningarskjalFólki gefst kostur á að fara yfir brúna hvenær sem er, því að kostnaðarlausu. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfanna" en markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar sér um að úthluta slíkum viðurkenningum gegn vægu gjaldi. Er þess þannig vænst að brúin verði sjálfbær.  
Lesa meira

Ný röð ferðakorta

Landmælingar Íslands hafa gefið út fyrsta ferðakortið af þremur í nýrri röð ferðakorta í mælikvarðanum 1:250.000. Fyrsta kortið nær yfir Vestfirði og Norðurland og í tilefni útkomu þess afhenti Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra, fyrsta eintak kortsins á blaðamannafundi í morgun. Hin tvö ferðakortin koma út á næsta ári. Annað þeirra tekur til Suður- og Vesturlands en hið þriðja til Austurlands. Í fréttatilkynningu kemur fram að nýja kortaröðin komi í stað svokallaðra aðalkorta í sama mælikvarða en þau voru níu talsins. Kortunum hefur því verið fækkað úr níu í þrjú og er það m.a. gert til að koma til móts við neytendur. Þá var blaðskipting milli landshluta einnig ákveðin með hliðsjón af ferðavenjum landsmanna. Stærri en gengur og geristÍ tilkynningunni segir að nýju ferðakortin séu stærri en gengur og gerist um landakort og stærstu ferðakort sem gefin hafa verið út hér á landi á einu blaði. Stærð hvers korts er 86 x 137 cm. Samanbrotin eru þau hins vegar með sama umfang og önnur kort Landmælinga. "Kortið er með hæðarskyggingu sem gerir alla notkun þægilegri. Allar upplýsingar um örnefni og ferðaþjónustu hafa verið yfirfarnar og nýjar settar inn. Einnig má nefna að víða um land hafa vegastaðsetningar verið GPS mældar með mikilli nákvæmni og skilar sú vinna sér í þessari útgáfu. Þá hafa vegalengdir milli staða einnig verið uppfærðar í samræmi við þessar mælingar. Nýja ferðakortið er því einstaklega örugg heimild fyrir ferðafólk. " 15 þúsund örnefniNýja ferðakortið er að öllu leyti unnið stafrænt. Kortið er byggt á grunnupplýsingum úr gögnum Landmælinga Íslands sem hafa verið uppfærðar og endurbættar þar sem þess var þörf. Stór hluti kortaupplýsinganna er fenginn úr stafrænum kortagrunnum. Stafræna vinnslan gerir síðari tíma breytingar á kortunum afar auðveldar. Alls verða um 15 þúsund örnefni og heiti á ferðakortunum þremur. Til samanburðar má geta þess að á algengasta ferðakorti Landmælinga, vegakortinu í mælikvarðanum 1:500.000, eru um 3.300 nöfn. Útsöluverð nýja ferðakortsins er 1.290 kr.  
Lesa meira

Landsmót hestamanna hefst í næstu viku

Næstkomandi þriðjudag, 2. júlí, hefst keppni á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði en mótið stendur fram á sunnudag. Líkast til dregur enginn einn viðburður hérlendis til sín jafn marga erlenda gesti auk þess sem þúsundir Íslendinga sækja mótið. Landsmót hestamanna er hápunktur Íslandshestamennskunnar í heiminum og hvergi koma saman jafn mörg og góð hross eins og þar. Fyrir utan sýningar og keppni á hestum er fjölbreytt dagskrá í boði. Þar má nefna kvöldvökur og dansleiki ásamt því sem ýmis fyrirtæki tengd hestum og hestamennsku bjóða fram þjónustu sína. Í sem fæstum orðum þá er mannlífið iðandi og að koma á Landsmót er upplifun sem lætur engan ósnortinn, jafnt hestamenn sem aðra. Saga landsmótanna nær aftur til 1950 þegar fyrsta landsmótið var haldið á Þingvöllum. Eftir það voru haldin Landsmót á fjögurra ára fresti, allt þar til að á ársþingi Landssambands Hestamannafélaga 1995 var samþykkt að halda Landsmót á tveggja ára fresti. Fyrsta mótið sem haldið var eftir þeim reglum var Landsmót í Reykjavík fyrir tveimur árum síðan. Þá tóku þátt um það bil 1.000 hross og fjöldinn er svipaður nú. HeiðursgestirAnna Elizabeth Alice Louise Bretaprinsessa verður heiðursgestur á Landsmótinu ásamt herra Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. Þau og fylgdarlið þeirra munu dvelja tvo daga í Skagafirði og fylgjast með hápunktum mótsins auk þess að taka þátt í hópreið hestamannafélaga, sem er ómissandi þáttur hvers Landsmóts. Heimasíða Landsmótsins  
Lesa meira

Fært um flesta fjallvegi

Fært er nú orðið um flesta aðal fjallvegi landsins en nýtt kort frá Vegagerðinni um ástand fjallvega tekur gildi í dag. Nokkrar leiðir eru þó enn lokaðar. Breytingin frá því fyrir viku eru m.a. sú að nú er allur Sprengisandur fær, fært er orðið inn í Öskju og Fjallabaksleið syðri hefur verið opnuð fyrir umferð. Leiðin upp úr Eyjafirði (F821) inn í Laugafell er enn lokuð sem og svokölluð Dragaleið (F881) sem liggur af Eyjafjarðarleið inn á Sprengisandsleið. Hins vegar er búið að opna upp úr Skagafirði inn í Lagafell og þaðan er fært áfram inn á Sprengisandsleið um svokallaðan Forsetaveg (F752). Gæsavatnaleið er enn lokuð, enda jafnan sá fjallvegur sem síðast opnast á sumrin. Aðrar leiðir sem eru lokaðar eru slóðir á húnversku heiðunum og leiðin frá Hveravöllum inn í Þjófadali. Einnig vegurinn út í Fjörður og í Loðmundarfjörð en tvær síðastnefndu leiðirnar teljast þó tæpast til hefðbundinna fjallvega.  
Lesa meira

Póstkortaleikurinn kominn á fullt skrið

Póstkortaleikurinn er nú kominn á fullt skrið en hann er hluti af ferðaátakinu "Ísland - sækjum það heim" sem Ferðamálaráð og Samgönguráðuneytið standa að með stuðningi fleiri aðila. Leikurinn gengur þannig fyrir sig að þegar tekið er eldsneyti hjá ESSO fær viðkomandi afhent tvö póstkort. Annað þeirra er stílað á Helgarútgáfuna, útvarpsþátt Stefáns Karls á Rás 2. Síðan á að skrifa eitthvað skemmtilegt á kortið og stinga því í næsta póstkassa. Hitt kortið er hægt að nota að vild og senda ókeypis hvert sem er innanlands í boði Íslandspósts. Með því að senda inn kort til Rásar 2 gefast færi á glæsilegum vinningum. Vikulega velur Stefán Karl eitt skemmtilegt kort og les í þættinum. Sá sem sendi kortið fær í verðlaun ævintýraferð. Í lok sumars verða síðan glæsilegir vinningar dregnir úr innsendum kortum. Þar er um að ræða Coleman-fellihýsi, flugferðir innanlands með Flugfélagi Íslands, Fiesta-gasgrill frá ESSO og bensínvinninga.  
Lesa meira