Fréttir

Tölur yfir gistinætur og gestakomur á hótelum í september

Hagstofan hefur nú birt bráðabirgðatölur yfir gistinætur og gestakomur á hótelum í september. Þar sem skil á gistiskýrslum voru ekki nægjanleg fyrir Austurland er ekki mögulegt að birta tölur fyrir þann landshluta að svo stöddu. Þar af leiðandi er ekki hægt að birta heildartölur fyrir landið en tölur annara landsvæða eru þó birtar eins og vanalega. Gistinætur á höfuðborgarsvæðinu nánast jafnmargar og í fyrra Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í septembermánuði voru nánast jafnmargar og árið 2001. Í september síðastliðnum töldust gistinætur vera 46.152 en árið 2001 voru þær 46.550. Athygli vekur þó að fjöldi íslenskra hótelgesta á höfuðborgarsvæðinu eykst um 47% milli ára meðan útlendingum fækkar um rúm 4% á sama tíma. Hótelum á svæðinu hefur fjölgað um eitt milli ára og rúmum um 349. Gistinóttum fækkar á Suðurnesjum, Vesturlandi og VestfjörðumÍ september fækkaði gistinóttum um tæp 11% í þessum landshlutum til samans. Þar voru gistinætur 5.484 í september síðastliðnum en árið á undan voru þær 6.129. Þess má þó geta að gististöðum í þessum landshluta fækkaði um einn og rúmum um 42. Á Norðurlandi fjölgar gistinóttum Gistinóttum á Norðurlandi vestra og eystra fjölgaði um tæp 34% milli ára. Þá voru gistinæturnar 5.467 árið 2001 en töldust 7.321 í september síðastliðnum. Þá fjölgaði útlendingum um rúm 80% en íslendingum fækkaði að sama skapi um rúm 40%. Hótelum á Norðurlandi hefur fjölgað um eitt og hefur rúmum fjölgað um 105 á tímabilinu. Gistinóttum á Suðurlandi fjölgar Eins og flesta aðra mánuði ársins fjölgar gistinóttum á Suðurlandi. Þær voru 4.780 í ágúst 2001 en töldust 7.435 í september sl, en það er aukning um rúm 55%. Fjölgunin á bæði við um íslenska og erlenda hótelgesti en gistinætur vegna útlendinga hafa nánast tvöfaldast milli ára. Geta má að á Suðurlandi fjölgar gististöðum um 4 á milli ára og rúmum um 303. Sjá nánar á vef Hagstofunnar.  
Lesa meira

Tekjukönnun SAF í október 2002

Herbergjanýting var talsvert lakari í nýliðnum októbermánuði en á sama tímabili í fyrra, samkvæmt tekjukönnun Samtaka ferðaþjónustunnar. Samdrátturinn er einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fara þarf aftur til ársins 1998 til að finna lægri tölur í októbermánuði.Í Reykjavík var meðalnýting 61,79% í október, meðalverð var 6.427 krónur og tekjur á framboðið herbergi 123.106 krónur. Til samanburðar þá var nýtingin 70,21% í október í fyrra og meðalverð 6.164 krónur þannig að nýtingin nú hefur dregist saman um 8,42 prósentustig. Landsbyggðin Sé litið til landsbyggðarinnar þá var meðalnýting nú 28,22%, meðalverð 7.742 krónur og tekjur á framboðið herbergi 67.732 krónur. Í fyrra var nýtingin 32,41% og meðalverð 5.843 krónur. Nýtingin gengur þannig aðeins til baka en verðið helst ótrúlega hátt, hærra en í Reykjavík. Það er að sögn Þórleifs Þórs, hagfræðings SAF, tilkomið vegna óvenju góðarar afkomu einstaka hótela. Að Akureyri og Keflavík slepptum var meðalnýting 19,12%, meðalverð 4.858 krónur og tekjur á framboðið herbergi 28.791 krónur. Landsbyggðin er þannig ekki að lenda í sama samdrættinum og höfuðborgarsvæðið og nær einnig að lyfta upp verðinu þó verð frá 2000 náist ekki í sömu krónutölu. Hér á eftir fylgir síðan nánari samanburður á milli ára. Reykjavík 1996 55,89% Kr. 4.6751997 58,52% Kr. 4.1201998 61,39% Kr. 4.6191999 73,32%. Kr. 5.022. Tekjur á framboðið herbergi kr. 114.257.2000 71,97%. Kr. 5.653. Tekjur á framboðið herbergi kr. 126.118.2001 70,21%. Kr. 6.164. Tekjur á framboðið herbergi kr. 134.169.2002 61,79%. Kr. 6.427. Tekjur á framboðið herbergi kr. 123.106. Landsbyggðin: 1996 48,33% Kr. 3.8931997 28,67% Kr. 4.7501998 30,58% Kr. 3.9301999 32,80% Kr. 5.046. Tekjur á framboðið herbergi kr. 51.302.2000 24,66% Kr. 5.325. Tekjur á framboðið herbergi kr. 40.723.2001 32,41% Kr. 5.843. Tekjur á framboðið herbergi kr. 58.696.2002 28,22% Kr. 7.742. Tekjur á framboðið herbergi kr. 67.732. Landsbyggðin án Akureyrar og Keflavíkur 1996 34,85% Kr. 3.8931997 23,04% Kr. 3.9421998 25,78% Kr. 3.7431999 18,17% Kr. 3.941. Tekjur á framboðið herbergi kr. 22.200.2000 13,54% Kr. 4.954. Tekjur á framboðið herbergi kr. 20.791.2001 19,28%. Kr. 4.013. Tekjur á framboðið herbergi kr. 23.985.2002 19,12%. Kr. 4.858. Tekjur á framboðið herbergi kr. 28.791.  
Lesa meira

Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda

Dagana 11. og 12. nóvember nk. heldur Ferðaþjónusta bænda uppskeruhátíð sína og er hún á Grand Hótel Reykjavík við Sigtún. Viðbrögð frá bændum hafa verið afar góð og stefnir í metþátttöku nú í ár. Þátttöku á að tilkynna til Erlu Gunnarsdóttur á skrifstofu FB í vefpóst: erla@farmholidays.is eða í síma 5702705. Gistinguna bókar hver og einn sjálfur en Ferðaþjónusta bænda hefur samið við Grand hótel um verð fyrir gistingu og mat. Fundirnir sjálfir báða dagana eru endurgjaldslausir. Dagskrá uppskeruhátíðar 2002 Mánudagurinn 11.nóvember Kl. 09.00 Í hverju felst umhverfisvæn ferðaþjónusta?                Elín Berglind Viktorsdóttir, kennari HólaskólaKl. 10.00 Ferðaþjónusta bænda - Í fararbroddi í umhverfismálum                Guðrún og Guðlaugur Bergmann, Brekkubæ SnæfellsnesiKl. 12.30 Hádegishlé - Súpa og salatKl. 13.00 Fyrsta skrefið - markmiðasetningKl. 15.00 Gunnlaugur og Hulda á Gistihúsinu á Egilsstöðum segja reynslusögu sína í                framhaldi af umhverfisfundinum í vorKl. 15.15 Kynning á lífrænum og umhverfisvænum vörutegundum. Kvöldskemmtun 11. nóvember Kl. 19:00 FordrykkurKl. 20:00 Borðhald Ræðumaður kvöldsins er Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka ÍslandsJóhannes Kristjánsson eftirherma skemmtir Hinir bráðskemmtilegu félagar úr Skagafirði, sem kalla sig "Hest í vanskilum" munu stjórna fjöldasöng og fara með kveðskap að hætti sveitamannaHljómsveitin Þúsöldin mun spila fyrir dansi Matseðill kvöldsins er svohljóðandi Ítölsk sjávarréttasúpaSteikartvennaNautalund og lambafillet með rauðvínssósuSúkkulaðiterta með ávaxta"-compot" og kaffi Þriðjudagurinn 12. nóvember Kl. 09.00 Vinnuhópur um flokkun gististaða og gæðamál kynnir tillögur sínarKl. 11.00 Fundarmönnum skipt í hópa - umræður um tillögur vinnuhópsins auk umræðu um hvernig                 FB geti sem best þjónað hagsmunum félagsmanna. Kl. 12.00 Hádegishlé - Súpa og "baguette"-brauð með grænmetiKl. 13.00 Umræðuhópar kynna niðurstöður sínarKl. 14.00 Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra ávarpar fundinnKl. 14.10 Staðardagskrá 21 og ferðaþjónusta - dæmi frá Snæfellsbæ                 Stefán Gíslason, verkefnisstjóri Staðardagskrá 21 á ÍslandiKl. 14.40 Umhverfisvæn ferðaþjónusta - bætt ímynd Ferðaþjónustu bænda                Einar Bollason, framkvæmdastjóri ÍshestaKl. 15.00 KaffihléKl. 15.15 Green Globe 21 viðurkenningar- og vottunarkerfið fyrir ferðaþjónustu                 Elín Berglind ViktorsdóttirKl. 15.35 Green Globe 21 vottunarkerfi fyrir ferðaþjónustubændur                Marteinn Njálsson, formaður Félags ferðaþjónustubændaKl. 15.45 Skrifstofa Ferðaþjónustu bænda og Green Globe 21                Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda Kl. 16.00 Ráðstefnuslit Reykjavíkurborg býður þátttakendum á uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda til móttöku í Höfða að lokinni dagskrá þriðjudaginn 11. nóvember. Tilefnið er að treysta bönd landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins, einnig að óska ferðaþjónustubændum til hamingju með stefnumótun í umhverfisvænni ferðaþjónustu.  
Lesa meira

Hótel Óðinsvé hlaut forvarnarverðlaun TM

Hótel Óðinsvé hlaut forvarnarverðlaun Tryggingamiðstöðvarinnar fyrir árið 2002 en verðlaunin voru afhent í fjórða skiptið í gær, 31. október. Þau eru veitt árlega þeim viðskiptavinum TM sem þykja skara framúr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum. Ákvörðun um að veita Hótel Óðinsvéum verðlaunin í ár byggir á því að TM telur forvarnir þar með því besta sem gerist hér á landi og að hótelið sýni öðrum fyrirtækjum gott fordæmi að þessu leyti.Í frétt frá TM kemur fram að afhending verðlaunanna beinir sjónum að mikilvægi öflugra brunavarna í fyrirtækjum sem hafa aðsetur í fjölmennum íbúahverfum. Óðinsvé er staðsett í miðbæ Reykjavíkur þar sem byggð er einna þéttust og mikil hætta getur stafað af útbreiðslu elds. Á síðustu árum hefur hótelið lagt mikla áherslu á uppbyggingu brunavarna og annarra forvarna sem hafa aukið öryggi viðskiptavina, starfsfólks og nærliggjandi húsa. Að mati TM standast brunavarnir hótelsins allar þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja um viðvörunar- og vatnsúðakerfi, brunahólfun, þjálfun starfsfólks, gott aðgengi að handslökkvibúnaði og öflugt eigið eftirlit. Meðal þeirra sem viðstaddir voru afhendingu verðlaunanna voru samgöngu- og ferðamálaráðherra, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins og forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar.  Myndatexti:  Bjarni Ingvar Árnason hjá Hótel Óðinsvéum og Gunnar Felixson forstjóri Trygginga-miðstöðvarinnar við afhendingu verðlaunanna.  
Lesa meira

Kort Landmælinga fáanleg á geisladiski

Landmælingar Íslands hafa gefið út nýjan kortadisk með yfirlitskortum af landinu, sveitarfélagakortum, gróðurmynd og helstu sölukortum LMÍ á liðnum árum, ferðakorti 1:500 000 og aðalkortum 1:250 000. Kortadiskurinn hefur fengið afar góðar viðtökur og er sem stendur uppseldur hjá Landmælingum Íslands en næsta útgáfa er væntanleg. Á diskinum er skoðunarhugbúnaðurinn, VisIT 4.22, frá dönsku kortastofnuninni sem býður upp á fjölbreytta valkosti við skoðun kortanna. Aðalkortin eru níu talsins í prentaðri útgáfu en hefur á diskinum verið skeytt saman í eitt kort. Á diskinum er nafnaskrá frá ferðakortinu með yfir 3000 staðsettum örnefnum þannig að auðvelt er að kalla fram á skjáinn viðkomandi staði á korti. Markar þáttaskilÍ frétt frá Landmælingum er haft eftir Gunnari H. Kristinssyni, sölustjóri LMÍ að diskurinn marki þáttaskil fyrir aðgang almennings að Íslandskortum á stafrænu formi. "Í fyrsta sinn býðst fólki aðgangur að kortum á stafrænu formi sem það getur unnið með í tölvunni eins og önnur gögn en fram til þessa hefur aðgangurinn verið takmarkaður við skoðun á kortunum. Auðvelt er að vinna með kortin og möguleikarnir eru mjög miklir," segir Gunnar. Meðal þeirra valkosta sem bjóðast við skoðun kortanna er mæling fjarlægða og flatarmáls, örnefnaleit og leit að hnitum í mörgum og mismunandi hnitakerfum. Hægt er að skoða kort í mismunandi mælikvörðum samtímis, afrita og skeyta inn í önnur forrit, bæta inn eigin texta og táknum og prenta út kort. Valmyndir hugbúnaðarins í þessari útgáfu eru á ensku en ítarlegar leiðbeiningar á íslensku fylgja í sérstakri handbók. Mikið notagildiMeðal mikilvægra valkosta segir Gunnar vera möguleika á skiptingu milli helstu hnitakerfa og ennfremur bjóði diskurinn upp á tengingu við GPS staðsetningartæki þannig að hægt er sjá staðsetningu notandans. "Notagildi kortadisksins er mjög mikið þar sem hér eru saman komnar á einum stað ýmsar aðgengilegar upplýsingar sem áður þurfti að fá af mörgum ólíkum pappírskortum. Við sjáum fyrir okkur að diskurinn nýtist mjög vel í kennslu því þessi framsetningarmáti höfðar til ungu kynslóðarinnar og eykur áhuga og þekkingu þeirra á landinu. Síðast en ekki síst mun diskurinn nýtast í ferðaþjónustu fyrir jafnt stóra sem smáa aðila," segir Gunnar H. Kristinsson.  
Lesa meira

Hólaskóli vottunaraðili Green Globe 21

Í tengslum við Ferðamálaráðstefnuna í Stykkishólmi var sem kunnugt er haldið málþing um umhverfismál. Þar var kastljósinu m.a. beint að alþjóðlegu umhverfissamtökunum Green Globe 21. Green Globe 21 eru alþjóðleg samtök sem vinna með neytendum, fyrirtækjum og stofnunum að því að gera ferðaþjónustu sjálfbærari með því að vinna eftir Staðardagskrá 21. Samtökin voru stofnuð árið 1994 í framhaldi af heimsráðstefnunni í Ríó de Janero 1992 og í dag eru um 1.000 fyrirtæki í 100 löndum aðilar að samtökunum. Eitt meginsvið samtakanna er sérstakt vottunarkerfi sem þau hafa þróað og byggir á samningum við umboðsmenn um allan heim. Á málþinginu í Stykkishólmi var formlega gengið frá því að Hólaskóli verður vottunaraðili Green Globe 21 á Íslandi. Skrifuðu þeir Skúli Skúlason, skólameistari Hólaskóla, og Reg Easy frá Gren Globe 21, undir samning þess efnis. Þeir voru auk þess báðir á meðal fyrirlesara á málþinginu. Tvö af þremur fengið umhverfisverðlaun FerðamálaráðsÞrjú íslensk fyrirtæki hafa nú fengið fullnaðarvottun Green Globe 21 en þau eru Gistiheimilið Brekkubær og Ferðaskrifstofan Leiðarljós, sem rekin eru af sama aðila, og fólksflutningsfyrirtæki Guðmundar Tyrfingssonar ehf. Þess má geta að tvö þessara fyrirtækja hafa hlutið umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands, Gistiheimilið Brekkubær árið 2000 og Guðmundur Tyrfingsson ehf. á þessu ári. Myndatexti:  Skúli Skúlason og Reg Easy skrifa undir samning Grenn Globe 21 og Hólaskóla. að viðstöddum Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra.  
Lesa meira

Verkefni sem byggir á þolmarkarannsóknunum verðlaunað af ESB

Gunnþóra Ólafsdóttir, nemandi í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið Archimedesarverðlaunin, ein af vísindaverðlaunum ESB og mun taka við þeim 5. desember nk. Verðlaunaverkefnið, sem var unnið undir handleiðslu Önnu Dóru Sæþórsdóttur lektors við Háskóla Íslands, byggir m.a. á gögnum sem safnað var í tengslum við rannsóknir Ferðamálaráðs, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri á þolmörkum ferðamennsku en Gunnþóra hefur unnið sem aðstoðamaður við rannsóknirnar í þrjú sumur. Verkefni Gunnþóru kallast "The Nature Tourist; Analysis of tourist needs and views towards nature in the highlands of Iceland and implications for planning of nature tourist destinations," sem Gunnþóra segir að megi þýða sem "Náttúruferðamaðurinn; Greining á þörfum og viðhorfum ferðamanna gagnvart náttúrunni á miðhálendi Íslands og vísbendingar varðandi skipulag á ferðamannastöðum." Archimedesarverðlaunin eru að sögn Gunnþóru veitt háskólanemum í grunnnámi og þurfa þeir að vera ríkisborgarar í ESB löndum eða samstarfsríkjum þeirra. Markmið verðlaunanna er að efla og vekja athygli á rannsóknum í Evrópu, hvetja til vísindalegs samstarfs milli Evrópuríkja og hvetja ungt fólk að líta til rannsókna og vísinda þegar það hugar að starfsvali. Verðlaunin hafa verið veitt síðan 1998 og eru, auk viðurkenningarinnar sem þeim fylgir, peningaverðlaun að upphæð 34.000 EUR. Eru þau skilyrt til uppbyggingar vísindaferils verðlaunahafa. Markmið verkefnis Gunnþóru var að afla þekkingar á hvaða væntingar þeir sem hún nefnir "nature tourists" hafa til upplifunar á hálendi Íslands, þátt uppbyggingar, þjónustu og ferðamáta í jákvæðri upplifun. Auk þess að vinna úr gögnum sem safnað var í Landmannalaugum og á Lónsöræfum í tengslum við þolmarkarannsóknirnar gerði Gunnþóra svokallaða eigindlega rannsókn á hvötum, markmiðum og upplifun náttúruferðamanna sem ferðast um hálendið með ólíkum hætti; gangandi og akandi. Markmiðið var að fá skilning á hvað dregur þá að hálendinu og hvað þeir fá út úr veru sinni þar en einnig hvort ferðamátinn sé veigamikill þáttur í upplifun þeirra. Ferðamenn á hálendi Íslands eru alls ekki einsleitur hópurHelstu niðurstöður verkefnisins eru þær að ferðamenn eru komnir til að upplifa óbyggðatilfinningu, ósnortið víðerni og frið og ró. Til þess að njóta ferðalagsins þurfa ferðamenn í Landmannalaugum mun meiri uppbyggingu og þjónustu á ferðalagi sínu en ferðamenn á Lónsöræfum, sem leyfa mjög takmarkaða uppbyggingu til að spilla ekki þeirri óbyggðatilfinningu sem þeir sækjast eftir að upplifa á "ósnortnu" svæði. "Ferðamenn voru almennt ánægðir með framboð grunngerðar á hvorum ferðamannastað sem gefur tilefni til að álykta að framboð innviða laði að ákveðin markhóp. Einnig kom í ljós að ferðamáti er mjög veigamikill þáttur í upplifun hálendisferðamanna og viðhorf þeirra til náttúrunnar og markmið þeirra með ferðalaginu markast mjög af ferðamátanum. Einnig sýndu þeir hvors annars ferðamáta ákveðna fyrirlitningu sem gefur tilefni til að álykta að gangandi og akandi ferðamenn eigi ekki mikla samleið. Ferðamenn á hálendi Íslands eru því alls ekki einsleitur hópur fólks. Þeir hafa mjög misjafnar óskir gagnvart þjónustu, mismunandi viðhorf gagnvart náttúru og ferðast á mjög ólíkan hátt. Samkvæmt þessum niðurstöðum má álykta að þörf sé á að hraða stefnumótun og skipulagningu á hinum ýmsu ferðamannastöðum á hálendinu til að ákveða til hverra ferðamanna á að höfða á hverjum stað," segir Gunnþóra.  
Lesa meira

Avis á Íslandi fékk ,,We Try Harder" verðlaunin

Á alþjóðlegri ráðstefnu Avis bílaleigunnar sem haldin var í Suður Afríku á dögunum hlaut Avis á Íslandi "We try harder" verðlaunin fyrir árið 2002. Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi þjónustu, mesta aukningu á milli ára og nýjungar í rekstrinum. ,,We try harder" hefur verið kenniorð Avis bílaleigunnar síðast liðin 40 ár. Hún var stofnuð í Bandaríkjunum árið 1946 og er nú með 5.000 afgreiðslustaði í 173 löndum. Framkvæmdastjóri Avis á Íslandi, Þórunn Reynisdóttir, veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlegar athöfn í Sun City hótelinu í Suður Afríku. Þá var þess minnst að Avis hefur verið á Íslandi í 15 ár. Þórunn hefur starfað við bílaleigu í um 15 ár en tók við Avis á Íslandi haustið 1998 og undir hennar stjórn hefur fyrirtækið vaxið úr 100 bílum í tæplega 600 bíla. Að sögn Þórunnar hefur bókunar- og söludeild sem aðstoðar Íslendinga á leið til útlanda vaxið mjög hratt á síðasta ári og hefur aukningin verið yfir 100% á milli ára. Hún segist einnig vera bjartsýn á árið framundan. "Bílaleiga hefur verið vaxandi grein innan ferðaþjónustunnar á undanförnum árum og við höfum vísbendingar um að aukning fyrir sumarið 2003 verði um 15%," segir Þórunn.  
Lesa meira

Á sjöunda hundrað milljónir króna á fjárlögum til ferðamála

Aldrei fyrr hefur verið ráðstafað viðlíka fjármunum til ferðamála og fjárlögin fyrir næsta ár gera ráð fyrir. Þetta kom fram í ræðu Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra, á ferðamálaráðstefnunni í Stykkishólmi í síðustu viku. Í máli Sturlu kom fram að framlög til þessa málaflokks á fjárlögum hafa vaxið umtalsvert á undanförnum árum og orðrétt sagði samgönguráðherra: "Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir á sjöunda hundrað milljóna króna framlagi. Þá er ég ekki að tiltaka umtalsverða liði, líkt og tæpar 350 milljónir króna í styrki til ferja og sérleyfishafa eða styrki til innanlandsflugs að upphæð rúmar 130 milljónir króna. Hér er óumdeilanlega um að ræða styrki, sem styðja verulega við vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar um land allt. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 300 milljónum til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu. Í ljósi góðrar reynslu af markaðssókn þessa árs, hef ég ákveðið að líkt verði staðið að í framhaldinu," sagði Sturla. Myndatexti:  Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, í ræðustóli á ferðamálaráðstefnunni í Stykkishólmi.  
Lesa meira

Ályktað um tjaldsvæði og hvalveiðar

Tvær álykanir voru samþykktar á ferðamálaráðstefnunni í Stykkishólmi. Önnur fjallar um tjaldsvæði en hin hvalveiðar. Ályktun um tjaldsvæðamál kom frá Félagi ferðamálafulltrúa á Íslandi og var beint til Ferðamálaráðs Íslands. Flutningsmaður var Ásthildur Sturludóttir og í tillöguni segir: "Á undanförnum árum hefur gistinóttum á tjaldsvæðum hér á landi farið fjölgandi. Sem dæmi um það má nefna að á tímabilinu 1999-2001 fjölgaði gistinóttum um 10% Þá hefur ferðamáti þeirra sem gista á tjaldsvæðum einnig breyst mikið. Er breytingin einkum fólgin í því að mun fleiri velja að ferðast með tjaldvagna og hjólhýsi en vitað er um u.þ.b. 9.000 skráningar á tjaldvögnum og hjólhýsum hér á landi. Útlit er fyrir að þessi þróun muni halda áfram á næstu árum með aukinni tjaldvagna- og hjólhýsaeign landsmanna og einnig þeirri staðreynd að næsta sumar mun Norræna geta flutt helmingi fleiri bíla til landsins með nýju skipi. Þar sem breyttar ferðavenjur hafa átt sér stað á mjög skömmum tíma hefur rekstraraðilum tjaldsvæða í fæstum tilfellum tekist að aðlaga tjaldsvæði sín að breyttum aðstæðum. Því má búast við að á næstu árum muni fjöldi rekstraraðila þurfa að fara í breytingar á þeirri aðstöðu sem boðið er upp á. Breyttir ferðahættir tjaldsvæðagesta gera einnig aðrar og nýjar kröfur til skipulags tjaldsvæðanna og þeirrar þjónustu sem þar er veitt. Í því sambandi vill Félag ferðamálafulltrúa benda á að: Gera þarf ráð fyrir auknu svæði fyrir hjólhýsi/tjaldvagna og húsbíla Tryggja þarf að þessir aðilar hafi aðgang að rafmagni Aðstaða þarf að vera til að losa ferðasalerni Aukin aðstaða fyrir börn Tryggja þarf með réttu skipulagi árekstrarlaus samskipti þeirra sem ferðast með tjaldvagna og hjólhýsi og þeirra sem gista í tjöldum Huga þarf að öryggismálum Vinna þarf að umhverfismálum og að þau fái meira vægi á tjaldsvæðum en áður hefur verið Félag ferðamálafulltrúa skorar á stjórnvöld og Ferðamálaráð að taka þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar. Gera á lágmarkskröfur til þeirra staða er merkja sig sem tjaldsvæði og kanna hvort ástæða sé til að flokka tjaldsvæði eftir gæðaflokkun og þjónustu. Einnig þarf að safna á aðgengilegan hátt upplýsingum varðandi aðstöðu og skipulag slíkra svæða. Félag ferðamálafulltrúa er reiðubúið að vinna með stjórnvöldum að þessum málum." Ályktun vegna áforma um hvalveiðarÁsbjörn Björgvinsson var flutningsmaður ályktunar um hvalveiðar sem hljóðar svo: "Ferðamálaráðstefnan 2002 haldin á Stykkishólmi 17. október skorar á stjórnvöld að láta fara fram mat á efnahagslegu gildi hvalaskoðunarferðamennsku fyrir þjóðarbúið. Ennfremur að áhrif hvalveiða á greinina verði metin áður en ákvörðun verður tekin um að hefja veiðar hér við land að nýju. Ráðstefnan hvetur stjórnvöld til að hafa náið samráð við samtök í ferðaþjónustu og hvalaskoðunarfyrirtækin áður en endanleg ákvörðun um hvalveiðar verður tekin."  
Lesa meira