Fara í efni

Árleg ferðamannakönnun á Borgarfirði eystri

Verkefni um viðburðaskipti styrkt af Norðurslóðaáætluninni
Verkefni um viðburðaskipti styrkt af Norðurslóðaáætluninni

Nú í sumar gekkst Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri fyrir ferðamannakönnun fimmtánda árið í röð. Var þetta jafnframt í sextánda sinn sem ferðamenn eru taldir í Álfasteini.
Ferðamannakönnunin var unnin á sama hátt og áður, ekki vísindalega en þó má draga af henni ýmsan lærdóm, að sögn Helga M. Arngrímssonar, formanns Ferðamálahóps Borgarfjarðar. Eyðublöðin lágu eins og áður frammi í Fjarðarborg og Álfasteini og nú einnig á Borg. Í sumar fengust 220 svör sem eru sæmilegar heimtur en könnunin nær eingöngu til Íslendinga. Svarhlutfall miðað við íslenska ferðamenn er tæp 4%, eða örlítið lægra en 2001 en þá var það 4,3%.

Færri útlendingar
Að sögn Helga fækkaði útlendingum í Álfastein í sumar miðað við árið 2001 úr 2.296 í 1.845. Fjöldi Íslendinga var hinsvegar nánast sá sami, eða 5.558 á móti 5.505 í fyrra. Helgi segir ekki gott að átta sig á þessari þróun en langur vegur sé frá því að Borgarfjörður haldi í við þróun ferðamála á landsvísu. "Ef við hefðum fylgt þróuninni á landsvísu sl. 12 ár, eða frá 1991, hefði mátt reikna með um 7.000 útlendingum hér sl. sumar," segir Helgi.

Brýnt að endurvekja upplýsingamiðstöðina
Ekki er gerð sérstök könnun á fjölda göngufólks á svæðinu en tilfinning manna er að sögn Helga sú að því hafi fækkað nokkuð frá sl. ári. Er það andstætt því sem reiknað hafði verið með miðað við góða aðstöðu og þau góðu orð sem svæðið hefur fengið hjá flestum sem til þekkja. "Hvað þessu veldur er heldur ekki einfalt að skýra en eflaust eru það nokkrir þættir svo sem gott veðurlag á suðvesturhorninu fyrri hluta sumars, HM í knattspyrnu og lítið fjármagn til auglýsinga og kynninga. Einnig er nokkuð flókið bókunarkerfi hjá okkur og vitað er að það fælir eitthvað frá. Kannski erum við með of miklar væntingar miðað við það sem við erum að leggja fram. Upplýsingamiðstöð hefur líka talsvert að segja í þessu en hún hefur ekki starfað frá því í mars. Kjarvalsstofa og aðrir hafa þó reynt að sinna því hlutverki en miðað við fyrri reynslu mína af rekstri upplýsingamiðstöðvar þá kostar það talsverða vinnu og til að koma henni á stofn aftur hér verðum við að vera samhent og tryggja henni fé til rekstrar. Ég álít það eitt brýnasta verkefnið auk þess að koma bókunarkerfinu í betra lag fyrir næsta sumar," segir Helgi.

Gagnmerk heimasíða
Ferðamálahópurinn er með góða heimasíðu með ýmsum gagnlegum upplýsingum fyrir göngufólk og aðra ferðamenn. Stöðugt er verið að breyta og bæta við upplýsingum. Á síðunni er mikill fjöldi ljósmynda, göngukortið sem gefið var út 1999, ýmsar tillögur að gönguferðum auk upplýsinga um skipulagðar gönguferðir á Víknaslóðum. Göngukortið er uppselt sem stendur en unnið er að endurbótum á því og stefnt að nýrri, endurbættri útgáfu á vordögum 2003.

Helgi vildi að lokum koma á framfæri bestu þökkum til þeirra sem svöruðu könnuninni í sumar, svo og til allra þeirra sem heimsóttu Borgarfjörð. Könnunin í heild sinni er aðgengileg á heimasíðu Ferðamálahópsins.