Fara í efni

Markaðsaðgerðir skiluðu tilætluðum árangri

Greifinn eignarhaldsfélag kaupir Hótel KEA og Hótel Hörpu
Greifinn eignarhaldsfélag kaupir Hótel KEA og Hótel Hörpu

Aðgerðir sem gripið var til í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum fyrir réttu ári síðan virðast hafa skilað tilætluðum árangri. Þær náðu að verja stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og gott betur. Þetta kom fram í máli Magnúsar Oddssonar, ferðamálastjóra, á sameiginlegum fréttamannafundi sem ferðamálstjórar vestnorrænu landanna héldu á Akureyri í dag.

"Fyrir réttu ári síðan voru verulegar áhyggjur innan ferðaþjónustunnar um að atburðirnir 11. september myndu hafa mikil og varanleg neikvæð áhrif á umfang greinarinnar. Íslensk stjórnvöld ákváðu að bregðast við í þeim tilgangi að verja þann árangur sem náðst hafði í greininni og þrefölduðu þá opinberu fjármuni sem áætlaðir voru til markaðssetningar og kynningar. Þá brugðust fyrirtæki í greininni einnig skjótt við, m.a. drógu Flugleiðir úr sætaframboði sínu, sérstaklega á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Nú ári seinna er ljóst að allar þessar aðgerðir hafa skilað tilætluðum árangri. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustu hafa aukist á tímabilinu miðað við næstu 12 mánuði þar á undan og ýmsar fleiri vísbendingar mætti benda á sem sýna ótvíræðan árangur þeirra aðgerða sem ráðist var í. M.a. má nefna árangur Flugleiða sem hafa náð að snúa tapi í hagnað fyrstu 6 mánuði ársins," sagði Magnús meðal annars.

Árleg fjölgun um 9% að meðaltali
Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið hratt á síðustu árum og er sá geiri atvinnulífsins sem hefur verið í hvað örustum vexti. Á síðasta ári skapaði ferðaþjónustan til að mynda um 13% gjaldeyristekna þjóðarinnar og af einstökum greinum eru það aðeins sjávarútvegur sem eru Íslendingum mikilvægari í þessu tilliti. Magnús sagði sama á hvaða sviði ferðaþjónustunnar er borðið niður, allar tölur sýna stöðuga aukningu. Árleg fjölgun í komum erlendra ferðamanna hingað til lands hefur til að mynda verið um 9% síðasta áratuginn og á árinu 2000 sóttu 302 þúsund erlendir ferðamenn landið heim. Á árinu 2000 var heildarfjöldi gistinátta á landinu öllu rúmlega 1.7 milljónir og á síðasta ári fjölgaði þeim síðan um 0,3% samkvæmt gistiskýrslum Hagstofunnar. Framboð gistingar hefur vaxið mikið síðustu ár. Yfir háannatímann nemur framboð gistirýmis á hótelum og gistiheimilum ríflega 12.600 rúmum á landinu öllu. Tæp 32% þess eru á höfuðborgarsvæðinu.

Magnús sagði allt benda til þess að ferðaþjónustan muni halda áfram að vaxa á komandi árum. Ákvörðun hefur m.a. verið tekin um byggingu ráðstefnuhúss í Reykjavík sem mun skapa aukin sóknarfæri.

Myndatexti:  Ferðamálstjórar vestnorrænu landanna voru bjartsýnir á framtíð ferðaþjónusgtunnar á fréttaamnnafundi sem þeir gengust fyrir á Akureyri æi dag. Frá vinstri: Stig Rømer, Grænlandi, Magnús Oddsson, Íslandi og Heri H. Niclasen, Færeyjum.