Fara í efni

Fjöldi Íslandskorta aðgengilegur á vef Landmælinga Íslands

Samningur um eflingu rannsókna á sviði ferðamennsku
Samningur um eflingu rannsókna á sviði ferðamennsku

Fyrr á árinu opnuðu Landmælingar Íslands fyrir nýjan þjónustuþátt á vefsíðu sinni, svokallaðan Kortaskjá, þar sem hægt er að nálgast kort og stafræn kortagögn. Á kortaskjánum eru Atlaskort, ferðakort og tvennskonar vektorkort af Íslandi. Hér er um athyglisverða nýjung að ræða fyrir ferðamenn og alla áhugamenn um landið og í raun má segja að netaðgangur að kortum með þessum hætti sé bylting. Kjörið er fyrir ferðaþjónustuaðila að vísa viðskiptavinum sínum erlendis inn á Kortaskjáin sem er öllum opinn á endurgjalds.

Kortaskjárinn býður upp á fjölbreytta möguleika til að skoða kortin og kalla fram ýmsar upplýsingar, s.s. hæðarlínur, vatnafar, samgöngur og fleira. Hægt er að stækka og minnka myndir á skjánum og mæla vegalengdir. Tenging kortaskjásins við aðrar vefsíður er heimil án endurgjalds en birting efnis af honum, m.a. á öðrum vefsíðum, er háð skriflegu leyfi Landmælinga. Á vef stofnunarinnar kemur fram að kortaskjárinn sé einn af þeim gluggum sem verið er að ljúka upp til að auðvelda ferðamönnum og öðrum aðgang að kortum og nýjum stafrænum kortagögnum. Með hraðari nettengingum verður stöðugt auðveldara að koma umfangsmeiri og flóknari upplýsingum á framfæri með auðveldum hætti og kortaskjárinn er ein leiðin til þess.

Atlaskortin sígild
Viðamesta efnið á kortaskjánum eru Atlaskortin sem eru 87 að tölu en þau hafa lengi verið á markaði og eru í mælikvarðanum 1:100 000. Á vef LMÍ er haft eftir Þorvaldi Bragasyni, forstöðumanni upplýsingasviðs LMÍ, að Atlaskortin hafi jafnan verið talin með fallegustu kortum en þau voru upphaflega unnin af dönskum kortagerðarmönnum. Í hugum margra eru Atlaskortin órjúfanlega tengd ímynd landsins eftir áratuga notkun þeirra við ferðalög á Íslandi. Á vefnum eru þau sýnd í mikilli upplausn þannig að skoða má vel öll tákn og örnefni

Vektorkort af Íslandi
Á kortaskjánum er einnig heildarkort af landinu í fjórum lögum. Gögnin eru frá vektorgagnasafninu IS 500V sem LMÍ hafa selt um árabil og endurskoðað reglulega. Ekki er þó hægt að taka sjálf gögnin af netinu heldur fyrst og fremst að skoða þau. Hnappurinn "valkostir" býður upp á val um hæðarlínur, vegi, vatnafar og stjórnsýslumörk og jafnframt er hægt að leita að sveitarfélögum og sjá flatarmál þeirra.

Nákvæmni kortanna þyngir skoðun á Netinu
Sem fyrr segir er kjörið fyrir ferðaþjónustuaðila að vísa viðskiptavinum sínum erlendis á kortin en vert er að vekja athygli á því að tekin var ákvörðun um að sýna kortin í góðri upplausn þannig að lesa mætti greinilega öll örnefni og tákn. Því er um mjög þungar skrár að ræða og tekur lengri tíma að fá kortin upp á skjáinn en notendur eiga yfirleitt að venjast á Netinu. Ef valin hefði verið sú leið að hafa litla upplausn í kortum hefði hraðinn orðið meiri en notagildið mun takmarkaðra. Nánari upplýsingar má sjá á vef Landmælinga Íslands.

Myndatexti:  Hér má sjá hluta af Atlaskorti 83 sem er af Mývatnssveit og nágrenni.