Fara í efni

Rekstur flugfélaga á uppleið

Gistinóttum á hótelum í október fjölgaði um 27% á milli ára
Gistinóttum á hótelum í október fjölgaði um 27% á milli ára

Rekstur flugfélaga í heiminum hefur verið að taka betur við sér undanfarna mánuði en fyrri spár gerðu ráð fyrir, eftir því sem fram kemur hjá alþjóðlegum samtökum flugfélaga, IATA. Afkomutölur frá fyrri hluta ársins sýna þetta glögglega.

4% meðaltalsvöxtur næstu 4 ár
Þrátt fyrir jákvæðari fréttir er engu að síður gert ráð fyrir halla á rekstri flugfélaga þegar á heildina er litið og hefur IATA spáð því að samanlagt tap allra flugfélaga heimsins muni nema um 6 milljörðum Bandaríkjadala á yfirstandandi rekstrarári. Fyrri spár samtakanna gerðu ráð fyrir að tapið gæti numið hátt í 8 milljörðum USD, eða 705 milljörðum ISK. Á síðasta ári töpuðu flugfélög heimsins 12 milljörðum USD og rúmlega 200 þús. manns var sagt upp úr greininni. Ástæða þessa er rakin til um þriðjungs samdráttar í eftirspurn eftir flugfargjöldum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september á síðastliðnu ári. IATA gerir hins vegar ráð fyrir að flugið muni nú taka við sér á ný og að sala flugfargjalda muni aukast um 3% í ár, 6% á næsta ári og meðaltalsvöxtur verði 4% fram til ársins 2006.

Íslenski markaðurinn
Betri afkomu flugfélaga virðist mega heimafæra í íslenska markaðinn, ef marka má það sem fram kom í fréttum á dögunum um mikinn viðsnúning í rekstri Flugleiða fyrstu 6 mánuði yfirstandandi árs. Batnaði afkoma af reglulegri starfsemi án söluhagnaðar um 2,7 milljarða króna miðað við sama tíma í fyrra og 50 milljóna króna hagnaður varð af rekstrinum eftir skatta. Er batinn bæði rakinn til breytinga á rekstrinum og batnandi ytri skilyrða. Þá sýndi rekstur Flugfélags Íslands, sem er dótturfélag Flugleiða, í fyrsta sinn hagnað af starfsemi sinni á fyrri helmingi ársins.

Myndatexti:  Frá Leifsstöð.