Fréttir

Landbúnaðarverðlaun til Möðrudals á Fjöllum

Ábúendur í Möðrudal á Fjöllum voru meðal þeirra sem fengu landbúnaðarverðlaun við upphaf búnaðarþings, sem nú stendur yfir. Það er rekin öflug ferðaþjónusta á hæsta byggða bóli hérlendis. Ferðaþjónustan í Möðrudal ber nafnið Fjalladýrð. Boðið er upp á gistingu, veitingar, verslun, tjaldsvæði og einnig jeppaferðir um svæðið fyrir norðan Vatnajökul. Mikil uppbygging hefur verið á staðnum þar sem ný hús eru reist í stíl gömlu íslensku torfbæanna og vekja óskipta athygli. Meðfylgjandi mynd, sem fengin er á vefnum Beint frá býli, sýnir bensínafgreiðsluna í Möðrudal.
Lesa meira

Nýtt starfsfólk Ferðamálastofu

Tveir nýir starfsmenn hófu nýverið störf hjá Ferðamálastofu. Sunna Þórðardóttir hefur tekið við sem verkefnisstjóri Ráðstefnuskrifstofu Íslands í barnsburðarleyfi Önnu Valdimarsdóttur og á skrifstofu Ferðamálastofu í Þýskalandi hefur Karine Delti-Beck komið til starfa sem markaðsfulltrúi. Sunna Þórðardóttir (t.v.) og Karine Delti-Beck.Sunna Þórðardóttir er ferðamálafræðingur og hefur raunar áður starfað hjá Ferðamálastofu. Í fyrra var hún ráðin verkefnisstjóri vegna vinnu við endurskoðun Ferðamálaáætlunar sem lauk í september. Sunna mun sem fyrr segir sjá um verkefni Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Karine Delti-Beck er frönsk, menntaður ferðmálafræðingur í Frakklandi og á Spáni og hefur starfað við ferðaþjónustu bæði þar og í Þýskalandi. Hún mun einkum sá um samskipti við Frakkland, Ítalíu og Spán, auk Belgíu. Þá hefur Nina Becker einnig hafið störf á skrifstofunni í Þýskalandi að nýju eftir barnsburðarleyfi.
Lesa meira