Fara í efni

Gæðaverkefni Ferðaþjónustu bænda

Ferðaþjónusta bænda gæðaverkefni
Ferðaþjónusta bænda gæðaverkefni

Ferðaþjónusta bænda og Félag ferðaþjónustubænda hafa skrifað undir samning við fyrirtækið Better Business á Íslandi um 3ja ára verkefni á sviði gæða- og þjónustumála.  Um er að ræða svokallaðar hulduheimsóknir ?Mystery Shopper? á ferðaþjónustubæi sem geta veitt samtökunum og einstökum félögum verðmætar upplýsingar sem miða að því að styrkja stöðu og samkeppnishæfni Ferðaþjónustu bænda á sviði  gæða og þjónustu í nánustu framtíð. 

Markmið
Markmið  gæðaverkefnisins  er að gera stöðumat á aðbúnaði og þjónustu hjá félögum innan Ferðaþjónustu bænda út frá sjónarhorni  gesta næstu 3 sumur, þ.e.  á árunum  2008-2010.  Ferðaþjónustubændur sem bjóða upp á gistingu í uppbúnum rúmum og morgunverð munu fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni og á það við um félaga sem bjóða upp á heimagistingu, gistingu í gistihúsum bænda og á sveitahótelum.  Með þessari nálgun getur Ferðaþjónusta bænda metið veikleika og styrkleika innan heildarinnar og kortlagt á raunhæfan hátt stöðu Ferðaþjónustu bænda í samkeppnisumhverfinu. Á þann hátt er hægt að vinna áfram með niðurstöðurnar eftir hvert sumar og stuðla þannig að enn markvissara starfi á sviði þjónustu og gæða innan Ferðaþjónustu bænda.

Hvað er ?Mystery Shopper? ?
Ferðamaður á vegum Better Business, sem hvorki starfsmenn Ferðaþjónustu bænda né ferðaþjónustubændur vita hver er, mun á meðan og eftir að heimsókn lýkur, taka eftir og skilgreina hvernig ferðaþjónustubændur bregðast við þeim hlutum sem Ferðaþjónusta bænda í samráði við félaga sína ákveða að varpa ljósi á.  Dæmi um þætti sem verða mældir er þjónusta við gesti, aðbúnaður, morgunverður, hreinlæti og snyrtimennska.

Verkefnið er gæða- og þróunarverkefni sem  verður í gangi í 3 sumur og geta félagar verið þátttakendur hluta af tímabilinu eða allt tímabilið.  Alls munu 50 ferðaþjónustubæir fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni í sumar en af þeim 130 aðilum sem eru í Ferðaþjónustu bænda gefst um 100 aðilum að taka þátt í þessu verkefni á 3ja ára tímabilinu.

Um er að ræða eitt stærsta verkefni sem ráðist hefur verið í á vegum Ferðaþjónustu bænda á sviðum gæða- og þjónustumála, þar sem lögð verður mikil áhersla á eftirfylgni og þróun  á þjónustustefnu ferðaþjónustubænda. Markmið Ferðaþjónustu bænda er að gestirnir fái ekki bara góða þjónustu heldur framúrskarandi þjónustu, segir í frétt frá FB.

Á myndinni má sjá Martein Njálsson, formann Félags ferðaþjónustubænda, Bjarna Ásgeirsson, framkvæmdastjóra Better Business á Íslandi og Berglindi Viktorsdóttur, gæðastjóra Ferðaþjónustu bænda, skrifa undir samstarfssamninginn.