Fréttir

Iceland Express skoðar innanlandsflug

Iceland Express er með til skoðunar hefja innanlandsflug hér á landi, á næsta vori. Áformað er að fljúga sex sinnum á dag til Akureyrar og fjórum sinnum á dag til Egilsstaða. Frá þessu er greint í frétt Morgunblaðsins í dag. Fram kemur í viðtali við forsvarsmenn félagsins að þeir telji sig geta boðið lægri fargjöld á innanlandsleiðum en nú tíðkast. Félagið undirbýr einnig að bjóða upp á flug til Boston og New York á næsta ári, að því er fram kemur fréttinni.
Lesa meira

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Þann 9. nóvember næstkomandi verður í annað sinn haldin uppskeruhátið ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Þangað eru sem fyrr boðaðir allir sem starfa að ferðamálum á Norðurlandi. Að þessu sinni er Austur Húnavatnssýsla gestgjafinn. Mæting er við upplýsingamiðstöðina að Brautarhvammi á Blönduósi kl. 11:00.  Matur og skemmtun verður í boði gestgjafanna en eins og í fyrra mun hver og einn sjá um gistingu fyrir sig.  Tilboð á gistingu er í athugun og verður auglýst eins fljótt og hægt er.  Skráning fer fram á heimasíðu MFN www.nordurland.is eða í gegnum netfangið: nordurland@nordurland.is og er fólk hvatt til að skrá sig sem fyrst og helst fyrir 2. nóvember.  Hátíðin í fyrra heppnaðist mjög vel og verður þessi ekki síðri að sögn aðstandenda sem hvetja alla til að taka þátt og mæta hress á Blönduós og skemmta sér með öðrum ferðaþjónustuaðilum á norðurlandi.   
Lesa meira

Gengið frá sölu hlutafjár í Icelandair Group

FL Group hefur gengið frá sölu á öllu hlutafé sínu í Icelandair Group. Þrír hópar fjárfesta hafa keypt meirihluta hlutafjár í félaginu eða 50,5% hlut og Glitnir sölutryggir óselt hlutafé í eigu FL Group. Þar af hefur Glitnir þegar ráðstafað, til fjárfesta, starfsfólks og stjórnenda Icelandair Group, allt að 16% hlut. Allt að þriðjungi hlutafjár í Icelandair Group verður boðið til kaups í almennu hlutafjárútboði í umsjón Glitnis. Icelandair Group er eignarhaldsfélag utan um 12 sjálfstæð rekstrarfélög í flugrekstri og ferðaþjónustu. Starfsmenn félagsins eru 2.700 og velta félagsins á þessu ári er áætluð 54 milljarðar íslenskra króna. Rekstri félagsins er skipt í 3 meginsvið; Áætlunarflug millilanda, leigu- og fraktflug á erlendum mörkuðum og ferðaþjónustu á Íslandi. Meginundirstaða rekstrarins er millilandaflug Icelandair sem byggir á tengiflugi milli Evrópu og Ameríku með megináherslu á Ísland. Félagið flýgur til 22 áfangastaða beggja vegna hafsins og flutti á seinasta ári um eina og hálfa milljón farþega.Sjá nánar frétt mbl.is
Lesa meira

Iceland Naturally af stað í Evrópu

Verkefnið Iceland Naturally fyrir Evrópumarkað hófst formlega í Þýskalandi fyrr í mánuðinum. Um er að ræða samtarfsverkefni íslenska ríkisins og fyrirtækja þar sem náttúra Íslands og vörur eru kynnt á erlendum mörkuðum. Verkefninu verður stýrt frá skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt. Góð reynsla hefur verið af Iceland Naturally verkefninu í Norður-Ameríku og því var afráðið að fara af stað með sambærilegt verkefni í Evrópu. Iceland Naturally í Evrópu var formlega ýtt úr vör með við opnun jarðvísindasýningar í Senckenberg Museum í Frankfurt, sem Iceland Naturally er styrktaraðili að, en á sýningunni er Ísland kynnt í sérstakri deild. Sýningin er farandsýning og verður sett upp í 5 öðrum borgum í Þýskalandi á næstu 16 mánuðum. Skrifstofa Ferðamálastofu í Frankfurt hafði veg og vanda að frágangi Íslandshluta sýningarinnar með góðri aðstoð Jarðvísindastofnunar H.Í. og nokkurra valinkunnra íslenskra ljósmyndara. Til gamans má geta þess að hinn kunni jarðvísindamaður Alfred Wegener setti fram ?Flekakenningu? sína á fyrirlestri í Senckenberg Museum í byrjun síðustu aldar. Nú um miðjan október verður Iceland Naturally síðan hleypt af stað í London og í París í nóvember. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp við opnun sýningarinnar í Frankfurt og fjallaði m.a. um mikilvæg samskipti Þýskalands og íslands á sviði ferðamála. Viðstödd opnunina auk ráðherra voru meðal annarra sendiherra Íslands í Þýskalandi, Ólafur Davíðsson, Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Iceland Naturally verkefnisins, Davíð Jóhannsson, forstöðumaður markaðsskrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu og Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. Icelandair átti líka sinn þátt í undirbúningi að viðburðinum og viðstaddir opnunina voru, svæðistjóri icelandair í evrópu, Einar Páll Tómasson og Þórður Bjarnason markaðsstjóri. Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnunina. Forstöðumaður Senckenberg sfnsins tekur á móti Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Nokkrir í "eldri kantinum? gættu þess að allt færi vel fram. Íslensku kræsingarnar gerðu lukku að vanda. Hlýtt á setningarræður: Ólafur Davíðsson sendiherra, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Irmgard Schwetzer fyrrum skipulagsmálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Strutz forseti  Senckenberg stofnunarinnar, fulltrúi þýska menntamálaráðuneytisins, Volker Mosbrugger forstöðumaður Senckenberg stofnunarinnar og stjórnarformaður þýska rannsóknarráðsins. Sturla Böðvarsson á tali við Irmgard Schwetzer, fyrrum skipulagsmálaráðherra Þýskalands, og Volker Mosbrugger, forstöðumann Senckenberg stofnunarinnar og stjórnarformann þýska rannsóknarráðsins.  Jón Rafnsson bassaleikari  og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari fluttu ljúfa íslenska tóna.  
Lesa meira

Fjölgun áfangastaða næsta sumar

Næsta sumar verður væntanlega flogið til Íslands frá fleiri áfangastöðum í áætlanaflugi en nokkru sinni áður. Þá verða einnig nýjar tengingar í boði frá þekktum áfangastöðum. Meðal annars morgunflug frá Norðurlöndunum til Íslands og morgunflug frá Íslandi til Bandaríkjanna. Iceland Express hefur ekki kynnt sumaráætlun sína formlega en í vetur flýgur félagið til og frá Berlín, Frankfurt Hahn, Friedrichshafen, Kaupmannahöfn og London. Þá hefur verið boðað að næsta vor bætist við a.m.k. 3 nýir áfangastaðir hjá félaginu, þ.e. Osló, Bergen og París. Í fyrrasumar var einnig flogið á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar og samkvæmt upplýsingum frá félaginu gæti London-Akureyri jafnvel bæst við sem flugleið næsta sumar. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eykur félagið framboð sitt næsta vor um 17%. Gert er ráð fyrir um 160 ferðum á viku, sem er met í sögu félagsins. Nýju áfangastaðirnir sem Icelandair mun bjóða upp á frá og með næsta vori eru Bergen, Gautaborg og Halifax og verður flogið þrisvar til fjórum sinnum í viku á hvern stað. Ekki verður flogið til San Fransico næsta sumar. Helsta nýbreytni félagsins er hinsvegar sú að boðið verður upp á morgunflug til New York og Boston, sem og morgunflug frá Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Ósló til Íslands. Með þessu geta farþegar farið ?hina leiðina? miðað við það sem tíðkast hefur, þ.e. að fara frá Evrópu að morgni, áfram til Bandaríkjanna að morgni, koma frá Bandaríkjunum um miðnætti og halda áfram að næturlagi til Evrópu. Ekki er annað vitað að en að áætlanaflug British Airways frá London, sem og flug SAS á frá Osló, verði með óbreyttu sniði. Einnig hefur verið vikulegt flug til Egilsstaða frá Kaupmannahöfn á vegum Trans-Atlantic. Þá er ótalinn fjöldi ferða í leiguflugi allt næsta sumar, líkt og verið hefur. Ljóst er að aukið sætaframboð og fleiri áfangastaðir eru jákvæðar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ætti þetta að m.a. skapa grundvöll fyrir áframhaldandi aukningu í komu erlendra ferðamanna hingað til lands þótt þar ráði vissulega einnig fleiri þættir
Lesa meira

Skráning hafin á ITB í Berlín

 Skráning er nú hafin á ITB í Berlín, eða Internationale Tourismus-Börse, sem er ein stærsta ferðasýning í heimi Að þessu sinni stendur sýningin yfir dagana 7.-11. mars 2007. Skráningarfrestur er til 1. desember næstkomandi. Sýningin hefur verið haldin árlega í á þriðja áratug. Ferðamálastofa hefur tekið þátt í henni frá upphafi og kynnt þar Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Líkt og á öðrum ferðasýningum erlendis býðst íslenskum ferðaþjónustuaðilum að fá aðstöðu í bás Ferðamálastofu gegn föstu gjaldi. Ferðamálastofa sér um að útbúa básana og skapa mönnum aðstöðu til að hitta viðskiptavini sína en síðan er undir hverjum og einum komið að nýta tækifærið sem best. Sýningarstandar Ferðamálastofu á þessum sýningum standa einnig opnir erlendum fyrirtækjum er koma að sölu Íslandsferða. Sýningarbás Ferðamálastofu á ITB er hluti af sameiginlegu sýningarsvæði Norðurlandanna. Smellið hér fyrir nánari upplýsingar og skráningu á ITB Mynd: Frá ITB ferðasýningunni í Berlín.  
Lesa meira

Flugfélag Íslands hefur áætlunarflug til Vestmannaeyja á mánudag

Flugfélag Íslands hefur áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja næsta mánudag. Boðið verður upp á þrettán flug í viku, kvölds og morgna frá sunnudegi til föstudags en ein ferð verður á laugardögum. Um þrjár vikur eru síðan Landsflug hætti flugi á þessari leið. Í framhaldi af þeirri ákvörðun ákvað ríkisstjórnin, að tillögu samgönguráðherra, að hafinn yrði undirbúningur að útboði á ríkisstyrktu flugi á flugleiðinni. Til bráðabirgða yrði samið við flugrekstraraðila um tímabundið áætlunarflug með fjárhagslegum stuðningi. Í kjölfarið fól Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Vegagerðinni að leita eftir tímabundnum samningum við Flugfélag Íslands um flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja með stuðningi ríkisins. Ljóst þótti að Flugfélag Íslands væri eini flugrekandinn sem tilbúinn væri með flugvélakost sem mætti þeim óskum sem uppi voru um sætaframboð og fleira.
Lesa meira

Aðgerðir stjórnvalda gera Ísland enn samkeppnishæfara sem ferðamannaland

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkistjórnar frá 2003 segir að stefnt skuli að því að skapa ferðaþjónustunni sambærileg rekstrarskilyrði og í samkeppnislöndunum. Fjölmargar aðgerðir hafa verið framkvæmdar í þá veru á undanförnum árum, bæði almennar sem snerta allan atvinnurekstur og einnig sértækar. Ákvörðun stjórnvalda frá í gær er ein víðtækasta aðgerðin á undanförnum árum til að bæta samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands. Er þó þar af ýmsu að taka hvort sem litið er til aðgerða til að bæta rekstrarskilyrði eða aðgerða sem snerta innviðina. Gífurleg uppbygging samgöngumannvirkja, sem eru undirstaðan, gerð loftferðasamninga, uppbygging fjarskipta, uppbygging menningar og sögustaða og ákvörðun um Ráðstefnu- og tónlistarhús svo nokkur atriði séu nefnd. Virðisaukaskattur óvíða lægriÍ öllum könnunum hefur verðlag fengið lægri einkunn hjá ferðamönnum en allir aðrir þættir sem eru mældir og verð á mat og drykk sérstaklega. Frá 1. mars 2007 mun virðisaukaskattur á veitingahúsum verða sá sami og á Spáni og verða aðeins Luxemburg og Holland lægri af löndum innan EES. Þannig verður Ísland með lægsta virðisaukaskatt allra Norðurlandanna á veitingahús auk þess sem verðlag matvæla almennt lækkar. Hvað varðar virðisaukaskatt á hótelgistingu þá verða aðeins Luxemburg, Holland og Noregur af EES löndunum með lægri virðisaukaskatt eftir 1. mars 2007. Ekki síður mikilvægt fyrir innlenda markaðinn?Það er ekki aðeins að með þessari ákvörðun verði Ísland samkeppnihæfara gagnvart erlendum ferðamönnum heldur má ekki gleyma möguleikum okkar gagnvart innlenda markaðnum,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. ?Hlutfallslega er meiri aukning á þessu ári í ferðalögum okkar Íslendinga um eigið land en í erlenda markaðnum. Þessi aðgerð mun gera okkur auðveldara en áður að ferðast um eigið land og gera ferð á heimaslóð samkeppnishæfari en verið hefur,? segir Magnús. Hann bendir á að íslendingar kaupi vörur og þjónustu á ferðum innanlands fyrir um 10 miljarða á þessu ári. Því sé mikilvægt að nýta þessa auknu samkeppnishæfni til eflingar  íslenskrar ferðaþjónustu bæði á innlendum og erlendum markaði.
Lesa meira

Aukið samstarf Safnahúss og Landnámsseturs

Fjöldi gesta hefur heimsótt Landnámssetrið í Borgarnesi á fyrstu starfsmánuðum þess, en setrið var opnað í maí síðastliðnum. Starfsemin hefur skotið fleiri stoðum undir menningartengda ferðaþjónustu í Borgarfirði og á döfinni er aukið samstarf Landnámssetursins og Safnahúss Borgfirðinga. Meginsýningar Landnámssetursins eru tvær, sýning um landnám Íslands og sýning um sögu Egils Skallagrímssonar. Þá eru í setrinu veitinga og minjagripasala ásamt því sem á dagskrá hafa verið leiksýningar og fleiri uppákomur. Í bígerð er aukið samstarf við Safnahúss Borgfirðinga, m.a. í tengslum við sýningu um Pourqui Pas? Slysið sem Safnahúsið setti upp. Þetta kemur fram viðtali við framkvæmdastjóra Landnámssetursins, Kjartan Ragnarsson, í fréttamiðlinum skessuhorn.is. "Safnahúsið hefur á að skipa þekkingu, hefð og góðu starfsfólki og Landnámssetrið býr yfir tengslum við marga hagsmunaaðila, virkri markaðssetningu og þörfinni til að vera sífellt að skapa eitthvað spennandi fyrir gesti. Við viljum nýta styrk hvors annars og báðir aðilar hafa sínar hugmyndir um framboð efnis fyrir íbúa og ferðafólk og við eigum að vinna saman og það höfum við ákveðið að gera," segir Kjartan m.a.
Lesa meira

Í góðum hópi á Vestnorden

Ferðasýningar og kaupstefnur eru mikilvægur vettvangur til að styrkja tengslin við þá aðila sem selja ferðir til Íslands. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin í Reykjavík á dögunum. Þá tóku Icelandair og skrifstofa Ferðamálastofu í New York höndum saman og buðu kaupendum frá Bandaríkjunum og Kanada til veislu á veitingastaðnum Vox á Hótel Nordica Á myndinni eru, talið frá vinstri: Einar Gústvasson (fostöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í New York), Nick Hethington (VIP Tours),  Nat Turner ( Rannoch Adventures), Betina Kohler (Borton Overseas), Maury Newburger (American Express Travel), Christine Murray  (The Great Canadian Travel Company),  Lois Farley (GCTC), Ingrid Shumway (5 Stars of Scandinavia, Kristine Edwards (5 Stars of Scandinavia), Jeanne Charnon (Value Holidays), Michael Schoenberger (TFI Tours), Jamie Deering (Auto Europe), Cecile Hatherington (VIP Tours), Deirdre Gibbons (Icelandair Holidays USA), Brian Sheffield ( Icelandair USA ) og Pétur Ómar Águstsson (sölustjóri Icelandair í Bandaríkjunum).
Lesa meira