Fara í efni

Samningur um framhald Iceland Naturally

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tilkynnti á ársfundi Iceland Naturally, sem nú stendur yfir í Washington-borg í Bandaríkjunum, þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera nýjan samning um kynningu á Íslandi vestanhafs undir merkjum Iceland Naturally.

Núverandi samningur er á milli samgönguráðuneytisins og sjö íslenskra fyrirtækja, sem selja vörur og þjónustu vestanhafs. Samningurinn var til fimm ára og rennur út í lok þessa árs. Á samningstímanum hefur fimm milljónum Bandaríkjadala verið varið til umfangsmikilla kynninga á Íslandi, en þessir fjármunir koma frá þeim fyrirtækjum sem að verkefninu standa og íslenska ríkinu. Fyrirtækin eru Icelandair, Icelandic USA (Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna), SIF/Iceland Seafood Corp., Icelandic Agriculture (Bændasamtökin), Iceland Spring (Ölgerðin o.fl.), Flugstöð Leifs Eiríkssonar og 66° norður. Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York hefur stýrt verkefninu.

Kynningin hefur beinst að ákveðnum hópum sem rannsóknir hafa sýnt að hafi áhuga á að vita meira um Ísland, kaupa íslenskar vörur eða ferðast til landsins. Gert er ráð fyrir að nýr samningur um Iceland Naturally verkefnið verði til fjögurra ára og taki gildi 1. janúar á næsta ári. Að sögn Bergþórs Ólasonar, aðstoðarmanns samgönguráðherra, er búist við að svipað fjármagn verði veitt til verkefnisins árlega og hingað til hefur verið gert, eða um ein milljón Bandaríkjadala.