Fara í efni

Fjölsótt ferðakynning í Kaupmannahöfn

Í liðinni viku stóð skrifstofa Ferðamálaráðs í Kaupmannahöfn fyrir viðamikilli Íslandskynningu. Í samvinnu við ferðaþjónustuaðila voru kynntir kostir sem Ísland hefur að bjóða sem ferðamannaland og þeim blandað saman við ýmsa menningarviðburði.

Dagskráin náði yfir fjóra daga, hófst á þjóðhátíðardaginn 17. júní og náði hámarki síðastliðin sunnudag með viðamikilli dagskrá á Norðurbryggju, þar sem skrifstofa Ferðamálaráðs er til húsa. Atriðin fóru ýmist fram á hafnarbakkanum í húsnæði sendiráðsins eða sýningarsölum Norðurbryggju. "Ég er virkilega ánægð með hvernig til tókst. Þetta var sannarlega mikil vinna en við fengum hana ríkulega launaða. Bara á sunnudaginn komu yfir 1.500 manns í heimsókn þannig að það má segja að aðsóknin hafi uppfyllt væntingar okkar og vel það," segir Lisbeth Jensen, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs í Kaupmannahöfn. Meðal aðila sem tóku þátt voru Icelandair, Iceland Express, Smyril-line, Bláa lónið, Lax-á, Reykjavíkurborg, Ferðaþjónusta bænda og fleiri.

Menningardagskráin var einnig sérlega glæsileg og má t.d. nefna fyrirlestur sem Einar Már Guðmundsson flutti um samskipti Íslendinga og Dana í gegnum tíðina, söng og tónlistaratriði og kynningu á Íslendingasögunum. Íslendingafélagið stóð fyrir sölu á íslenskum veitingum og fleira mætti telja. Að sögn Lisbet ýta þessar góðu viðtökur undir hugmyndir þess efnis að Íslandskynning sem þessi verði árlegur viðburður í Danmörku héðan í frá.