Fara í efni

Hólaskóli vottunaraðili Green Globe 21

GreenGlobe21Holaskola
GreenGlobe21Holaskola

Í tengslum við Ferðamálaráðstefnuna í Stykkishólmi var sem kunnugt er haldið málþing um umhverfismál. Þar var kastljósinu m.a. beint að alþjóðlegu umhverfissamtökunum Green Globe 21.

Green Globe 21 eru alþjóðleg samtök sem vinna með neytendum, fyrirtækjum og stofnunum að því að gera ferðaþjónustu sjálfbærari með því að vinna eftir Staðardagskrá 21. Samtökin voru stofnuð árið 1994 í framhaldi af heimsráðstefnunni í Ríó de Janero 1992 og í dag eru um 1.000 fyrirtæki í 100 löndum aðilar að samtökunum. Eitt meginsvið samtakanna er sérstakt vottunarkerfi sem þau hafa þróað og byggir á samningum við umboðsmenn um allan heim. Á málþinginu í Stykkishólmi var formlega gengið frá því að Hólaskóli verður vottunaraðili Green Globe 21 á Íslandi. Skrifuðu þeir Skúli Skúlason, skólameistari Hólaskóla, og Reg Easy frá Gren Globe 21, undir samning þess efnis. Þeir voru auk þess báðir á meðal fyrirlesara á málþinginu.

Tvö af þremur fengið umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs
Þrjú íslensk fyrirtæki hafa nú fengið fullnaðarvottun Green Globe 21 en þau eru Gistiheimilið Brekkubær og Ferðaskrifstofan Leiðarljós, sem rekin eru af sama aðila, og fólksflutningsfyrirtæki Guðmundar Tyrfingssonar ehf. Þess má geta að tvö þessara fyrirtækja hafa hlutið umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands, Gistiheimilið Brekkubær árið 2000 og Guðmundur Tyrfingsson ehf. á þessu ári.

Myndatexti:  Skúli Skúlason og Reg Easy skrifa undir samning Grenn Globe 21 og Hólaskóla. að viðstöddum Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra.