Fara í efni

Skýrsla um þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu kynnt á ferðamálaráðstefnunni

MaduraSteini
MaduraSteini

Nú er rétt vika í árlega ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands, þá 32. í röðinni. Hún verður, eins og áður hefur komið fram, haldin á Hótel Stykkishólmi dagana 17. og 18. október nk. og er opin öllu áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu.

Að venju er á ráðstefnunni tekið fyrir eitt meginviðfangsefni og að þessu sinni er það þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu á Íslandi. Til grundvallar verður lögð nýútkomin skýrsla sem unnin hefur verið um þetta efni og ber hún yfirskriftina "Auðlindin Ísland - ferðaþjónustusvæði". Upphaf þessa máls má rekja til þess að á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í apríl í fyrra setti ráðherra ferðamála, Sturla Böðvarsson, fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að kortleggja auðlindina Ísland, meta svæðisbundið helstu vaxtarmöguleika í ferðaþjónustu og móta framtíðarsýn, sem hafa mætti hliðsjón af við uppbyggingu starfsgreinarinnar á komandi árum. Skrifstofu Ferðamálaráðs var síðan falin umsjá málsins.

Skýrslunni ætlað að skapa umræður
Höfundar skýrslunnar eru þeir Valtýr Sigurbjarnarson, landfræðingur og Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri. Í skýrslunni eru markaðssvæði skilgreind með tilliti til ferðaþjónustu. Síðan er sérstaða hvers svæðis dregin fram og helstu möguleikar þeirra tíundaðir. Í þriðja lagi eru þeir þættir skilgreindir, sem líklegastir eru til að laða ferðamenn hingað til lands á komandi árum og loks eru gerðar tillögur um skilgreind verkefni til uppbyggingar í ferðaþjónustu.

Að sögn Magnúsar Oddssonar, ferðamálastjóra, eru þær hugmyndir og tillögur, sem settar eru fram í skýrslunni, fyrst og fremst hugsaðar til þess að skapa umræður og leiða af sér frekari úrvinnslu. "Við höfum lagt áherslu á að vinna náið með ferðaþjónustuaðilum á hverjum stað og munum auðvitað haga framhaldinu í samræmi við þau viðbrögð sem við fáum við efni þessarar viðamiklu skýrslu.

Staða og framtíð upplýsingamiðstöðva
Ofangreind skýrsla er ekki eina umfjöllunarefni ferðamálaráðstefnunnar því einnig verður farið yfir stöðu og framtíð upplýsingamiðstöðva á Íslandi og hefur Pétur Rafnsson, verkefnisstjóri hjá Ferðamálaráði, framsögu í málinu. Undanfarin ár hefur á vegum Ferðamálaráðs verið unnið markvisst að uppbyggingu og samræmingu á starfsemi upplýsingamiðstöðva fyrir ferðamenn, með góðum árangri, og hefur Pétur haldið utan um þá vinnu.

Bjartara framundan í ferðaþjónustunni
Magnús segir að mikill uggur hafi verið í fólki innan ferðaþjónustunnar á sama tíma í fyrra, enda hryðjuverkin í Bandaríkjunum þá nýafstaðin. "Við óttuðumst það mjög að hryðjuverkin myndu koma hart niður á ferðaþjónustunni um allan heim. Það hefur hins vegar sýnt sig að með réttum og skjótum viðbrögðum hefur okkur Íslendingum tekist að verja stöðu okkar í ferðaþjónustunni og virðast menn sammála um að forsendur séu til frekari sóknar okkar á þessu sviði."

Umhverfisverðlaunin 2002 afhent
Samkvæmt venju verða umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs afhent í tengslum við ráðstefnuna. Þau hafa verið afhent árlega frá árinu 1995 og komu síðast í hlut Íshesta.
"Umhverfisþátturinn spilar æ stærri þátt í starfi Ferðamálaráðs og umhverfisverðlaunin er hugsuð sem hvatning til þeirra sem stunda umhverfisvæna ferðamennsku," segir Magnús. Markmiðin með umhverfisvænni ferðamennsku eru að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi og hún felur í sér samspil ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins.

Dagskrá ráðstefnunnar