Verkefni sem byggir á þolmarkarannsóknunum verðlaunað af ESB

Verkefni sem byggir á þolmarkarannsóknunum verðlaunað af ESB
MaduraSteini

Gunnþóra Ólafsdóttir, nemandi í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið Archimedesarverðlaunin, ein af vísindaverðlaunum ESB og mun taka við þeim 5. desember nk. Verðlaunaverkefnið, sem var unnið undir handleiðslu Önnu Dóru Sæþórsdóttur lektors við Háskóla Íslands, byggir m.a. á gögnum sem safnað var í tengslum við rannsóknir Ferðamálaráðs, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri á þolmörkum ferðamennsku en Gunnþóra hefur unnið sem aðstoðamaður við rannsóknirnar í þrjú sumur.

Verkefni Gunnþóru kallast "The Nature Tourist; Analysis of tourist needs and views towards nature in the highlands of Iceland and implications for planning of nature tourist destinations," sem Gunnþóra segir að megi þýða sem "Náttúruferðamaðurinn; Greining á þörfum og viðhorfum ferðamanna gagnvart náttúrunni á miðhálendi Íslands og vísbendingar varðandi skipulag á ferðamannastöðum."

Archimedesarverðlaunin eru að sögn Gunnþóru veitt háskólanemum í grunnnámi og þurfa þeir að vera ríkisborgarar í ESB löndum eða samstarfsríkjum þeirra. Markmið verðlaunanna er að efla og vekja athygli á rannsóknum í Evrópu, hvetja til vísindalegs samstarfs milli Evrópuríkja og hvetja ungt fólk að líta til rannsókna og vísinda þegar það hugar að starfsvali. Verðlaunin hafa verið veitt síðan 1998 og eru, auk viðurkenningarinnar sem þeim fylgir, peningaverðlaun að upphæð 34.000 EUR. Eru þau skilyrt til uppbyggingar vísindaferils verðlaunahafa.

Markmið verkefnis Gunnþóru var að afla þekkingar á hvaða væntingar þeir sem hún nefnir "nature tourists" hafa til upplifunar á hálendi Íslands, þátt uppbyggingar, þjónustu og ferðamáta í jákvæðri upplifun. Auk þess að vinna úr gögnum sem safnað var í Landmannalaugum og á Lónsöræfum í tengslum við þolmarkarannsóknirnar gerði Gunnþóra svokallaða eigindlega rannsókn á hvötum, markmiðum og upplifun náttúruferðamanna sem ferðast um hálendið með ólíkum hætti; gangandi og akandi. Markmiðið var að fá skilning á hvað dregur þá að hálendinu og hvað þeir fá út úr veru sinni þar en einnig hvort ferðamátinn sé veigamikill þáttur í upplifun þeirra.

Ferðamenn á hálendi Íslands eru alls ekki einsleitur hópur
Helstu niðurstöður verkefnisins eru þær að ferðamenn eru komnir til að upplifa óbyggðatilfinningu, ósnortið víðerni og frið og ró. Til þess að njóta ferðalagsins þurfa ferðamenn í Landmannalaugum mun meiri uppbyggingu og þjónustu á ferðalagi sínu en ferðamenn á Lónsöræfum, sem leyfa mjög takmarkaða uppbyggingu til að spilla ekki þeirri óbyggðatilfinningu sem þeir sækjast eftir að upplifa á "ósnortnu" svæði. "Ferðamenn voru almennt ánægðir með framboð grunngerðar á hvorum ferðamannastað sem gefur tilefni til að álykta að framboð innviða laði að ákveðin markhóp. Einnig kom í ljós að ferðamáti er mjög veigamikill þáttur í upplifun hálendisferðamanna og viðhorf þeirra til náttúrunnar og markmið þeirra með ferðalaginu markast mjög af ferðamátanum. Einnig sýndu þeir hvors annars ferðamáta ákveðna fyrirlitningu sem gefur tilefni til að álykta að gangandi og akandi ferðamenn eigi ekki mikla samleið. Ferðamenn á hálendi Íslands eru því alls ekki einsleitur hópur fólks. Þeir hafa mjög misjafnar óskir gagnvart þjónustu, mismunandi viðhorf gagnvart náttúru og ferðast á mjög ólíkan hátt. Samkvæmt þessum niðurstöðum má álykta að þörf sé á að hraða stefnumótun og skipulagningu á hinum ýmsu ferðamannastöðum á hálendinu til að ákveða til hverra ferðamanna á að höfða á hverjum stað," segir Gunnþóra.

 


Athugasemdir