Fara í efni

Málþing Ferðamálaráðs um umhverfismál

Strond
Strond

Eins og fram kemur í dagskrá ferðamálaráðstefnunnar í Stykkishólmi þá stendur Ferðamálaráð fyrir málþingi um umhverfismál í Hótel Stykkishólmi föstudaginn 18. október kl. 10.00-12.00, þ.e. daginn eftir ráðstefnuna. Meginviðfangsefni málþingsins er sjálfbær þróun í ferðaþjónustu og mikilvægi vottunar á þessu sviði.

Umhverfisstefna einskis virði án vottunar
Markmiðið með málþinginu er fyrst og fremst að ræða um, kynna og vekja athygli á því hve mikilvæg vottun þriðja aðila er fyrir umhverfisvæna ferðaþjónustu og að sett séu heildarmarkmið á því sviði fyrir tiltekin svæði og jafnvel landið allt. Í viðfangsefni málþingsins felst meðal annars sú áhersla að umhverfisstefna sé einskis virði nema til komi öflugt og virkt eftirlit sem leiðir til vottunar á því að tiltekin ferðaþjónusta, fyrirtæki eða áfangastaðir standist strangar kröfur sem gera verður til umhverfisvænnar ferðaþjónustu.

Mjög áhugaverð erindi
Við upphaf málþingsins flytur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ávarp. Þá flytur Reg Easy, framkvæmdastjóri vottunarsviðs Green Globe 21, erindi sem hann nefnir "Umhverfisvottun áfangastaða - í hverju felst hún?". Green Globe 21 vottar umhverfisvæna ferðaþjónustu, fyrirtæki og áfangastaði og hefur Reg Easy farið mjög víða í þeim erindagjörðum og hefur af mikilli reynslu á þessu sviði að miðla. Stefán Gíslason, verkefnisstjóri staðardagskrár 21 á Íslandi, flytur erindi um sjálfbæra þróun í ferðaþjónustu en hann hefur mikla reynslu og þekkingu á því starfi sem tengist Staðardagskrá 21, umhverfisstefnu og framkvæmdaáætlunum sveitarfélaga um sjálfbæra þróun á 21. öldinni. Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla, segir frá vottunarferli Green Globe 21 á Íslandi en Hólaskóli er um það bil að taka við umboði frá Green Globe 21 til úttektar á umhverfisvænni ferðaþjónustu á Íslandi. Snæfellsbær hefur verið í forystu þeirra sveitarfélaga sem tekið hafa upp umhverfisstefnu undir merkjum Staðardagskrár 21 og flytur Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, erindi undir heitinu "Meðvituð samvinna skilar árangri". Við lok málþingsins flytur Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, samantekt um efni málþingsins.

Dagskrá ráðstefnunnar og málþingsins