Fara í efni

Guðmundur Tyrfingsson ehf. hlaut umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs 2002

Fjölgun gistinátta í nóvember
Fjölgun gistinátta í nóvember

Að þessu sinni bárust 15 tilnefningar til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs en þau voru samkvæmt venju afhent í tengslum við ferðamálaráðstefnuna sl. fimmtudag. Ferðamálaráð komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. skyldi hljóta verðlaunin í ár. Verðlaunagripurinn er höggmynd sem ber heitið Harpa og er unnin af Hallsteini Sigurðssyni myndhöggvara. Það var Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sem afhenti verðlaunin.
Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a. að vegna stærðar landsins og þess að áhugaverðir staðir eru vítt og breitt um það, eru umfangsmiklir flutningar á farþegum einn af þeim þáttum sem einkenna íslenska ferðaþjónustu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þau tæki sem annast farþegaflutninga eru fyrst og fremst knúin kolefnisorkugjöfum og eru ábyrg fyrir töluverðri myndun gróðurhúsalofttegunda í landinu. Afstaða og aðgerðir flutningafyrirtækja í umhverfismálum og viðleitni þeirra til að halda óæskilegum áhrifum á umhverfið í lágmarki eru því afar mikilvægar. Til að ná merkjanlegum árangri á þessu sviði þurfa fyrirtæki að leggja á sig umtalsverða vinnu sem líklegast skilar ekki skjótfenginni arðsemi en til lengri tíma litið skilar það fyrirtækinu og umhverfinu sínu.

Unnið eftir samþykktri umhverfisstefnu
Þann 20. september 1999 samþykkti Guðmundur Tyrfingsson ehf. metnaðarfulla umhverfisstefnu fyrir fyrirtækið. Stefnan var síðan endurskoðuð og uppfærð 15. mars 2001 og aftur 8. júlí 2002. Í stefnunni koma fram markmið sem fyrirtækið vinnur að í umhverfismálum. Þar er m.a. kveðið á um kröfur um bifreiðar sem ætlað er að draga úr mengun, um flokkun og endurnýtingu úrgangs, þar á meðal vélaolíu, um það markmið að með sérstakri þjálfun temji bifreiðastjórar sér "grænt aksturslag", um snyrtimennsku og ástand bifreiða og loks um notkun á umhverfisvænum vörum.

Í lokaorðum umhverfisstefnu Guðmundar Tyrfingssonar ehf. segir:
"Umhverfismál eru mál okkar allra, aldrei er nóg að gert og alltof margt í okkar samfélagi skaðar náttúrunnar og þar með okkar. Þetta eru dæmi um okkar áherslur og markmið í þessum málaflokki. Þessi mál eru í stanslausri skoðun hjá okkur enda er það skylda okkar að vera meðvituð og opin fyrir öllum leiðum til að draga úr mengun. Við fylgjumst því grannt með þróun umhverfismála og eru vakandi yfir þessum málaflokki, framtíðin er jú í húfi."

Hvatning til annarra
Tilgangur verðlauna sem þessara er að hvetja ferðaþjónustuaðila til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að huga að þeirri auðlind sem þeir nýta og hvetja þá til ábyrgðar á eigin athöfnum. Þótt fólksflutningar teljast seint til umhverfisvænna athafna þá sýnir þetta dæmi að alltaf er hægt að gera betur í umhverfismálum, hver svo sem starfsemin er. Þess má geta að þann 26. júlí 2002 fékk fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. staðfesta vottun og viðurkenningu Green Globe 21 samtakanna á umhverfisstefnunni en Green Globe eru alþjóðleg samtök á sviði umhverfismála í ferðþjónustu.

Myndatexti:  Fulltrúar Guðmundar Tyrfingssonar ehf. ásamt formanni ferðamálaráðs og samgönguráðherra. Talið frá vinstri: Einar K. Guðfinnsson, formaður ferðamálaráðs, Guðmundur Tyrfingsson, Sigríður Benediktsdóttir, Benedikt Guðmundsson og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.