Ályktað um tjaldsvæði og hvalveiðar

Ályktað um tjaldsvæði og hvalveiðar
Kynningarfundir á 8 stöðum á landinu

Tvær álykanir voru samþykktar á ferðamálaráðstefnunni í Stykkishólmi. Önnur fjallar um tjaldsvæði en hin hvalveiðar.

Ályktun um tjaldsvæðamál kom frá Félagi ferðamálafulltrúa á Íslandi og var beint til Ferðamálaráðs Íslands. Flutningsmaður var Ásthildur Sturludóttir og í tillöguni segir: "Á undanförnum árum hefur gistinóttum á tjaldsvæðum hér á landi farið fjölgandi. Sem dæmi um það má nefna að á tímabilinu 1999-2001 fjölgaði gistinóttum um 10% Þá hefur ferðamáti þeirra sem gista á tjaldsvæðum einnig breyst mikið. Er breytingin einkum fólgin í því að mun fleiri velja að ferðast með tjaldvagna og hjólhýsi en vitað er um u.þ.b. 9.000 skráningar á tjaldvögnum og hjólhýsum hér á landi. Útlit er fyrir að þessi þróun muni halda áfram á næstu árum með aukinni tjaldvagna- og hjólhýsaeign landsmanna og einnig þeirri staðreynd að næsta sumar mun Norræna geta flutt helmingi fleiri bíla til landsins með nýju skipi.

Þar sem breyttar ferðavenjur hafa átt sér stað á mjög skömmum tíma hefur rekstraraðilum tjaldsvæða í fæstum tilfellum tekist að aðlaga tjaldsvæði sín að breyttum aðstæðum. Því má búast við að á næstu árum muni fjöldi rekstraraðila þurfa að fara í breytingar á þeirri aðstöðu sem boðið er upp á.

Breyttir ferðahættir tjaldsvæðagesta gera einnig aðrar og nýjar kröfur til skipulags tjaldsvæðanna og þeirrar þjónustu sem þar er veitt. Í því sambandi vill Félag ferðamálafulltrúa benda á að:

  • Gera þarf ráð fyrir auknu svæði fyrir hjólhýsi/tjaldvagna og húsbíla
  • Tryggja þarf að þessir aðilar hafi aðgang að rafmagni
  • Aðstaða þarf að vera til að losa ferðasalerni
  • Aukin aðstaða fyrir börn
  • Tryggja þarf með réttu skipulagi árekstrarlaus samskipti þeirra sem ferðast með tjaldvagna og hjólhýsi og þeirra sem gista í tjöldum
  • Huga þarf að öryggismálum
  • Vinna þarf að umhverfismálum og að þau fái meira vægi á tjaldsvæðum en áður hefur verið

Félag ferðamálafulltrúa skorar á stjórnvöld og Ferðamálaráð að taka þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar. Gera á lágmarkskröfur til þeirra staða er merkja sig sem tjaldsvæði og kanna hvort ástæða sé til að flokka tjaldsvæði eftir gæðaflokkun og þjónustu. Einnig þarf að safna á aðgengilegan hátt upplýsingum varðandi aðstöðu og skipulag slíkra svæða. Félag ferðamálafulltrúa er reiðubúið að vinna með stjórnvöldum að þessum málum."

Ályktun vegna áforma um hvalveiðar
Ásbjörn Björgvinsson var flutningsmaður ályktunar um hvalveiðar sem hljóðar svo: "Ferðamálaráðstefnan 2002 haldin á Stykkishólmi 17. október skorar á stjórnvöld að láta fara fram mat á efnahagslegu gildi hvalaskoðunarferðamennsku fyrir þjóðarbúið. Ennfremur að áhrif hvalveiða á greinina verði metin áður en ákvörðun verður tekin um að hefja veiðar hér við land að nýju. Ráðstefnan hvetur stjórnvöld til að hafa náið samráð við samtök í ferðaþjónustu og hvalaskoðunarfyrirtækin áður en endanleg ákvörðun um hvalveiðar verður tekin."

 


Athugasemdir