Fréttir

Skráning og upplýsingar vegna ITB og ferðasýninga í Evrópu

Nú eru komnar hér inn á vefinn upplýsingar á skráningarblað vegna ITB ferðasýningarinnar í Berlín í mars næstkomandi. Einnig vegna tveggja annarra sýninga í Mið-Evrópu, FITUR og BIT. Allt eru þetta sýningar sem íslenskir ferðaþjónustuaðilar þekkja, ekki síst ITB sem er ein stærsta ferðasýning í heimi. Í meðfylgjandi skjali er skráningarblað og nánari upplýsingar vegna sýninganna. Athygli er vakin á því að skráningarfrestur er til 27. nóvember næstkomandi. FITUR verður haldin 20.-24. janúar 2010. BIT verður haldin 18.-21. febrúar 2010. ITB verður haldin 10.-14. mars 2010. Ferðasýningar í Evrópu - skráning og nánari upplýsingar (Word) Ferðasýningar í Evrópu - skráning og nánari upplýsingar (PDF)  
Lesa meira

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hlutu umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru afhent í 15. sinn í dag. Þau komu í hlut Íslenskra Fjallaleiðsögumanna fyrir markvissa umhverfisstefnu, með það að leiðarljósi að öll ferðamennska á vegum fyrirtækisins sé sjálfbær. Einnig fyrir áralanga baráttu fyrir verndun viðkvæmrar náttúru norðurslóða með hagsmuni næstu kynslóða í huga. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra afhenti verðlaunin. Fyrirtækið Íslenskir Fjallaleiðsögumenn var stofnað árið 1994 af fjórum ungum fjallaleiðsögumönnum en hefur frá þeim tíma sameinast tveimur öðrum fyrirtækjum, Íslandsflökkurum og Icelandic Travel Market. Fyrirtækið hefur frá upphafi haft það að markmiði að auka fagmennsku og fræðslu í leiðsögn, fara ótroðnar slóðir með innlenda sem erlenda ferðamenn, kynna þeim undraheima hálendis Íslands og íslenskrar náttúru og stuðla að góðri umgengni og verndun viðkvæmrar náttúru þannig að komandi kynslóðir megi njóta hennar á sama hátt og við. Trúir þessum markmiðum, hafa Íslenskir Fjallaleiðsögumenn staðið í fararbroddi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í þróun nýrra ferða, umhverfismálum, menntun starfsmanna og öryggismálum. Láta umhverfismál til sín taka á ýmsum sviðumÍslenskir Fjallaleiðsögumenn fylgja umhverfismarkmiðum World Wildlife Fund fyrir ferðaþjónustu á heimskautasvæðum og hafa tekið þátt í samnorrænu umhverfissamstarfi FINECO varðandi sjálfbæra umgengni við náttúruna. Fyrirtækið hefur tekið virkan þátt í umræðu um náttúruvernd hérlendis sem erlendis og setið í stjórnum og ráðum sem varða umhverfisvernd og ferðamennsku. Í ferðum Fjallaleiðsögumanna er hugmyndafræði ?Leave No Trace Principles? höfð í hávegum, en það eru leiðbeinandi umgengnisvenjur um sjálfbæra ferðamennsku á ósnortnum svæðum og miðar að því að draga úr óhjákvæmilegu álagi af völdum ferðamanna. Markmiðið er að þeir sem fylgja í spor Íslenskra Fjallaleiðsögumanna sjái ekki að þar hafi aðrir verið á ferð Íslenskir Fjallaleiðsögumenn fylgja umhverfisstefnu á skrifstofu og lager á sama hátt og úti í náttúrunni. Pappi, plast, málmar, fernur, gler, rafhlöður og lífrænt affall er endurunnið eða endurnýtt allt árið. Fyrirtækið nýtir sér almenningssamgöngur í 50-60% ferða sinna og er í góðu samstarfi við heimamenn, þar sem þeir starfa, varðandi ýmsa þjónustu, leiðsögn og gistingu. Umhverfismál eitt af hlutverkum FerðamálastofuSamkvæmt lögum um ferðamál og markmiðum ferðamálaáætlunar 2006-2015 ber Ferðamálastofu að sinna umhverfismálum á ýmsan hátt. Eitt af hlutverkum stofnunarinnar er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til ábyrgðar í umhverfismálum. Sem partur af þessari viðleitni veitir Ferðamálastofa árlega umhverfisverðlaun því fyrirtæki eða stofnun sem best þykir hafa staðið sig í umhverfismálum það árið. Verðlaunin voru fyrst veitt 1994 og er þetta því 15. árið sem þau eru veitt. Að þessu sinni fengu 27 aðilar tilnefningu til verðlaunanna. Á meðfylgjandi mynd eru, talið frá vinstri: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu; Jón Gauti Jónsson, Elín S. Sigurðardóttir, Ester Ósk Traustadóttir, Leifur Örn Svavarsson og Arnar Jónsson, öll frá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum og Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála. Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar.  Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki.  Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst. 
Lesa meira

Nýtingaráætlun fyrir strandsvæði við Vestfirði

Fyrsti fundur í fundarröð um nýtingaráætlun fyrir strandsvæði við Vestfirði verður haldinn á veitingarstaðnum Malarkaffi á Drangsnesi, fimmtudaginn 19. nóvember n.k. kl 20.00.  Val fundarstaðar er ekki tilviljun. Þar var hrint af stað verkefni, hinu fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, þar sem sjónum er beint að nýtingu strandsvæðisins í heilum landshluta og því er viðeigandi að fyrsti fundur slíku tagi sé haldinn  á fjörukambi í  mynni Steingrímsfjarðar. Fundir og svæðaafmörkun þeirra er annars sem hér segir; -     Strandasýsla,  19. nóvember kl 20.00. veitingarstaðurinn Malarkaffi, Drangsnesi. -     Reykhólahreppur, 20. nóvember kl 10.00. Íþróttahúsið Reykhólum, Reykhólum -     Vestur Barðastrandasýsla , 20.  nóvember kl 17.00. Skor þróunarsetur, Patreksfirði -     Ísafjarðarsýsla,  25. nóvember kl 20.00.  Þróunarsetur Vestfjarða, Árnagötu, Ísafirði Óskað eftir samstarfi við sveitarfélögin um kynningu fundarins, með því að birta efni hans á heimasíðum sveitarfélaganna og kynna efni hans fyrir sveitarstjórnarfulltúum og eftir atvikum hafnarnefnd og atvinnumálanefnd.  Fundirnir verða einnig kynntir í fjölmiðlum. Hér er neðan tengill inn á upplýsingar um aðdraganda og innihald verkefnisins. Nánari upplýsingar veita Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga (adalsteinn@fjordungssamband.is) og Gunnar Páll Eydal Teiknistofunni Eik (gunnar@teiknistofan.is). Sjá frekari upplýsingar á: http://www.vestfirskferdamal.is/skraarsafn/flokkur/21/  
Lesa meira

SAF lýsa áhyggjum af hugmyndum um skattahækkanir á ferðaþjónustu

Samtök ferðaþjónustunnar hafa lýst yfir áhyggjum vegna hugmynda um skattahækkanir sem fram hafa komið í fréttum að undanförnu. Telja samtökin einsýnt að þær muni leiða til fækkunar ferðamanna ef af verður. Í frétt frá SAF segir: "Í fréttum að undanförnu hefur verið greint frá alls kyns hugmyndum og tillögum um miklar skattahækkanir á m.a. flestallar greinar ferðaþjónustu og ef hugmyndir þessar ná fram þá stefnir augljóslega í fækkun erlendra ferðamanna hingað til lands. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hvað mest er horft til í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin býr við nú og hefur lækkun íslensku krónunnar bætt samkeppnisstöðuna.   Áform eru uppi um aukið flug til landsins á næsta ári og hafa Samtök ferðaþjónustunnar ítrekað bent á sóknarfæri og að ein skjótvirkasta leiðin til tekjuöflunar í þjóðfélaginu sé að fá hingað fleiri erlenda ferðamenn.  Helstu samkeppnislönd eru að setja stóraukið fé til landkynningar og því þarf íslensk ferðaþjónusta á því að halda að stjórnvöld gangi í takt við greinina.  Þetta gengur þvert á yfirlýsingar allra stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar um að nýta sóknarfæri í ferðaþjónustu. Með stórhækkuðum sköttum verður þetta dýrmæta sóknarfæri ekki lengur til staðar.  Hækkun nú á flugfarseðlum, hótelgistingu, veitingum, landflutningum og afþreyingu mun leiða til fækkunar ferðamanna, lækkunar gjaldeyristekna og þar með óþarfa atvinnuleysis."
Lesa meira

Aukin bjartsýni á World Travel Market í London

Íslenskir ferðaþjónustuaðilar voru sem fyrr meðal þátttakenda á hinni árlegu ferðasýningu World Travel Market í London sem lauk í gær. Hún er ein stærsta ferðasýning í heimi. Meiri bjartsýni ríkjandiVel tókst til að vanda og íslensku fyrirtækin fundu fyrir enn meiri áhuga en síðasta ár á ferðum til landsins. Viðmælendur fulltrúa Ferðamálastofu voru sammála um að það gætti heldur meiri bjartsýni um næsta ár samanborið við raunniðurstöðu þessa árs. Ferðamálastofa sá um undirbúning og skipulagningu Sem fyrr sá Ferðamálastofa um undirbúning og skipulagningu fyrir Íslands hönd en íslensku þátttakendurnir voru 14 talsins. Líkt og fyrri ár var sýningarsvæðið sett upp í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndunum. Fulltrúar Ferðamálastofu á básnum voru Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumaður markaðssviðs, Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi fyrir Bretland og einnig aðstoðaði Clair Horwood hjá almannatengslafyrirtækinu Saltmarsh að hluta. Að dómi þátttakenda tókst framkvæmdin mjög vel. Mikil að vöxtumWorld Travel Market er mikil að vöxtum en hún er haldin í glæsilegri sýningahöll, ExCel í Docklands, austast í London. Sýningarbásarnir eru um 700 talsins og þarna koma saman um 4.900 sýnendur frá öllum heimshornum. Sýningin stendur yfir í fjóra daga. Fyrstu sýningardagana er einungis fagaðilum í viðskiptaerindum veittur aðgangur en seinni dagana er einnig opið fyrir almenning. Myndir frá World Travel Market 2009 Eftirtalin fyrirtæki tóku þátt að þessu sinni:Elding - hvalaskoðunFerðaþjónusta bændaFlugfélag ÍslandsGuðmundur Jónasson TravelHertzHótel SelfossIceland Excursions - Grayline IcelandIceland ExpressIceland TravelIcelandairIcelandair HolidaysKea HotelsReykjavik HotelsSnæland Grímsson    
Lesa meira

Ánægja með Akureyrarhöfn

Akureyrarhöfn var nýlega valin þriðji besti áfangastaðurinn í Evrópu að mati farþega skemmtiferðaskipafélagsins Princess Cruises. Þetta er eitt stærsta skipafélag í heimi, flytur um eina milljón farþega árlega til fleiri áfangastaða en nokkurt annað félag. Pétur Ólafsson hjá Akureyrarhöfn var að vonum sáttur við viðurkenninguna. ?Princess Cruises er raunar okkar stærsti viðskiptavinur í komum skemmtiferðaskipa. Því er sérstaklega ánægjulegt að vita til þess að farþegar þeirra séu ánægðir og ætti að styrkja Akureyrarhöfn sem áfangastað,? segir Pétur. Í sumar voru komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar um 58 talsins og þegar hafa 55 skip boðað komu sína næsta sumar, sem samtals eru með fleiri farþega en á þessu ári. Akureyrarhöfn lét vinna auglýsingu í tilefni viðurkenningarinnar sem sjá má hér.
Lesa meira

Vinnuþing Vatnavina Vestfjarða

Vinnuþing Vatnavina Vestfjarða verður haldið 16. og 17. nóvember næstkomandi á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. Á vinnuþinginu munu Vatnavinir kynna frumlegar hugmyndir og skissur af baðstöðum Vatnavina Vestfjarða sem og annað frumkvöðlastarf og ýmsar pælingar. Þarna mættir breiður hópur fulltrúa fyrirtækja í ferðaþjónustu og sérfræðingar tengdir heilbrigðum lífsstíl. Ráðstefnan er opin öllum og eru þátttakendur vinsamlega beðnir um að skrá sig fyrir lok fimmtudagsins 12. nóv. Mörg áhugaverð erindi verða flutt eins og sjá má hér að neðan. Ítarlegri útgáfa dagskrárinnar (PDF) Vatnavinir Vestfjarða, Sigrún Birgisdóttir og Viktoría Rán ÓlafsdóttirHughrifagreining fyrir markaðsetningu: Sköpun sérstöðu, Sigrún Birgisdóttir og Sigurður ÞorsteinssonOpnun Vefsíðu www.vatnavinir.is, María Sjöfn Dupuis DavíðsdóttirBaðstaðir Vatnavina Vestfjarða: Kynning á hugmyndavinnu, Olga Guðrún Sigfúsdóttir og Sigrún Birgisdóttir Óhefðbundnar lækningar við baðstaði Vatnavina, Náttúrulækningafélag Íslands Jurtir og vatn, Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, VillimeyÞari, vatn og lækningamáttur, Sólrún Sverrisd&o! acute;ttir, ReykhólumFerðaþjónustan á Klængshóli í Skíðadal: Náttúra og heilsa, Anna Dóra HermannsdóttirÞemaferðir á Vestfjörðum: Arnlín Óladóttir og Magnús Rafnsson, Þemaferðir ehfGerð og markaðsetning ferða, Bertrand Jouanne, FerðakompaníiðSjálfboðaliðasamtökin SEEDS, Hildur Björk PálsdóttirNámskeið og ferðir í tengslum við baðstaði Vestfjarða, Aðalheiður Lilja GuðmundsdóttirFerðamálastofa og Vatnavinir Vestfjarða, Ólöf Ýrr Atladóttir, Ferðamálastjóri Eiginleikar vatns á Vestfjör&e! th;um og nýjar leiðir við hreinsun vatns, Sand ra Grettisdóttir, Háskólanum AkureyriÚtflutningsráð og Vatnavinir Vestfjarða, Hermann Ottósson, forstöðumaðurMarkaðstofa Vestfjarða og Vatnavinir Vestfjarða, Jón Páll Hreinsson Vatnavextir og tekjumyndun, Anna G. SverrisdóttirÍmyndarsköpun, Sigurður Þorsteinsson og Anna G. Sverrisdóttir Ráðstefnugestir greiða ekkert þátttökugjald, en mikilvægt er að gestir bóki eftirfarandi samkvæmt þátttöku, annan eða báða dagana. Dagur 1, án gistingu Hádegismatur, kaffi og kvöldverður 4700 kr. Dagur 2, án gistingu Hádegismatur og miðdegiskaffi 2000 kr. Gisting með morgunverði:Einstaklingur (með baði) 7000 kr. á mannTveir í herb (með baði) 5000 kr á mannEinstaklingur (án baðs) 6000 kr á mannTveir í herb (án baðs) 4000 kr á mann Nánari upplýsingar má nálgast hjá Viktoríu Rán í síma 451 0077 / gsm 691 4131.
Lesa meira

Golf Iceland á golfferðasýningunni IGTM

Eins og áður hefur komið fram tekur Golf Iceland þátt í sinni fyrstu ferðasýningu nú í næstu viku. Um er að ræða sýninguna International Golf Travel Mart, IGTM. Mikill fjöldi aðila tekur þátt í sýningunni og er hörð samkeppni um að ná athygli  golfferðasala. Viðtökur langt umfram vonirUm er að ræða þá tegund ferðasýningar þar sem golferðaskrifstofurnar  panta fyrirfram 20 mínútna fundi  með þeim sem eru þarna að kynna sína vöru og  þjónustu.  Þeir hafa haft síðustu tvær vikur til að velja sér viðtöl. "Peter Walton frá IAGTO sagði á fundinum í október hér að við skyldum ekki gera okkur of miklar vonir í fyrsta sinn. Þeirra reynsla væri sú að nýr áfangastaður á sýningunni gæti búist við 5-10 sem óskuðu eftir viðtali í fyrsta sinn og síðan á þriðja ári gætuð við vænst þess að fá allt að 30 beiðnir um viðtöl. Þessar tvær vikur, sem golfferðasalar hafa haft til að bóka beiðnir um viðtöl hef ég lagt mikla áherslu á að nýta dreifileiðir til að koma upplýsingum um Golf Iceland og veru okkar á sýningunni á sem flesta söluaðila. Þá hef ég einnig sent út fréttatilkynningar um Ísland sem golfáhugastað, Arctic Open o.fl., sem hefur verið beint að þessum söluaðilum. Nú hefur okkur borist listinn með beiðnum um viðtöl í næstu viku og er skemmst frá því að segja að alls hafa 33 erlendir ferðaskrifstofuaðilar óskað eftir að fá viðtöl og kynna sér okkar vöru og þjónustu. Þetta er langt fram úr okkar vonum," segir Magnús Oddsson, verkefnastjóri Golf Iceland. Þessir golfferðaheildsalar eru frá eftirtöldum löndum: Bandaríkjunum -5   Hollandi - 4   Bretlandi - 3               Svíþjóð - 3   Sviss  - 2   Þýskalandi - 2                 Frakklandi - 2   Búlgaríu - 2   Tékklandi - 2                                  S-Afríku - 2   Indlandi - 2   Austurríki - 1            Finnlandi - 1   Danmörku - 1   Japan - 1 Þá verður sérstök Íslandskynning  18. nóvember  á sýningunni, þar sem Magnús sagist vonanst til að 40-60 ferðaheildsalar mæti og horfi á kynningu á Íslandi sem áfangastað fyrir kylfinga.Íslenskir söluaðilar hafa undanfarnar vikur verið að setja saman golfvöru sína fyrir næsta sumar og gera kynningarefni,  bæklinga o.fl. Má nefna sem dæmi um slíkt að Iceland Pro Travel hefur opnað nýjan vef eingöngu vegna sölu á golfferðum til erlendra aðila www.golfer.is                    
Lesa meira

Verkefnasýning Norðurslóðaáætlunar

Í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu Norðurslóðaáætlunar 2007-2013, LAVA09, verða þau fjölbreyttu verkefni sem Ísland tekur þátt í kynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur. Opnunartími er 10. nóv. kl. 12:00 ? 18:00 og 11. nóvember kl. 10:00 ? 18:00 og er sýningin öllum opin. Verkefnin eru m.a. á sviðum viðbragða við loftslagsbreytingum, menningartengdrar ferðaþjónustu, heilsugæslu, fiskeldis, verslunar, veiða, handverks, viðbragða við stórslysum, almenningssamgangna, nýtingu trjáviðar, endurnýjanlegra orkugjafa, öldrunarþjónustu, vegagerðar  og  skapandi greina. Á hluta sýningarinnar verður  ?lifandi vinnustofa? skapandi frumkvöðla sem leggja aukið gildi til valinna NPP verkefna. Norðurslóðaáætlun 2007-2013 er ein af svæðaáætlunum Evrópusambandsins og meginmarkmið hennar er að efla atvinnu-, efnahags-, umhverfis- og félagslega framþróun svæða og landa á norðurslóðum með samstarfsverkefnum yfir landamæri á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.  Þema ráðstefnunnar er atvinnusköpun með áherslu á sóknarfæri sem felast í tengingu hefðbundinna atvinnugreina við skapandi greinar. Lögð er áhersla á virkt samstarf og tækifæri sem liggja í samstarfi hefðbundins og skapandi iðnaðar. Hvernig getur aðkoma  skapandi greina aukið framþróun og virði fyrirtækja og stofnanna. Nánari upplýsingar (PDF)
Lesa meira

Nýr formaður Ferðamálasamtaka Íslands

Unnur Halldórsdóttir var kjörin formaður Ferðamálasamtaka Íslands á nýafstöðum aðalfundi  samtakanna sem var haldinn á Akureyri. Tók hún við af Pétri Rafnssyni sem gegnt hefur formennsku 12 undanfarin ár. Voru Pétri færðar þakkir á fundinum fyrir hans góðu störf. Unnur sem nú á og rekur Hótel Hamar í Borgarfirði ásamt Hirti Árnasyni , rak m.a. áður Shell stöðina í Borganesi og var formaður Heimilis og skóla um árabil. Unnur á því að baki langa reynslu bæði í ferðaþjónustu og félagsmálum. Samtökin standa á tímamótumÍ frétt frá samtökunum kemur fram að hlutverk Ferðamálasamtaka Íslands hafi breyst nokkuð síðustu misserin. Markaðsstofur hafa verðið settar á fót í öllum landshlutunum þar sem markvisst er unnið að heildrænni markaðssetningu hvers landshluta fyrir sig með megináherslu á ferðamálin. ?Samtökin standa  í raun á tímamótum. Mikilvægt er að efla markaðsstofurnar, kalla eftir umræðum um framtíðarstefnu ferðamála, virkja grasrótina og vekja fólk í þjónustustörfum um vitundar um hversu víðtæk ferðaþjónustan er. Verkefnin framundan eru því næg og til að sinna þeim með formanni og stjórn hefur nýr starfsmaður verið ráðinn, Eva Úlla Hilmarsdóttir,? segir í fréttinni. Töluverðar umræður urðu á fundinum m.a. um gjaldtöku á ferðamannastöðum og hvernig standa ber að uppbyggingu og umhirðu á þeim um gæðamál, menntun, grasrótarstarfið og margt fleira. Vefþjónustukerfi afhentFundurinn samþykkti ályktun stjórnar um að að afhenda vefþjónustukerfi, sem FSÍ hefur kostað fyrir markaðsstofur landshlutanna, til Ferðamálastofu til eignar, varðveislu og þróunar. Kristján Pálsson afhenti Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra kerfið með formlegum hætti. ?Stjórnin vonar að þessi ákvörðun leiði til farsællar þróunar á samstarfi markaðsstofa landshlutanna og Ferðamálastofu og auki öryggi og auðveldi upplýsingagjöf til erlendra jafnt sem innlendra ferðamanna um Ísland,? segir í ályktuninni. Við þetta má bæta að nú er unnið hörðum höndum að uppfærslu vefþjónustukerfisins, samfara endurnýjum á vefjum bæði markaðsstofanna og Ferðamálastofu. Ályktun vegna markaðsmálaAðalfundur FSÍ haldinn á Akureyri 3.-4. nóvember 2009 lýsir yfir mikilli ánægju sinni með þann góða árangur sem náðst hefur í ferðaþjónustunni á yfirstandandi ári. Þrotlaus vinna fjölda aðila við markaðssetningu og móttöku ferðamanna um allt land vegur þar þyngst. Aðalfundurinn skorar á alþingi og ríkisstjórn að sjá til þess að fjármunir til markaðssetningar innan og utanlands verði ekki skornir niður í fjárlögum fyrir árið 2010. Vill aðalfundurinn sérstaklega benda þar á mikilvægi markaðsstofa landshlutanna. Öllum er ljóst í dag vaxandi mikilvægi ferðaþjónustunnar og þeirrar staðreyndar að engin önnur atvinnugrein hefur sömu möguleika til gjaldeyris- og atvinnusköpunar í framtíðinni, ef rétt er að málum staðið. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá fundinum. Vel var mætt á aðalfundinn á Hótel KEA. Fundargestir. Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpaði fundinn. Unnur Halldórsdóttir, nýr formaður, fremst á myndinni. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri í ræðustjóli. Fundargestir. Kristján Pálsson afhenti Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra vefþjónustukerfið.
Lesa meira