Fara í efni

Golf Iceland á golfferðasýningunni IGTM

Golfvöllur
Golfvöllur

Eins og áður hefur komið fram tekur Golf Iceland þátt í sinni fyrstu ferðasýningu nú í næstu viku. Um er að ræða sýninguna International Golf Travel Mart, IGTM. Mikill fjöldi aðila tekur þátt í sýningunni og er hörð samkeppni um að ná athygli  golfferðasala.

Viðtökur langt umfram vonir
Um er að ræða þá tegund ferðasýningar þar sem golferðaskrifstofurnar  panta fyrirfram 20 mínútna fundi  með þeim sem eru þarna að kynna sína vöru og  þjónustu.  Þeir hafa haft síðustu tvær vikur til að velja sér viðtöl. "Peter Walton frá IAGTO sagði á fundinum í október hér að við skyldum ekki gera okkur of miklar vonir í fyrsta sinn. Þeirra reynsla væri sú að nýr áfangastaður á sýningunni gæti búist við 5-10 sem óskuðu eftir viðtali í fyrsta sinn og síðan á þriðja ári gætuð við vænst þess að fá allt að 30 beiðnir um viðtöl. Þessar tvær vikur, sem golfferðasalar hafa haft til að bóka beiðnir um viðtöl hef ég lagt mikla áherslu á að nýta dreifileiðir til að koma upplýsingum um Golf Iceland og veru okkar á sýningunni á sem flesta söluaðila. Þá hef ég einnig sent út fréttatilkynningar um Ísland sem golfáhugastað, Arctic Open o.fl., sem hefur verið beint að þessum söluaðilum. Nú hefur okkur borist listinn með beiðnum um viðtöl í næstu viku og er skemmst frá því að segja að alls hafa 33 erlendir ferðaskrifstofuaðilar óskað eftir að fá viðtöl og kynna sér okkar vöru og þjónustu. Þetta er langt fram úr okkar vonum," segir Magnús Oddsson, verkefnastjóri Golf Iceland.

Þessir golfferðaheildsalar eru frá eftirtöldum löndum:

 • Bandaríkjunum -5  
 • Hollandi - 4  
 • Bretlandi - 3              
 • Svíþjóð - 3  
 • Sviss  - 2  
 • Þýskalandi - 2                
 • Frakklandi - 2  
 • Búlgaríu - 2  
 • Tékklandi - 2                                 
 • S-Afríku - 2  
 • Indlandi - 2  
 • Austurríki - 1           
 • Finnlandi - 1  
 • Danmörku - 1  
 • Japan - 1

Þá verður sérstök Íslandskynning  18. nóvember  á sýningunni, þar sem Magnús sagist vonanst til að 40-60 ferðaheildsalar mæti og horfi á kynningu á Íslandi sem áfangastað fyrir kylfinga.
Íslenskir söluaðilar hafa undanfarnar vikur verið að setja saman golfvöru sína fyrir næsta sumar og gera kynningarefni,  bæklinga o.fl. Má nefna sem dæmi um slíkt að Iceland Pro Travel hefur opnað nýjan vef eingöngu vegna sölu á golfferðum til erlendra aðila www.golfer.is