Fara í efni

Aukin bjartsýni á World Travel Market í London

wtm 2009
wtm 2009

Íslenskir ferðaþjónustuaðilar voru sem fyrr meðal þátttakenda á hinni árlegu ferðasýningu World Travel Market í London sem lauk í gær. Hún er ein stærsta ferðasýning í heimi.

Meiri bjartsýni ríkjandi
Vel tókst til að vanda og íslensku fyrirtækin fundu fyrir enn meiri áhuga en síðasta ár á ferðum til landsins. Viðmælendur fulltrúa Ferðamálastofu voru sammála um að það gætti heldur meiri bjartsýni um næsta ár samanborið við raunniðurstöðu þessa árs.

Ferðamálastofa sá um undirbúning og skipulagningu
Sem fyrr sá Ferðamálastofa um undirbúning og skipulagningu fyrir Íslands hönd en íslensku þátttakendurnir voru 14 talsins. Líkt og fyrri ár var sýningarsvæðið sett upp í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndunum. Fulltrúar Ferðamálastofu á básnum voru Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumaður markaðssviðs, Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi fyrir Bretland og einnig aðstoðaði Clair Horwood hjá almannatengslafyrirtækinu Saltmarsh að hluta. Að dómi þátttakenda tókst framkvæmdin mjög vel.

Mikil að vöxtum
World Travel Market er mikil að vöxtum en hún er haldin í glæsilegri sýningahöll, ExCel í Docklands, austast í London. Sýningarbásarnir eru um 700 talsins og þarna koma saman um 4.900 sýnendur frá öllum heimshornum. Sýningin stendur yfir í fjóra daga. Fyrstu sýningardagana er einungis fagaðilum í viðskiptaerindum veittur aðgangur en seinni dagana er einnig opið fyrir almenning.

Eftirtalin fyrirtæki tóku þátt að þessu sinni:
Elding - hvalaskoðun
Ferðaþjónusta bænda
Flugfélag Íslands
Guðmundur Jónasson Travel
Hertz
Hótel Selfoss
Iceland Excursions - Grayline Iceland
Iceland Express
Iceland Travel
Icelandair
Icelandair Holidays
Kea Hotels
Reykjavik Hotels
Snæland Grímsson