Fara í efni

Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2009

Nýsköpunarverðlaun SAF 2009
Nýsköpunarverðlaun SAF 2009

Nýsköpunarverðlaun SAF ? Samtaka ferðaþjónustunnar 2009 voru afhent á Grand Hótel Reykjavík á föstudag. Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir öfluga uppbyggingu safnsins en fuglar í náttúru landsins er auðlind sem er í mikilli sókn í ferðaþjónustu um þessar mundir og margar hugmyndir og vörur sem eru að þróast þar í kring.

 Í rökstuðningi dómnefndar segir að eftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar:
Nýsköpun snýst um að breyta hugmynd í árangur. Þegar kemur að ferðaþjónustu felst árangurinn í að byggja upp fyrirtæki sem getur staðið undir lífsviðurværi fólks og byggir á auðlindum landsins, því sem gestir vilja sækja heim, skoða og upplifa.

Okkur er sönn ánægja að veita Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit nýsköpunarverðlaun SAF 2009. Fuglasafnið byggir á hugmynd, draumi og hugðarefni Sigurgeirs Stefánssonar sem lést af slysförum á Mývatni 26. október 1999. Pétur Bjarni Gíslason ásamt fjölskyldu, aðstandenum Sigurgeirs og vinnufélögum eiga veg og vanda af því að láta hugmynd Sigurgeirs verða að þeim glæsta árangri er blasir við gestum á Ytri Neslöndum í dag. Er safnið og uppbygging þess öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni. Fuglar í náttúru Íslands eru þarna allir utan einn, auk fjölda fiðraðra gesta og ættingja úr öllum heimshornum. Umgjörð þeirra er okkar helsta náttúruperla, Mývatn sem iðar af fuglalífi, sér í lagi að vori og eflir safnið því ferðamennsku á svæðinu á jaðartíma, þegar annars öflug ferðaþjónusta sveitarinnar er að vakna úr vetrardvala. Við safnið eru skilgreindir skoðunarstaðir, gönguleiðir og fuglaskoðunarbyrgi, allt hannað, líkt og safnið, á látlausan og smekklegan hátt og í takt við umhverfið. Í safninu og skilgreindum fuglaskoðunarstöðum þess er því hægt að sjá marga af sýningagripum safnsins í fullu fjöri án þess að styggja þá.

Fuglar í náttúru Íslands er auðlind sem er í mikilli sókn í ferðaþjónustu um þessar mundir og margar hugmyndir og vörur sem eru að þróast þar í kring. Er það mat okkar að Fuglasafn Sigurgeirs er þar fremst í flokki og öðrum til fyrirmyndar og þannig vel að Nýsköpunarverðlaunum SAF komið.  

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Árni Gunnarsson, formaður SAF, sem er formaður dómnefndar en honum til ráðgjafar voru dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Hildur Jónsdóttir, Farvegi ehf.

Í stefnumótun SAF kemur m.a. fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum.  Auk þess segir að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki.  Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar.  Stjórn sjóðsins tekur tillit til þessara þátta við val sitt.


Mynd: Katrín Júlíusdóttir, ferðamálaráðherra, afhenti Aðalbjörgu Stefánsdóttur, systur Sigurgeirs, nýsköpunarverðlaun SAF 2009.

Sjá nánar : www.fuglasafn.is