Fara í efni

Ísland fær mikla fjölmiðlaathygli í Bandaríkjunum

VanetyFair
VanetyFair

Mikil umfjöllun hefur verið um Ísland í fjölmiðlum vestan hafs upp á síðkastið. Jafnt vefmiðlar, prentmiðlar og ljósvakamiðlar hafa birt ítarlegar greinar um Ísland sem ferðamannaland og undantekningarlaust á jákvæðum nótum.

Útgáfa Vanity Fair vekur mikla athygli
Mest áberandi hefur verið umfjöllun í tenglum við væntanlega útgáfu Vanity Fair á blaði sem helgað verður umhverfismálum. Af þessu tilefni fékk blaðið stórleikarann Leonari DiCaprio til liðs við sig og kom hann til Íslands í myndatökur. Forsíðu blaðsins prýðir mynd af kappanum við Jökulsárlón. ?Vanity Fair er að setja milljónir dollara í að markaðssetja þetta sérblað og afleiðingin er meðal annars mikil og jákvæð fjölmiðaumfjöllun um Ísland. Bara núna í vikunni höfum við fengið umfjöllun á a.m.k. þremur sjónvarpsstöðvum á landsvísu. Þetta eru þættirnir NBC  EXTRA , CBS Entertainment Tonight og Access Hollywood sem allir eru klukkan 19:30, strax að loknum kvöldfréttum, þ.e. á besta tíma. Tugir ef ekki hundruð dagblaða og tímarita eru með mynd af væntanlegri forsíðu Vanity Fair og nokkuð sérstakt hvað aðrir fjölmiðlar hafa sagt mikið frá þessari útgáfu Vanity Fair,? segir Einar Gústavsson, forstöðumaður Ferðamálastofu í New York.

Annað dæmi umfjöllun MSNBC vefmiðilsins, byggð á grein úr Islands-tímaritinu, þar sem Ísland er talið meðal 6 áhugaverðustu eyja í Evrópu til að heimsækja. Lag er út frá þeirri hugmyndafræði að fara ekki of hratt yfir heldur gæta þess að njóta ferðalagsins og þess sem hver staður hefur uppá að bjóða. Þarna er Ísland talið góður valkostur.

Góðir hlutir að gerast
Einar segir þessa miklu umfjöllun um Ísland nú ekkert einsdæmi, þótt hún sé vissulega með mesta móti. Þess dagana erum við mjög sýnileg á markaðinum og ekki spurning að Ísland er að ná til 50-100 miljóna Bandaríkjamanna þessa vikuna, sem er auðvitað bara gott fyrir okkur, ekki síst ferðaþjónustuna. Við getum einfaldlega sagt að það séu góðir hlutir að gerast,? segir Einar.