Beinu Kaupmannahafnarflugi Iceland Express frá Akureyri vel tekið

Beinu Kaupmannahafnarflugi Iceland Express frá Akureyri vel tekið
Iceland Express lógó

Beinu flugi Iceland Express frá Akureyri til Kaupmannahafnar hefur verið mjög vel tekið. Iceland Express hóf beint flug milli þessara staða í fyrrasumar og nú hefur þráðurinn verið tekinn upp aftur. Flogið er tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum, frá júníbyrjun til ágústloka. Þegar er orðið uppselt í sex brottfarir og í 15 til viðbótar hafa 90% sæta þegar verið seld. Nú er svo komið að einungis á eftir að selja um fjórðung allra miða í sumar, segir í frétt frá Iceland Express.

Töluverð söluaukning er milli ára, þrátt fyrir að sætanýting hafi verið góð síðastliðið  sumar. Mest er aukningin í júlí, þar sem nær fjórðungs aukning er í seldum sætum milli ára. Seldum sætum í ágúst hefur einnig fjölgað umtalsvert frá því í fyrra, eða um rúm 14%.

Enn sem komið er eru Íslendingar í meirihluta þeirra sem ferðast á þessari leið en þó hefur erlendum ferðamönnum sem nýta sér þennan möguleika farið ört fjölgandi. Sem dæmi má nefna að þegar hafa vel á annað þúsund Danir ferðast með Iceland Express til Akureyrar eða pantað sér miða á flugleiðinni í sumar. ?Iceland Express hefur ráðist í umfangsmikla kynningu á Akureyri og Norðurlandi almennt í Danmörku að undanförnu sem virðist hafa skilað sér í auknum áhuga á þessum nýja valkosti í ferðaþjónustu þar í landi;? segir m.a. í frétt Iceland Express.


Athugasemdir