Fara í efni

Veðurfarsbreytingar kalla á breytt vöruframboð yfir vetrartímann

Ferðamenn
Ferðamenn

Sumarfundur í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) er nú haldinn í Brussel. Magnús Oddsson ferðamálastjóri situr fundinn en hann situr í framkvæmdastjórninni sem kjörinn fullrúi Norður-Evrópu.

?Meginverkefni þessa sumarfundar í framkvæmdastjórninni er að fara yfir aðgerða- og markaðsáætlun til ársins 2010 og hvaða breytingar þyrfti að gera á því,? segir Magnús.

Hlutirnir breytast hratt
Hann segir ljóst að hlutirnir breytist hratt, bæði vegna breytinga á mörkuðum, breytinga í dreifileiðum og einnig vegna breytinga í vöruframboði. ?Til dæmis var umræðan í dag um hvernig aðalvetrarvara Mið-Evrópu, sem byggist á snjó og er stór hluti af ímynd þess svæðis, kallar nú á þróun og ef til vill algerlega nýja vetrarvöru á þessu svæði, þegar snjórinn er að hverfa hratt. Þetta var mikil umræða um hvernig veðurfarsbreytingar geta kallað á nauðsyn þess að endurskoða vöruframboð víða í Evrópu fyrr en okkur grunaði,? segir Magnús.

Þá var umræða á fundinum um viðræður ETC og Evrópusambandsins um möguleika á mikilli 3ja ára herferð á nýjum mörkuðum í Asíu. Þær tillögur sem koma frá þessum fundi framkvæmdastjórnarinnar verða svo lagðar fyrir fund alls ráðsins í haust.