Fara í efni

Íslandsáhugi á China International Travel Mart

China International Travel Mart 2006 1
China International Travel Mart 2006 1

Vel tókst til með þátttöku á China International Travel Mart, stærstu ferðakaupstefnu í Asíu, sem lauk í síðustu viku. Hún var að þessu sinnin haldin í Shanghai.

Líkt og í fyrra voru það Ferðamálastofa, Icelandair og Sendiráð Íslands í Peking sem stóðu að þátttöku Íslands á sýningunni. Þá var hún haldin í Kunming en skipst er á um að halda hana þar og í Shanghai. Íslenskir þátttakendur í ár voru Ferðamálastofa, Icelandair, Iceland Excursion-Gray Line, Yu Fan Travel og Iceland Travel. Nýr sendiherra íslands, Gunnar Snorri Gunnarsson, heimsótti sýninguna.

Samkvæmt upplýsingum frá sýningarhöldurum hefur sýningin vaxið hratt síðustu ár og jókst nú að umfangi um 27% á milli ára. Þátttakendur komu frá ríflega 90 löndum og sýnendur voru ríflega 4.000 talsins.

Vöxtur í ferðalögum Kínverja
?Þetta er stærsta ferðasýning í Asíu og mikilvægi hennar því mikið. Mitt mat er að þátttakan hafi heppnast vel og einkum var mikill áhugi á Íslandi á fagdögum sýningarinnar. Talsverður vöxtur hefur verið í ferðalögum Kínverja til Íslands og er búist við enn frekari vexti á næstu misserum,? segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, sem sá um skipulag f.h íslensku sýnendanna. Myndirnar hér að neðan tók Ársæll á sýningunni.