Fara í efni

Samningur um eflingu rannsókna á sviði ferðamennsku

Undirskrift FMSÍ
Undirskrift FMSÍ

Ferðamálastofa og Ferðamálasetur Íslands skrifuðu í dag undir samning sem ætlað er að efla enn frekar rannsóknir og þróun á sviði ferðaþjónustu og ferðamennsku. Samningurinn felur meðal annars í sér fjárhagslega aðkomu Ferðamálastofu að rekstri Ferðamálasetursins.

Í samningnum kemur einnig fram að Ferðamálastofa og Ferðamálasetur Íslands vinna sameiginlega verkefnaáætlun um hvers konar rannsóknir og/eða þróunarverkefni Ferðamálasetrið vinni og nýtist Ferðamálastofu. Það eru Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli sem starfrækja sameiginlega Ferðamálasetur Íslands en til þess var stofnað árið 1999. Setrinu ætlað að vera miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum. Það er til húsa að Borgum, rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri.

Helstu hlutverk Ferðamálasetursins eru að efla og samhæfa rannsóknir í ferðamálum, stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði ferðamála, gefa út fræðirit, kynna niðurstöður rannsókna, veita upplýsingar og ráðgjöf og gangast fyrir námskeiðum, ráðstefnum og fyrirlestrum. Forstöðumaður Ferðamálasetursins er Edward H. Huijbens og formaður stjórnar er Ingjaldur Hannibalsson.

Mynd: Ingjaldur Hannibalsson, stjórnarformaður Ferðamálaseturs Íslands, og Magnús Oddsson ferðamálastjóri handsala samninginn að lokinni undirskrift, að viðstöddum Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra.