Fréttir

Hópbílar hf. hlutu umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2006

Hópbílar hf. í Hafnarfirði eru handhafar umhverfisverðlauna Ferðamálastofu fyrir árið 2006. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti verðlaunin á ferðamálaráðstefnunni á Hótel Loftleiðum í dag. Líkt og undanfarin ár var óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna jafnframt því sem innan stofnunarinnar er fylgst með því sem ferðþjónustuaðilar eru að gera í umhverfismálum. Í ár bárust 18 tilnefningar. Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a. að ?Allt frá árinu 2001 hefur fyrirtækið einsett sér að vera í fararbroddi í umhverfismálum og árið 2004 fékk það umhverfisstefnu sína vottaða skv. alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14001, umhverfisstefnan hefur verið yfirfarin og uppfærð árlega og er orðin hluti af stjórnskipulagi fyrirtækisins.? Fyrirtækið Hópbílar hf. var stofnað árið 1995, helstu verkefni fyrirtækisins eru tengd ferðaþjónustu og öllum þeim sem vilja ferðast. Hópbílar er fyrirtæki sem með starfsemi sinni getur haft neikvæð áhrif á umhverfið, hinsvegar hafa eigendur og stjórnendur fyrirtækisins tekið þá meðvituðu ákvörðun að sýna samfélagslega ábyrgð að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem af rekstrinum leiðir. Einkunnarorð fyrirtækisins eru: ÖRYGGI, UMHVERFI, HAGUR og ÞÆGINDI. Með það að leiðarljósi hefur fyrirtækið lagt áherslu á að mennta starfsfólk sitt á öllum sviðum, bílstjórar eru vel með á nótunum hvað varðar öryggis og umhverfismál, haldin hafa verið ensku námskeið fyrir þá og margt fleira til að bæta þjónustu við viðskiptavini. Bílafloti fyrirtækisins er einn sá yngsti á landinu og í bílunum eru margvísleg þægindi og afþreying fyrir farþega. Það er því í rökréttu framhaldi af vinnu og stefnu fyrirtækisins að unnið er að innleiðingu á alþjóðlegum öryggisstjórnunarstaðli, OHSAS 18001, stefnt er að vottun á honum árið 2007. Hópbílar hf. hafa fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir starf sitt í umhverfismálum má þar nefna Kuðunginn fyrirtækjaviðurkenningu umhverfisráðuneytisins 2003 og viðurkenningu frá Fegrunarnefnd Hafnarfjarðar, 2005. Mynd: Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti forsvarsmönnum Hópbíla viðurkenninguna en það voru þeir Gísli Jens Friðjónsson, Pálmar Sigurðsson og Jón Arnar Ingvarsson sem veittu henni viðtöku.
Lesa meira

Samningur um eflingu rannsókna á sviði ferðamennsku

Ferðamálastofa og Ferðamálasetur Íslands skrifuðu í dag undir samning sem ætlað er að efla enn frekar rannsóknir og þróun á sviði ferðaþjónustu og ferðamennsku. Samningurinn felur meðal annars í sér fjárhagslega aðkomu Ferðamálastofu að rekstri Ferðamálasetursins. Í samningnum kemur einnig fram að Ferðamálastofa og Ferðamálasetur Íslands vinna sameiginlega verkefnaáætlun um hvers konar rannsóknir og/eða þróunarverkefni Ferðamálasetrið vinni og nýtist Ferðamálastofu. Það eru Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli sem starfrækja sameiginlega Ferðamálasetur Íslands en til þess var stofnað árið 1999. Setrinu ætlað að vera miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum. Það er til húsa að Borgum, rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri. Helstu hlutverk Ferðamálasetursins eru að efla og samhæfa rannsóknir í ferðamálum, stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði ferðamála, gefa út fræðirit, kynna niðurstöður rannsókna, veita upplýsingar og ráðgjöf og gangast fyrir námskeiðum, ráðstefnum og fyrirlestrum. Forstöðumaður Ferðamálasetursins er Edward H. Huijbens og formaður stjórnar er Ingjaldur Hannibalsson. Mynd: Ingjaldur Hannibalsson, stjórnarformaður Ferðamálaseturs Íslands, og Magnús Oddsson ferðamálastjóri handsala samninginn að lokinni undirskrift, að viðstöddum Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra.
Lesa meira

Aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands frestað

Ákveðið hefur verið að fresta áður boðuðum aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands, sem halda átti á Hótel Ísafirði föstudaginn 24. og laugardaginn 25. nóvember 2006. Fundurinn hefur verið settur á dagskrá 25. janúar 2007, á sama stað. Að samtökunum standa átta landshlutasamtök og að þeim eiga aðild ferðaþjónustuaðilar og sveitarfélög á viðkomandi svæðum. Formaður samtakanna er Pétur Rafnsson. Fulltrúar eru beðnir að skrá sig tímanlega á fundinn í síma 898-6635. Bókun herbergja er á Hótel Ísafirði og einfaldast er að ganga frá því á heimasíðu hótelsins. www.hotelisafjordur.is
Lesa meira

Landnámssetur Íslands hlaut nýsköpunarverðlaun SAF

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar voru afhent í þriðja sinn við athöfn á Hótel Holti í Reykjavík í dag.  Landnámssetur Íslands í Borgarnesi hlaut verðlaunin að þessu sinni. Í rökstuðningi segir að Landnámssetrið hljóti verlaunin fyrir vel útfærðar og vandaðar sýningar sem efla ímynd Íslands og eru til þess fallnar að efla ferðaþjónustu utan hins hefðbundna tímabils.  Í tengslum við safnið  er unnið með sögu landsins með leiksýningum, sögumönnum, námskeiðum og hlöðnum vörðum á helstu sögustöðum Egilssögu víðar á svæðinu. Tækni er vel nýtt á sýningunum. m.a.með leiðsögn með lófatölvum. Hið nýja Landnámssetur hefur því átt stóran þátt í því að verða mikilsvægur þáttur í því að efla menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi. Sjá nánar á www.landnam.is Hlutverk Nýsköpunarsjóðs SAF er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Jón Karl Ólafsson, formaður SAF, Edward Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs, og Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri Radisson SAS Hótel Sögu. Mynd: Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhendir Sigríði Margréti Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Landnámssetursins viðurkenninguna og maður hennar Kjartan Ragnarsson, forstöðumaður Landnámssetursins, og Jón Karl Ólafsson, formaður SAF, fylgjast með.  
Lesa meira

Stefnir í metþátttöku Ferðamálaráðstefnunni

Mikill áhugi virðist vera á Ferðamálaráðstefnunni 2006, sem haldinn verður á Hótel Loftleiðum á morgun, ef marka má skráningar. Stefnir allt í metþátttöku. Meginþema ráðstefnunnar að þessu sinni eru gæðamál en yfirskrift hennar er: ?Íslensk ferðaþjónusta í örum vexti - hvað með gæði vöru og þjónustu??. Gæði eru einmitt ein af meginstoðunum í Ferðamálaáætluninni 2006-2015 og forsenda frekari vaxtar er að íslensk ferðaþjónusta sé samkeppnishæf í gæðum. Enn er tækifæri til að skrá sig á ráðstefnuna. Nánari upplýsingar og skráning
Lesa meira

Góður árangur MK-nema í Evrópukeppni hótel- og ferðamálaskóla

Nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi sýndu frábæran árangur í árlegri nemakeppni AEHT (Evrópusamtaka hótel og ferðamálaskóla) sem haldin var í Killarney á Írlandi dagana 7.-12. nóvember síðastliðinn og komu heim með tvenn gullverðlaun. Nemakeppnin er liðakeppni þar sem dregnir eru saman þátttakendur frá ólíkum löndum sem síðan spreyta sig á verkefnum tengdum áherslusviðum í námi þeirra. Að þessu sinni var keppt í kökugerð, gestamóttöku, framreiðslu, barþjónustu, ferðakynningum, matreiðslu, stjórnun, herbergisþjónustu og að auki voru veitt sérstök verðlaun fyrir hreinlæti í umgengi við matvæli. Íris Jóhannsdóttir, nemi á ferðabraut MK, tók þátt í keppni í ferðakynningum ásamt Danny van der Weel frá Hollandi. Verkefnið að þessu sinni var að fjalla um neikvæð og jákvæð áhrif ferðamennsku á umhverfið í Killarney og koma með tillögur til úrbóta. Farið var með nemendur í kynnisferð um nágrennið og þau fengu síðan einn dag til að undirbúa 20 mínútna kynningu sem flutt var fyrir áhorfendur og dómnefnd. Hlutu þau gullverðlaun fyrir kynninguna sína og silfurverðlaun fyrir að vera eitt af þeim sex liðum sem sýndu besta samvinnu og fagmennsku. Íris fékk einnig gullverðlaun fyrir að vera stigahæsti keppandinn frá sínu landi. Ragnar Th. Atlason, bakaranemi, keppti í kökugerð ásamt James Dunn frá Írlandi. Verkefni þeirra var að útbúa fjórar tegundir af bakkelsi fyrir síðdegiste, blanda heilsudrykk (?smoothie?) í tvö glös og svara nokkrum fagtengdum spurningum. Þeir höfðu hálfan dag til að ráða ráðum sínum og ákveða hvað yrði á boðstólum og síðan 3½ klst. til að ljúka verkinu í sérstöku keppniseldhúsi. Fengu þeir gullverðlaun fyrir sitt framlag, sem meðal annars er metið með tilliti til bragðs og útlits, fagmennsku í vinnubrögðum og samvinnu keppenda. Evrópusamtök hótel og ferðamálaskóla voru stofnuð árið 1988 og nú eru um 320 skólar frá yfir 30 löndum í samtökunum. MK hefur sent nemendur í AEHT keppnina frá því árið 1998 með frábærum árangri og hlotið samtals 9 gull- og silfurverðlaun. Ingólfur Sigurðsson, fagstjóri í bakstri og Ásdís Ó. Vatnsdal, enskukennari hafa lengst af séð um að þjálfa og undirbúa nemendurna fyrir AEHT keppnirnar. Þeim hefur báðum nokkrum sinnum verið boðið sæti í dómnefndum í bakstri/eftirréttagerð og ferðakynningum og var Ingólfur til að mynda yfirdómari í kökugerðarkeppninni nú í Killarney. Ásdís á einnig sæti í sérstakri nefnd sem hefur það hlutverk að semja og viðhalda keppnisreglum AEHT og sjá um að þeim sé fylgt eftir. Helene H. Pedersen, fagstjóri ferðagreina í MK, er fulltrúi Íslands í framkvæmdaráði AEHT og situr alla fundi þess sem og aðalfund samtakanna. Mynd: Íris og Ragnar geta sannarlega verið stolt af árangrinum.
Lesa meira

Aðalfundur All Senses hópsins

Á annan tug fyrirtækja á Vesturlandi sem á einhvern hátt þjóna ferðamönnum hafa tekið sig saman undir einu merki, ?Upplifðu allt? eða ?All Senses Awoken?. Hópurinn hélt aðalfund sinn á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi í vikunni. Nafnið Upplifðu allt - All Senses Group (ASG) vísar til þess að á Vesturlandi geti gestir upplifað allt það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða, náttúrufegurð, afþreyingu, sögu og góðan aðbúnað, segir í frétt frá samtökunum. Fram kemur að hópurinn hefur starfað saman í meira en tvö ár og vex stöðugt ásmeginn. Hér er á ferðinni dæmi um klasasamstarf þegar fyrirtæki í bullandi samkeppni taka höndum saman um að kynna sig og svæðið og miðla hvoru öðru af þekkingu og reynslu. Fram kemur að umrædd fyrirtæki skapa um 150 störf á ársgrundvelli og má því reikna með því að afleidd störf séu í kringum 300. Flest fyrirtækjanna í samstarfinu eru með starfsemi í gangi 10 mánuði eða lengur og hópurinn á það einnig sameiginlegt að búa yfir mikilli rekstrareynslu og víðfeðmu tengslaneti. Á aðalfundinum gerði Hansína B. Einarsdóttir grein fyrir starfi liðins árs og Unnur Halldórsdóttir, fór yfir fjármál verkefnisins. Var það samdóma álit allra viðstaddra að verkefnið hafi skilað miklum árangri og möguleikarnir væru óþrjótandi. Ákveðið var að stofna félag um verkefnið sem hefur það að meginmarkmiði að kynna Vesturland sem áfangastað, efla samstarf þeirra sem kjósa að vera í félaginu og miðla þekkingu og auka fagmennsku Í verkefnisstjórn næsta árs voru kosin: Hansína B. Einarsdóttir, Hótel Glym, Unnur Halldórsdóttir, Hótel Hamri og Steinar Berg Ísleifsson, Fossatúni. Verkefnisstóri ASG er Þórdís G. Arthursdóttir. Meðfylgjandi mynd var tekin af þeim sem sóttu aðalfundinn.
Lesa meira

Viðurkenningar á uppskeruhátíð

Síðastliðinn fimmtudag var blásið til uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Það voru Ferðamálasamtök Norðurlands eystra og vestra, Ferðaþjónustuklasinn/ Vaxey og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi sem höfðu forgöngu að hátíðinni, sem nú var haldin annað árið í röð. Að þessu sinni voru Austur-Húnvetningar gestgjafar. Dagurinn endaði með kvöldskemmtun í Kantrýbæ á Skagaströnd þar sem m.a. ýmsar viðurkenningar voru veittar. Skíðasvæðin á Akureyri og Dalvík fengu viðurkenningu fyrir áhuagverða nýjung í ferðaþjónustu vegna snjóframleiðslu. Tveir einstaklingar fengu viðurkenningu fyrir áralangt starf að ferðaþjónustu, þau Bára Guðmundsdóttir í Staðarskála, og Hallbjörn Hjartarson, "kántrýkóngur" á Skagaströnd. Markaðsskrifstofa Ferðamála á Norðurlandi veitti viðurkenningarnar sem Einar Oddur Kristjánsson, formaður Ferðamálaráðs, afhenti. Að Markaðsskrifstofunni standa Ferðamálasamtök Norðurlands eystra og Ferðamálasamtök Norðurlands vestra. Þá fékk Hólaskóli viðurkenningu Ferðamálasamtaka Íslands og hana afhenti Pétur Rafnsson, formaður samatakanna, sjá mynd:
Lesa meira

Óvíða betra að búa en á Íslandi

Ísland hefur fengið nokkra athygli í fjölmiðlum erlendis síðustu daga í kjölfar birtingar Sameinuðu þjóðanna á því sem kalla mætti lífsgæðavog. Þar er Ísland í öðru sæti með tilliti til þess hvar í heiminum er best að búa. Á toppnum er Noregur og á eftir Íslandi koma Ástralía, Írland, Svíþjóð, Kanada, Japan og Bandaríkin. Í lífsgæðavoginni er tekið mið af þáttum eins og lífslíkum, menntun og þjóðartekjum. Neðst á listann raðast nokkur smáríki í Afríku. Kemur fram að íbúar landanna á toppi listans þéni allt að 40 sinnum meira en þeirra sem eru á botninum, lifi að meðaltali helmingi lengur og hlutfalla þeirra sem eru læsir sé fimm sinnum hærra.
Lesa meira

Ráðstefnu- og hvataferðalandið Ísland kynnt í Þýskalandi

Þann 31. október síðastliðinn var efnt til kynningar um Ísland sem ráðstefnu- og hvataferðaland í sendiherrabústaðnum í Berlín. Fulltrúar yfir tuttugu þýskra fyrirtækja voru mættir til leiks. Að kynningunni stóðu Ráðstefnuskrifstofa Íslands í samvinnu við skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, Icelandair og sendiráðið í Berlín. Ólafur Davíðsson, sendiherra, bauð gesti velkomna á kynninguna. Davíð Jóhannsson, forstöðumaður Ferðamálastofu í Frankfurt og Anna Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri Ráðstefnuskrifstofu Íslands voru með framsögu, auk þess sem fulltrúar Icelandair og Reykjavíkurborgar héldu kynningar. Einnig tóku þátt fulltrúar fyrirtækjanna Iceland Travel, Highlanders, Icelandair Hotels og Radisson SAS Hotels. Næsta dag. þann 1. nóvember. var sami viðburður endurtekinn í Frankfurt þar sem fulltrúar yfir tuttugu þýskra fyrirtæka tóku þátt og var sendiherra jafnframt viðstaddur þar. Líkt og fram hefur komið þá hafa sambærilegar kynningar áður farið fram í fleiri sendiráðum Íslands erlendis, m.a. á Norðurlöndunum og Bretlandi. Mynd: Ólafur Davíðsson sendiherra flytur ávarp í Berlín.
Lesa meira