Fara í efni

40 ára afmælisupplyfting á Hótel Höfn

Hotel Hofn
Hotel Hofn

Nú standa yfir miklar framkvæmdir á Hótel Höfn en þar er nú verið að setja utan á hótelið ál og keramik flísar. Einnig er verið að skipta um alla glugga í hótelinu og setja á það nýtt þak. Verkið var boðið út í haust og voru það þrír aðilar sem buðu í framkvæmdina, var það Kristján Ragnarsson sem fékk verkið, en hann er búinn að vera með annan fótinn hér á Höfn í ýmsum framkvæmdum, m.a. setti þakið á Nýheima.

Til liðs við sig hefur Kristján fengið heimamenn til að vinna verkið að mestu leiti og er stórsmiðurinn Birgir Árnason þar í fararbroddi. Að sögn Óðins Eymundssonar eins eiganda Hótels Hafnar eru þessar framkvæmdir 40 ára afmælisupplyfting á Hótelinu en það á 40 ára afmæli á þessu ári. Óðinn segir að auk framkvæmda utan á hótelinu þá sé einnig verið að gera miklar endurbætur á herbergjum, skipta um innréttingar, leggja parket og setja upp þráðlausan internetaðgang fyrir gesti á Hótelinu.

Á Hótel Höfn vinna um 26 manns yfir sumartímann en 14 yfir vetrarmánuðina, búast má við að fleiri munu starfa við hótelið yfir komandi vetrarmánuðum þar sem mikil aukning er á gistingu yfir það tímabil.

Reiknað er með verkslokum í byrjun maí sem er tímanlegt áður en sumarvertíðin hefst hjá hótelinu segir Óðinn að lokum.