Fara í efni

Flestir vilja óbreytt fyrirkomulag á Vestnorden

Vestnorden 2004
Vestnorden 2004

Eins og flestir muna fór Vestnorden Travel Mart (VNTM),  fram í Kaupmannahöfn í september sl. Kaupstefnan var sú 20. í röðinni en hefur ávallt áður farið fram til skiptis á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Að þessu sinni sáu Grænlendingar um kaupstefnuna og kusu að bjóða til hennar í Kaupmannahöfn. Í haust verður hún í Reykjavik.

Stjórn Vestnorden ákvað í kjölfarið að efna til skoðanakönnunar meðal seljenda, kaupenda og annarra ferðaþjónustuaðila sem eru boðnir á kaupstefnuna árlega. Niðurstöður liggja nú fyrir. Sendir voru spurningalistar til 663ja fyrirtækja og bárust svör frá 231 sem er um 35% svarhlutfall. Það verður að teljast viðunandi m.v. könnun af þessu tagi. Flest svör bárust frá sýnendum (seljendum) eða 128 svör, 72 frá kaupendum og 23 frá aðilum sem töldu sig vera hvoru tveggja.

Óánægja með skipulag
Þegar spurt er um ánægju með síðustu kaupstefnu, svara 77% að þeir séu ánægðir í heildina. Mest ánægja er meðal Grænlendinga en minnst meðal Íslendinga og Færeyinga. Einkum voru menn óánægðir með sýningaraðstöðuna sem var í 2 húsum. Þá er kvartað undan framkvæmd fundaskipulagsins (appointments) svo og misvísandi upplýsingum um möguleika til að vera með sýnilegt kynningarefni.

September er bestur
Spurt er um þann mánuð sem helst ætti að hafa sýninguna í framtíðinni. Flestir vilja hafa hana í september eins og nú er eða 39%, þá maí 16% og 14% vilja október. Ekki er munur á afstöðu kaupenda eða seljenda að þessu leyti.

Þá er ennfremur spurt um lengd ferðakaupstefnunnar og eru flestir á því að núverandi lengd sé hæfileg eða 89%. Margir kaupendur eru þó á því að það mætti lengja hana úr einum og hálfum degi í tvo til að ná fleiri fundum.  


Kaupendur vilja upplifa áfangastaðina
Í ljósi ákvörðunar Grænlendinga að bjóða til VNTM í Kaupmannahöfn var spurt um hvar fyrirtækin vildu hafa kaupstefnuna í framtíðinni og var boðið uppá ýmsa valkosti: Eins og nú milli landanna 3ja, til skiptis í Reykjavik og Kaupmannahöfn, til skiptis í Þórshöfn og Reykjavík, árlega í Kaupmannahöfn eða þrjár sjálfstæðar kaupstefnur.

Flestir kjósa fyrsta kostinn þ.e. til skiptis í Reykjavik og Kaupmannahöfn, eða 42%. Óbreytt fyrirkomulag milli landanna 3ja vilja næstflestir eða 38% Nokkur munur er milli landa hvað menn vilja og einnig milli kaupenda og seljenda.

Flestir Íslendingar vilja til skiptis milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar, næstflestir óbreytt fyrirkomulag milli landanna 3ja.  Yfirgnæfandi meirihluti Færeyinga vill óbreytt fyrirkomulag en flestir Grænlendingar vilja eingöngu Kaupmannahöfn.

Flestir kaupendur vilja óbreytt fyrirkomulag milli 3ja landa, en flestir seljendur vilja halda VNTM til skiptis milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar.

Heildarniðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar stjórn Vestnorden á næstunni, en fulltrúar Íslands í stjórninni eru Steinn Lárusson frá Icelandair og Magnús Oddsson Ferðamálastjóri en hann er formaður stjórnarinnar.

Mynd: Frá Vestnorden þegar kaupstefnan var síðast haldin í Reykjavík haustið 2004.